04.11.1982
Sameinað þing: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1983

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Fjárlagafrv. fyrir árið 1983 var rætt á Alþingi við nokkuð óvenjulegar aðstæður. Ríkisstj. hefur ekki lengur þingfylgi til þess að koma fram brbl. um efnahagsráðstafanir frá því í sumar og treystir sér ekki til þess að leggja brbl. fyrir Alþingi, en vitaskuld hafa þessi brbl. töluverð áhrif á útgjöld ríkissjóðs árið 1983. Þá hefur komið í ljós hér á Alþingi síðustu daga, að mikill ágreiningur er meðal stuðningsmanna hennar um síðustu aðgerðir í efnahags- og peningamálum, sem m.a. eru forsenda þeirrar þjóðhagsáætlunar sem forsrh. lagði fram á Alþingi í s.l. viku fyrir hönd ríkisstj.

Ráðherrar hafa lýst sig andvíga þeim vaxtaákvörðunum, sem Seðlabankinn ákvarðaði að höfðu samráði við ríkisstj., og einn þeirra ráðh. er einmitt hæstv. fjmrh., sem hefur nýlokið við að tala fyrir fjárlagafrv. fyrir 1983, sem einmitt grundvallast á þeirri efnahagsstefnu, sem kynnt er í þjóðhagsáætluninni, sem ríkisstj. hefur lagt fram. Hæstv. fjmrh. lýsti því hér yfir, sérstaklega aðspurður, að það væri rétt skilið, sem eftir honum væri haft í útvarpi fyrir nokkru, að hann væri andvígur því sem Seðlabankinn hafði þá gert og kemur svo nú fyrir Alþingi og mælir fyrir fjárlagafrv., sem byggir á þjóðhagsáætlun, sem gerir ráð fyrir þeim aðgerðum, sem Seðlabankinn ákvarðaði í þessari viku.

Í þjóðhagsáætluninni, sem lögð var fram, stendur, með leyfi forseta, á bls. 7:

„Þar þarf að tryggja viðunandi ávöxtunarkjör sparifjár í formi verðtryggingar og vaxta og koma á sem mestu samræmi milli vaxta og verðtryggingarkjara á útlánum. Þetta felur í sér breytingu á vöxtum óverðtryggðra inn- og útlána við núverandi aðstæður. Einnig er nauðsynlegt að gera breytingar á reglum og kjörum viðskipta innlánsstofnana við Seðlabankann til þess að herða aðhald að útlánum innlánsstofnana. Með hinum nýju reglum verður að gera kröfu til innlánsstofnana um aðlögun til jafnvægis í rekstri þeirra.“

Hér er eins og heyra má eitt grundvallaratriði í þeirri efnahagsstefnu sem þjóðhagsáætlunin gerir grein fyrir. Ég hygg að það hafi hvergi gerst og það geti hvergi gerst nema hjá þeirri ríkisstj. sem hér situr við völd, að fjmrh. tali fyrir fjárlagafrv. um leið og hann lýsir sig andvígan þýðingarmiklum þáttum þjóðhagsáætlunar ríkisstj. sem hann situr í.

Þá er það óvenjulegt nú, þegar fjárlagafrv. er rætt, að ríkisstj. hefur ekki á vísan að róa til stuðnings þeim tekjufrumvörpum sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að framlengd verði og tekjuhlið frv. er byggð á. Það er ljóst af hálfu okkar sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu, að það verður ekki um stuðning að ræða nú frekar en áður við framlengingu þessarar auknu skattheimtu.

Vegna þessa ástands, sem nú ríkir í þjóðfélaginu í efnahags- og atvinnumálum og er afleiðing rangrar stjórnarstefnu og mikilla mistaka, er ljóst að forsendur þessa fjárlagafrv. taka ekki til þess raunveruleik? sem við blasir. Frv. er að gerð til svipað fyrri frv. þessarar hæstv. ríkisstj., sem öll hafa borið einkenni vinstri stefnu í efnahagsmálum.

Af fyrstu aðgerðum ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar í sept. 1978 mátti ráða hvert stefnt yrði í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar. Alþb., Framsfl. og Alþfl. reyndist auðvelt að ná saman um ómengaða vinstri efnahagsstefnu, sem hafði í för með sér aukna skattheimtu, sem þrengdi afkomu heimilanna og atvinnuveganna, aukinn tilflutning fjármuna milli aðila í þjóðfélaginu, sem leitt hefur m.a. til rangrar verðmyndunar á framleiðslu, aukningu ríkisumsvifa, sem dregið hefur úr sjálfstæði einstaklinga og atvinnuvega, og auknar erlendar lántökur, sem m.a. hefur verið varið til óarðbærrar fjárfestingar. Afleiðingar þessarar efnahagsstefnu komu strax fram. Birtust þær í vaxandi verðbólgu, eins og gerst hafði 1971 þegar Ólafur Jóhannesson myndaði sína fyrri vinstri stjórn.

