03.03.1983
Neðri deild: 49. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ævintýramennska er auðvitað alltaf ágæt og skemmtileg og setur „kultør på livet“, eins og sagt er á skandinavískum málum, en það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að ævintýramennska eins og sú, sem þetta frv. fjallar um, sé kostuð af almannafé með þeim hætti sem hér er verið að leggja til. Og það sem meira er: Þetta er heldur ómerkileg leið til vinsældaöflunar, að með almannafé eigi að fara að ábyrgjast og væntanlega greiða fyrir þá starfsemi sem hér um ræðir. Ég vona og vænti þess, að frv. af þessu tagi nái ekki fram að ganga, þó að ekki væri nema vegna fordæmisins sem það hlýtur að fela í sér. (HBl: Veit þm. um fleiri gullskip?) Auðvitað er kjarni málsins sá, að það er bæði skemmtilegt og menningarlegt sem þarna er að gerast og kannske skilar þetta árangri, en þetta er verkefni fyrir einstaklinga. ekki almannasjóði.