03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í lögum um stjórn flugmála frá 1950 segir: „Ráðherra skipar flugmálastjóra að fengnum tillögum flugráðs.“ Eins og reyndar hefur komið hér fram eru ekki bornar brigður á þetta vald ráðh.

Þegar staða flugmálastjóra losnaði við fráfall fyrrverandi flugmálastjóra var staðan að sjálfsögðu auglýst og bárust 11 umsóknir. Þær voru allar sendar flugráði og þeim var dreift til einstakra flugráðsmanna. eftir því sem ég best veit líklega 16. febrúar s. l., þ. e. daginn áður en fundur var haldinn í flugráði. Ég fór yfir þessar umsóknir. Það vakti athygli mína að margar þessara umsókna eru frá einstaklingum sem tvímælalaust eru vel hæfir til að gegna umræddri stöðu. Ég ætla ekki að fara að nefna nein nöfn í því sambandi, en nöfnin hafa verið birt og geta menn sjálfir gengið úr skugga um það.

Málið var tekið fyrir á fundi flugráðs, sem haldinn var 17. þ. m. Ég hef fengið fundargerð frá þeim fundi. 1041. fundi flugráðs. Þar segir um stöðu flugmálastjóra:

„Lagt fram bréf samgönguráðuneytisins, dags. 11. febr. 1983, þar sem fram kom að eftirfarandi sóttu um stöðuna“. — Ég sé ekki ástæðu til að lesa þá upp. „Ljósrit voru send flugráðsmönnum af umsóknum þeirra, er sóttu um stöðuna, miðvikudaginn 16. febr. s. l. Eftirfarandi tillaga kom fram.“

Ég fékk einnig þá tillögu. Hún er í handriti, eins og menn sjá hér, og 1. flm. Albert Guðmundsson. Er hún augsýnilega með hans hönd skrifuð. Tillagan er svona:

„Flugráð leggur samhljóða eindregið til að Leifur Magnússon verður skipaður flugmálastjóri. Hann hefur ótvírætt að baki víðtækustu reynslu og þekkingu umsækjenda á öllum þáttum íslenskra flugmála. þar á meðal varðandi starfrækslu íslensku alþjóðaflugþjónustunnar á Íslandi, ásamt öðrum alþjóðlegum samskiptum Íslands á sviði flugmála.“

Undir þessa tillögu skrifa 8 aðal- og varamenn. Till. er samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Um aðrar umsóknir varð ekki umræða á fundi flugráðs. Ég hef aldrei sagt að einstakir flugráðsmenn hafi ekki kynnt sér umsóknirnar. Ég hef gert athugasemd við það, að ekki skyldi sameiginlega fjallað um þessar umsóknir á fundi flugráðs. Það var ekki gert.

Ég sagði áðan að ég tel að í hópi umsækjenda séu ýmsir sem hafi svo sannarlega verðskuldað að um þá yrði fjallað og vel hafi komið til greina hjá flugráði að benda á fleiri en einn umsækjanda hæfa í þessa stöðu. Ég vona því að ég hafi svarað þessari spurningu hv. fyrirspyrjanda. Ég tel fyrir mitt leyti, og dreg það ekki til baka, að það sé óeðlilegt af flugráði að fara ekki yfir umsóknirnar og fjalla um þær í staðinn fyrir að samþykkja tillöguna umræðulaust.

Mér var að sjálfsögðu send þessi niðurstaða samstundis. Ég tel að mér sé skylt samkv. þeirri lagaskyldu sem á mér hvílir að skoða málið vandlega. Það gerði ég. Ég ræddi við ýmsa menn um skipun flugmálastjóra. Til mín bárust einnig ýmsar umsagnir. Að sjálfsögðu er mönnum frjálst að senda slíkt inn þó þeir séu ekki tillöguaðili að skipun flugmálastjóra.

Af því að þær umsagnir hafa verið gerðar að umræðuefni vil ég geta þess, að mér barst bréf frá Félagi flugumsjónarmanna þar sem mælt er með skipun Leifs Magnússonar í þessa stöðu. Mér barst einnig bréf frá Félagi ísl. atvinnuflugmanna þar sem mælt er með skipun Leifs Magnússonar í þessa stöðu. Mér barst skeyti frá Bjarna Jónssyni flugmanni í Vestmannaeyjum, sem mælir með skipun Péturs Einarssonar. Undirrituð ályktun barst frá þremur umdæmisstjórum þar sem mælt er með skipun Péturs Einarssonar. Þeir eru: Guðbjörn Charlesson, Ísafirði, Ingólfur Árnason. Egilsstöðum. Rúnar H. Sigmundsson, Akureyri. Þá barst bréf frá formanni Vélflugfélags Íslands, Þorkatli Guðnasyni, þar sem hann mælir með skipun Péturs Einarssonar. Bréf barst frá Arngrími Jóhannssyni yfirflugstjóra, þar sem hann mælir með skipun Péturs Einarssonar. Þá barst undirskriftarlisti frá 27 mönnum. sem að flugmálum starfa. þar sem mælt er með skipun Péturs Einarssonar. Á minn fund gekk formaður Félags flugumferðarstjóra og mælti með skipun Péturs Einarssonar. Einnig barst mér í hendur listi, undirskrifaður af 212 mönnum, þar sem út af fyrir sig er ekki mælt með neinum, en því andmælt að verið sé að safna undirskriftum til stuðnings Pétri Einarssyni.