Núv. ríkisstj. hefur ekki aðeins haldið þessari vinstri efnahagsstefnu, heldur gengið sýnu lengra í aukinni skattheimtu, auknum millifærslum, aukningu ríkisumsvifa og auknum erlendum lántökum. Það hefur leitt til þess að verðbólgan herjar nú á allt þjóðfélagið með þeim hætti að grundvöllur atvinnuveganna í landinu er brostinn og afkomu þeirra þar með stefnt í hættu.

Það voru vissulega fögur fyrirheit sem gefin voru af ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens í upphafi til þess að rétta við hallann á þjóðarskútunni. Verðbólguvandinn skyldi þá tekinn föstum tökum og þjóðinni var hátíðlega tilkynnt, að í lok ársins 1982 skyldi verðbólgan vera orðin svipuð og í viðskiptalöndum okkar. Það liður nú að lokum ársins 1982. Vitanlega hefur ríkisstj. enn tækifæri til þess að koma fram sínum áformum. Að vísu styttist óðum, en það má vel vera að ævintýrið á gamlárskvöld gerist aftur og við vöknum upp við það 1. jan. 1983 að verðbólgan á Íslandi sé komin niður í það sem hún er í okkar næstu viðskiptalöndum. (Gripið fram í.) Má vera að sumir hafi aldrei farið að sofa.

Í aths. við fyrsta fjárlagafrv. núv. ríkisstj. fyrir árið 1980 sagði í upphafi aths.:

„Meginverkefni ríkisstj. er að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf, enda er það ein helsta forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Jafnframt leggur ríkisstj. áherslu á að efla menningarstarfsemi, auka félagslega þjónustu og jafna lífskjör. Ríkisstj.“ — og nú kom það — „mun berjast gegn verðbólgunni með aðhaldsaðgerðum er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál.“

Ríkisstj. gerir þar ennfremur grein fyrir nokkrum meginþáttum í efnahagsstefnu sinni, sér í lagi niðurtalningarformúlu Framsóknarflokksins, og segir:

„1) Verðhækkunum á þeim vörum og þjónustu, sem verðlagsráð fjallar um, verði sett eftirgreind efri mörk ársfjórðungslega á árinu 1980“ — og síðan er greint frá niðurtalningarreglunni.

„2) Verðhækkanir á búvöru fylgi sams konar reglum, enda verði niðurgreiðslur ákveðnar sem fast hlutfall af útsöluverði árin 1980 og 1981.

3) Fyrir maí/júní 1980 skulu afgreiddar sérstakar hækkunarbeiðnir fyrirtækja og stofnana“ o.s.frv.

Í samræmi við þetta voru verðlagsforsendur fjárlagafrv. fyrir árið 1980 miðaðar við að verðhækkanir frá upphafi til loka árs 1980 yrðu 31% og meðalhækkun verðlags 1979 til 1980 45–46%. Hér var ætlunin að ganga hreint til verks og þjóðin látin vita að hverju var stefnt. Hver var svo niðurstaðan af þeim fögru fyrirheitum sem ríkisstj. setti sér í upphafi valdaferils síns og hvernig reyndist niðurtalningarleið Framsfl. fyrsta starfsár ríkisstj.?

Á árinu 1980 varð hækkun framfærsluvísitölu frá upphafi árs til loka árs 58.9% í stað 31% sem voru áform ríkisstj. Meðalhækkun framfærsluvísitölu á árinu 1980 var 58.5% í stað 46%. Það var því langt í frá að ríkisstj. tækist á fyrsta valdaári sínu að ná fyrirheitum í efnahagsmálum og brugðust hrapallega ráðin um niðurtalninguna hjá Framsfl. En það var kannske til of mikils ætlast að þeim tækist á fyrsta ári að gera allt.

Í athugasemdum við fjárlagafrv. fyrir árið 1981 segir að verðlagshækkanir frá miðju ári 1980 til miðs árs 1981 verði um 42%, sem er nokkuð minni verðbólga en verið hefur nú um stund eins og það er orðað. Reyndin varð allt önnur, eins og 1980. Verðbólgan varð á árinu 1981 50.9% í staðinn fyrir 42.

Í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1982 gefst svo ríkisstj. upp við að gera grein fyrir stefnu sinni og áformum í verðlagsmálum á árinu 1982. Í stað þess að semja fjárlagafrv. þar sem reynt er að móta ríkisfjármálin sem lið í efnahagsaðgerðum til hjöðnunar verðbólgu var það frv. byggt á svokallaðri reiknitölu, en í grg. sagði:

„Reiknitala fjárlagafrv. varðandi hugsanlega hækkun verðlags og launa er miðuð við 33% milli áranna 1981 og 1982.“ Og svo kemur undirstrikað: „Það skal tekið fram, að reiknitala fjárlagafrv. er ekki hugsuð sem verðbólguspá fyrir komandi ár. Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982 verða settar fram horfur um verðbólgu á komandi ári. Varla verður þó unnt að setja fram trausta spá um verðlagsþróun á árinu 1982 fyrr en fleiri efnahagslegar staðreyndir liggja fyrir, þ. á m. hvað gerist í komandi kjarasamningum.“

Við skulum líta á staðreyndir málsins eins og þær blasa við okkur í dag. Hefur betur til tekist en hin tvö árin? Eru ríkisstj. og stjórnarflokkarnir nær loforðinu, sem ég vék að hér áðan, um stöðu mála í lok ársins 1982?

