03.03.1983
Neðri deild: 50. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Guðmundur J. Guðmundsson):

Herra forseti. Hér urðu í gær nokkrar umr. um 208. mál. Ég held að það hafi verið skýrt efnislega og sé óþarfi að fara nokkuð ítarlegar í það en gert var í gær. Ég vil þó leggja skýra áherslu á að tilgangur þessa frv. er að taka af öll tvímæli svo að menn þurfi ekkert sérstaklega að vera að sækja um niðurfellingu vegna aldurs. Reynslan hefur sýnt að þeir sem fyrst og fremst sækja um eru þeir sem eru kunnugir þessum lögum. Það er mjög áberandi og gegnumgangandi að fólk hefur ekki kunnugleika á rétti sínum þarna. Þetta þarf að vera afdráttarlaust og skýrt.

Ég sé engum ofsjónum yfir því þó svo helmingur dragist frá skattskyldum tekjum þegar maður lætur af störfum. Þarna er yfirleitt um að ræða fólk sem er búið að vinna langan og strangan vinnudag. Og hvað er svona voðalega hættulegt við þetta? Það sem er hættulegt og er búið að vera lengi hættulegt er það, að gamalt fólk eða fólk sem er að hætta störfum getur bókstaflega ekki hætt vinnu vegna þess að það er komið inn í ákveðinn vítahring skattakerfisins. Aðrir eiga í erfiðleikum með þetta. Menn hafa andvökur af þessu og hvers kyns skelfingu. Af hverju er ekki hægt að gera lög hér einföld? Þegar maður lætur af störfum skal helmingurinn af hans tekjum dreginn frá skattskyldum tekjum. Síðan koma frádráttarliðir eins og lög ákveða. Hreint borð, engir vafningar, ekkert að vefjast fyrir fólki. — Það má kannske benda á einstakar undanþágur. Það má nefna hæstaréttardómara o. s. frv. Ég vil ekki fórna réttindum almenns verkafólks vegna þess að 5, 6 eða 10 menn í landinu mundu e. t. v. græða á þessu og hafa þó nóg fyrir.

Hér kom fram í umr. í gær, og ég hafði hreinlega ekki skap í mér til að svara því, en það kom að nokkru leyti fram í grg. fyrir atkvæði, að jafnvel væri verið að víkja frá meginreglu skattalaganna því að sumir gætu hækkað. Hverjir mundu hækka? Jú, það gæti verið verkamaður með 8 tíma vinnu, það gæti verið iðnverkamaður eða iðnverkakona með dagvinnu. Það eru möguleikar á að þetta fólk gæti hækkað. Þvílík ósköp, ef skattur á þessu fólki félli nú niður um helming eða skattskyldar tekjur þess yrðu helmingaðar þegar það léti af störfum! Ég sé enga hættu í þessu. Mér finnst það réttlætismál. Og það vita allir, sem til þessara mála þekkja, að þetta er áhyggjumál hjá fullorðnu fólki, sem er að láta af störfum og algjör óþarfi að vera að slá eitthvað um sig og tala um grundvallarprinsipp skattalaga.

Ég gat þess áður, að nefndin hefði kvatt sér til ráðuneytis sérfróða menn. Ég gat þess líka, að þeir hefðu ekki verið af verri endanum. Þar hefðu verið Árni Kolbeinsson deildarstjóri fjmrn., einn alhæfasti og óumdeildasti maður á því sviði, og ríkisskattstjóri. Vitanlega er till. ekki þeirra, en hún er samin af þeim í anda frv. og nær þeim tilgangi sem kemur fram í upphaflega frv. á þskj. 369.

Ég gat þess líka, að það væri þörf á að þetta mál færi fljótt í gegn því að ríkisskattstjóri þyrfti að auglýsa. Ef málið verður hér samþykkt skeður það hneyksli, að manni skilst, að ríkisskattstjóri verður að auglýsa til allra þeirra sem látið hafa af störfum að þeir komi bréfi eða orðsendingu til skattstofunnar um að þeir hafi látið af störfum og þá verði tekið tillit til þess við skattálagningu á þessu ári. Ja, þvílíkt hneyksli!

Það er satt að segja þyngra en tárum taki að vera að deila við flokksbræður sína eða systkini um svona lagað, en sleppum því.

Þeir embættismennirnir eru nákvæmir. Þó skýrt sé frv. að öllu leyti hafa þeir við mjög nákvæma skoðun séð að með því að fella niður 7. málslið í 66. gr. væri líka felld niður heimild til að lækka eignarskatt. Verð ég að koma hér núna vegna þess að þetta var tekið fyrir með viðbótartillögu. Brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta. það er brtt. við frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75 o. s. frv., um tekjuskatt og eignarskatt:

„Á eftir 3. gr. frv. komi ný grein er verði 4. gr. Jafnframt verði 4. gr. frv. 5. gr. þess. Greinin orðist Svo:

2. málsgr. 80. gr. laganna orðist svo:

Heimilt er skattstjóra að taka til greina umsókn manns um lækkun eignarskattsstofns hans þegar svo stendur á sem í 9. tölulið A-liðs 1. málsgr. 30. gr. og 1. tölulið 1. málsgr. 66. gr. greinir, enda hafi gjaldþol manna skerst verulega af þeim ástæðum“

Með brottfellingu ákvæðisins í 66. gr. er raunverulega felld niður heimild skattstjóra til að taka tillit til gjaldþols manns í sambandi við eignarskatt, að hann geti sótt um lækkun á honum. Það er ekki sjálfvirkt, heldur aðeins um það heimildarákvæði. Þessi till. er eðlileg og sjálfsögð efnislega, svo ekki sé farið að vitna í 10–20 lög. Með brtt. á þskj. 396 er heimild skattstjóra til að lækka eignarskatt felld niður. Með þessari nýju brtt., sem yrði 4. gr., er þessi heimild tekin inn í eignarskattslögin og veitt skattstjóra eins og áður var.

Ég vil jafnframt taka fram í sambandi við brtt., sem var verið að greiða hér atkvæði um áðan, á þskj. 396, að brtt. er um að það séu eingöngu atvinnutekjur sem helmingist. Það mátti skilja áður en frv. var breytt að það væru allar tekjur. En með breytingunni á þskj. 369 er skýrt að það eru eingöngu atvinnutekjur.

Ég vona að forseti taki þessa till. til greina þó að hún sé hér munnlega flutt. Ég ítreka að þetta er nákvæmlega yfirfarið og er að öllu leyti í samræmi við lög. En umfram alla muni bið ég hv. þm. að vera ekki að sjá neinum ofsjónum yfir því þó skýr ákvæði séu um að þegar maður lætur af starfi sé einu sinni — þetta er ekki hægt að endurtaka ef maðurinn fer í einhverja aðra vinnu — felldur niður helmingurinn af tekjum hans til skatts. Mikið held ég að almennt fólk í landinu sé þessari till. sammála.