Ég kannaði líka í ráðuneytinu og víðar hvernig mönnum hefðu líkað störf Péturs Einarssonar. Það kom eindregið fram að störf hans hafi líkað mjög vel og talið að þau 21/2 ár sem hann hafði gegnt starfi varaflugmálastjóra og svo sem settur flugmálastjóri hefði verið hin besta regla á hans störfum öllum. Ég vil leyfa mér að fullyrða að sú hafi einnig orðið niðurstaðan í fjmrn., sem hefur haft mikið saman við Pétur að sælda í sambandi við þessi mál.

Mín niðurstaða varð því sú, að það væri ekki rétt að ganga fram hjá Pétri Einarssyni. Það hafa ekki komið fram þau rök í málinu sem réttlættu að ganga fram hjá manni sem skipað hefur stöðu varaflugmálastjóra í 21/2 ár. Ég vek jafnframt athygli á því. að Leifur Magnússon, sem lengi hafði gegnt þessari stöðu og vissulega með ágætum. yfirgaf flugráð og tók upp annað starf. Mér sýnist ekki að það sé sjálfgefið að maður geti svo komið til baka og krafist þess að fá stöðu flugmálastjóra. En ég vil taka fram. eins og ég hef hvað eftir annað tekið fram. að ég hef ekkert nema gott um Leif Magnússon að segja. Ég tel hins vegar að með tilvísun til þess ágæta vitnishurðar sem Pétur Einarsson hefur fengið frá öllum hefði verið í hæsta máta ódrengilegt að ganga fram hjá honum í þessu sambandi.

Ég hef áður vakið athygli á ummælum Alberts Guðmundssonar, sem birtust í Dagblaðinu 26. febr., þar sem Albert Guðmundsson segir:

„Ég vil á sama tíma að það komi fram að Pétur Einarsson hefur gegnt stöðunni með ágætum þennan stutta tíma sem hann hefur verið þarna. Hann hefur gegnt bæði stöðu varaflugmálastjóra og flugmálastjóra í ágætu samstarfi við flugráð.“

Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að mjög mikilvægt er að gott samstarf sé á milli flugmálastjóra og flugráðs og ég met þess vegna mikils þennan vitnisburð Alberts Guðmundssonar. Reyndar hef ég heyrt það frá fleirum í flugráði að samstarf við Pétur Einarsson hafi verið með ágætum.

Ég verð að lýsa nokkurri undrun minni á því að málið skuli hafa verið afgreitt í þingflokki Sjálfstfl. Við tókum málið ekki fyrir í þingflokki Framsfl. þetta kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda.

Ég vil svo segja það. að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherra hefur verið gagnrýndur fyrir skipun í embætti. Það hefur oft tíðkast. Meðal annars gerðist það 1954. Þá var þáverandi dóms- og menntmrh. Bjarni Benediktsson gagnrýndur mjög harðlega fyrir skipun í kennaraembætti, prófessorsembætti og þess háttar. Þá var borin fram á hann vantrauststillaga. Með leyfi forseta vil ég lest stuttan kalla úr svari Bjarna heitins Benediktssonar. Hann segir:

„Um enga af þessum stóðum er því haldið fram, að ég hafi ekki haft vald til að ráðstafa henni eins og ég gerði. Hinu hefur verið hreyft, að ég hafi ekki fylgt tillögum þeirra aðila sumra. sem tillögurétt áttu um stöðuveitinguna. Þetta er rétt. En ef það væri skylda að fylgja ætíð tillögum þeirra, sem slíkan tillögurétt eiga, væri veitingarvaldið vitanlega ekki hjá ráðh., heldur hinum, sem tillöguréttinn á. Það, að ráðh. hefur samkvæmt skýlausum ákvæðum laga ákvörðunarvaldið, fær honum bæði rétt og skyldu til að kanna hvert mál sjálfur og veita stöðuna eftir því sem hans eigin sannfæring segir til um, en ekki einhverra annarra. Ef hann bregst þessari skyldu sinni, hefur hann sýnt, að hann er ekki hæfur til að gegna því mikilsverða embætti sem honum hefur verið veitt. Nafn hans er þá ekki annað en stimpill, sem aðrir geta sett á sínar gerðir þeim til staðfestingar. Ég hef aldrei verið slíkt verkfæri í annarra höndum og vona, að ég verði það seint“. sagði Bjarni heitinn Benediktsson, og ég vil leyfa mér að gera þessi orð hans að mínum.