03.03.1983
Neðri deild: 50. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það hastar nú mjög í þingstörfum og mál eru afgreidd með óvenjulegum hraða og þar með þetta frv. um bann við ofbeldiskvikmyndum, sem hér var afgreitt frá 2. umr. í gær.

Nú er það efnislega um þetta frv. að segja, eins og hv. þm. vita, að það er flutt vegna sértækra aðstæðna, sem nú eru uppi í samfélaginu, sem sé þær, að það hefur orðið tæknibylting á næstliðnum mánuðum með svokallaðri vídeóvæðingu og, sem mönnum mjög eðlilega hrýs hugur við, að inn í landið hafa flætt og eru bornar á borð fyrir börn og unglinga m. a. allsendis ósæmilegar kvikmyndir. Þetta eru ekki margar kvikmyndir, en allnokkrar, svo sem frá hefur verið skýrt í fjölmiðlum og við höfum fengið upplýsingar um. Það er því ofureðlilegt að frv. eins og þetta sé flutt.

En ég flutti hér í gær viðvörunarorð um það, að öll lög hafa í sér innbyggða íhaldssemi. Þau eru flutt af einhverjum tímabundnum og sértækum ástæðum, alveg eins og þetta frv. er. En ímyndum okkur að að fjórum eða fimm árum liðnum, þegar meira jafnvægi hefur komist á hina nýju tæknivæðingu og annað slíkt, sé sú hætta til staðar að einhverjir hugarins íhaldsmenn sitji í einhverjum opinberum nefndum og ráðum og fari að skilgreina orðið „ofbeldi“ með allt öðrum hætti en nú sannlega vakir fyrir löggjafanum. Því er það með lög af þessu tagi, sem fela í sér boð og bönn, hversu eðlileg þau eru á augnablikinu þá þau sett eru, að ekki er þar með sagt að þau eigi að standa um aldur og ævi, enda trúi ég ekki að það vaki fyrir löggjafanum.

Ég held að í menningarmálum eða skyldum málaflokkum þurfi menn að fara ákaflega varlega í lagasetningar af þessu tagi. Ég undirstrika, og ég veit að enginn hv. alþm. misskilur mig að því leyti, að auðvitað er mér eins og öllum öðrum fullljós nauðsynin á þessu í augnablikinu og þær mér liggur við að segja andstyggilega ástæður sem valda þessari löggjöf. En það breytir engu. Að nokkrum árum liðnum kunna aðstæður að vera orðnar allt aðrar. Þá er sú hætta fyrir hendi að í opinberum ráðum sitji einhverjir aðilar, standi lögin þá, sem annaðhvort hafa gleymt eða vita ekki um upphaflegan tilgang lagasetningarinnar og verða frekir til túlkunar um hvað eigi að skilgreina t. d. sem ofbeldi.

Sannleikurinn er sá, að að því er alla listsköpun varðar geta oft verið mjög óljós skil á milli annars vegar hreins plebejisma og hins vegar listsköpunar af öllu tagi. Það er sá vandi sem við ævinlega stöndum frammi fyrir.

Hér voru sett fyrir nokkrum dögum lög, ákaflega hæpin af minni hyggju, til varnar þjóðsöng Íslendinga. Ekki svo að skilja að hann eigi ekki að njóta verndar, heldur hitt, að það er vafamál um túlkun og framhald slíkra laga. Næst kynni svo að fara, að við færum að setja lög um það, eins og hér var raunar nefnt, að ekki mætti lesa Passíusálma nema með ákveðnum áherslum o. s. frv.

Nú skil ég algerlega á milli annars vegar þeirra sérstöku ástæðna, sem nú um stundir vara í landinu og vitaskuld þarf að stemma stigu við, og hins vegar þeirrar hættu, sem af leiðir að setja lög sem standa um aldur og ævi og menn eru farnir að túlka að ekki löngum tíma liðnum allt öðruvísi en var upphaflegur tilgangur löggjafans.

En því, herra forseti, nefndi ég þetta, að víða eru menn farnir að taka upp nýjar aðferðir við lagasetningu af þessu tagi, þ. e. þá, að lög af þessu tagi séu samþykkt vitandi um hina tímabundnu nauðsyn, en jafnframt sé í lögunum ákvæði um að þau falli úr gildi að ákveðnum tíma liðnum. Þetta hefur verið nefnt „sólarlagsaðferð“. Ef mönnum þykir að þremur eða fjórum árum liðnum ástæða til að hafa slík lög í gildi fái Alþingi aftur, það Alþingi sem þá kemur til með að sitja, að samþykkja slík lög. Með þessu koma menn í veg fyrir hættuna sem af því leiðir að lög af þessu tagi verði í framkvæmd og í framtíð túlkuð með allt öðrum hætti, þegar hinar tímabundnu sérstöku aðstæður hafa gleymst.

Fyrir slíkri lagaframkvæmd og túlkun höfum við svo mörg fordæmi í t. d. menningarsögunni að það þarf að taka sérstakan vara við því. Ég veit að enginn hv. þm. snýr svo út úr máli mínu að ruglað sé saman annars vegar þeim sérstöku aðstæðum sem til þessa frv. leiða. ég hef fulla samúð með þeim í sjálfu sér, og hins vegar því langtímamarkmiði sem við verðum að hafa í huga, ekki bara um þessa lagasetningu heldur um alla lagasetningu.

Af þessari ástæðu, herra forseti, og ég áttaði mig ekki á því að svo væri hastað að þetta mál kæmi til 3. umr. með afbrigðum daginn eftir 2. umr., vildi ég í mikilli vinsemd mælast til þess að þessu máli yrði frestað til mánudags, því mig langar til að fá að athuga hvort ekki er hægt að ná um það samkomulagi, og nefndi það raunar við hæstv. ráðh. í gær, að setja einmitt „sólsetursákvæði“ inn í þessi lög, þannig að þau gildi í ákveðinn tíma og falli svo úr gildi, en Alþingi endurnýi þau ef enn þykir ástæða til þegar þessi tæknibylting er komin í meira jafnvægi en er nú um stundir.

Mér sýnist einmitt að „sólarlagsaðferðin“, sem svo er kölluð, eigi hvergi betur við. Ég hlýt að trúa því að hið háa Alþingi sé svolítið hugsi yfir boða- og bannabraut í menningarmálum af þessu tagi. Ég vildi því, herra forseti, mælast til þess að þetta mál yrði ekki tekið til endanlegrar afgreiðslu héðan úr deildinni fyrr en á mánudag, eftir að sýnt þykir hvort aðrir alþm. mundu fallast á þessa aðferð, m. ö. o. að lögin yrðu samþykkt, en jafnframt yrðu ákvæði um að þau féllu úr gildi að tilteknum einhverjum skynsamlega ákvörðuðum tíma og Alþingi yrði að taka málið upp að nýju, ef enn þætti vera hætta á því ósæmilega athæfi, skulum við segja, sem vissulega er tilefni lagasetningar af þessu tagi. Því, herra forseti, vildi ég mælast til að þessu máli yrði frestað til mánudags og við fengjum tíma í millitíðinni til að athuga okkar gang aðeins betur að því er þetta varðar.