Í fjárlagafrv. er reynt að fela efnahagsstaðreyndir. Gert er ráð fyrir hækkun verðlags á milli áranna 1981 og 1982 um 50%. Hins vegar hefur það komið fram af hálfu Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka að verðbólgan á árinu 1982 væri ekki undir 60% frá upphafi árs til loka. Það er því ljóst að verðbólgan er miklu meiri nú þegar frv. til fjárlaga fyrir árið 1983 er til umræðu en ráðh. hafa viljað vera láta. Hinn 1. nóvember hækkar framfærsluvísitalan um 17%. Það þýðir að 87% verðbólga er í landinu. Ef byggingarvísitalan er skoðuð kemur út sama niðurstaða. Hækkun byggingarvísitölunnar síðustu þrjá mánuði segir að verðbólgan sé yfir 85% . Ef nánar er skoðað hve mikið framfærsluvísitalan hefur þá hækkað í tíð núv. ríkisstj. kemur í ljós að hún hefur rúmlega þrefaldast frá því í febrúar 1980, þegar ríkisstj. tók við völdum. Þegar þessar staðreyndir eru bornar saman við fyrirheitin í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens kemur fram svo ekki verður um villst að ríkisstj. hefur með engum hætti tekist að ná fram þeim markmiðum sem hún setti sér í upphafi um verðlagsmál. Þvert á móti hallast nú þjóðarskútan miklum mun meira en þegar bjarga skyldi heiðri Alþingis og ríkisstj. var mynduð.

Sá þáttur efnahagsmála sem ríkisstj. getur haft mest áhrif á eru ríkisfjármálin. Annars vegar er um að ræða ríkissjóð sjálfan, A-hluta fjárlaga, hins vegar er B-hlutinn, þjónustustofnanir með eigin fjárhag, opinberir fjárfestingarlánasjóðir og opinberar framkvæmdir samkvæmt lánsfjáráætlun. Það hefur ekki farið framhjá neinum hver skoðun ríkisstj. er á því hvar best hafi til tekist. Forsrh. svo og hæstv. fjmrh. hafa notað hvert tækifærið til að greina frá góðri rekstrarafkomu A-hluta ríkissjóðs. Það er rétt að rekstrarafkoma A-hluta ríkissjóðs hefur verið betri á árunum 1980 og 1981 en stundum áður. Í þessari umr. hafa ráðh. lagt áherslu á að greiðsluafkoma A-hluta ríkissjóðs hafi verið hagstæð og þá eingöngu vitnað til skuldastöðu ríkissjóðs hjá Seðlabankanum, sem hafi farið lækkandi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, enda þótt skuldin við Seðlabankann hafi hækkað í krónutölu.

Þegar rætt er um skuldastöðu A-hluta ríkissjóðs verður ennfremur að taka tillit til hverjar breytingar hafa orðið á öðrum lána- og greiðslufjárreikningum ríkissjóðs, ekki aðeins á bankareikningnum hjá Seðlabankanum. Þegar það er gert kemur allt annað í ljós en ráðh. hafa viljað vera láta. Það að gera dæmið upp út frá bankareikningi ríkissjóðs og gera ekki grein fyrir þeim umsömdu lánum sem A-hluti fjárlaganna, ríkissjóður, hefur tekið, gera ekki grein fyrir þeim viðskiptaskuldum sem ríkissjóður skuldar, er nokkuð svipað og ef einstaklingur, sem telur fram um áramót, teldi aðeins fram yfirdráttarskuld á hlaupareikningi, en sleppti öllum verðlánum og öðrum skuldum sem óumsamdar væru.

Hér áðan minntist hæstv. fjmrh. á skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Mér er kunnugt um þessa skýrslu. En hún kemur ekki inn á það sem hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa verið að segja þegar að þeir hafa verið að tala um skuldastöðuna hjá ríkissjóði. Þessi skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ræðir um fjármagnsþörfina eftir útkomu hvers árs fyrir sig og metur hver þörfin var. Það hefur aldrei farið framhjá einum eða neinum hver var t.d. útkoma ársins 1975 í þeim efnum. En ég vil hins vegar benda á að í þessari skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru t.d. ekki með gjöld Kröfluvirkjunar, þar er Landsvirkjun ekki með, þannig að samanburðurinn og dæmið uppgert eins og þar er er ekki fullkomlega reiknað út frá ríkisreikningi okkar.

Ef skuldir ríkissjóðs A-hluta, í árslok 1977 eru skoðaðar eru þær samkvæmt ríkisreikningi 378 millj. kr., þar af 150 millj. við Seðlabankann. Nokkur hluti þessara skulda er spariskírteini og þau eru þar á nafnverði. Innlausnarverðmætið vita menn ekki raunverulega hvert er, en meta það. Ég mundi halda að ekki væri óeðlilegt að tala um skuldir ríkissjóðs upp á 450 millj. þar af leiðandi. Skuldir ríkissjóðs í árslok 1981 voru um 2300 millj., þar af 250 millj. við Seðlabankann. Þær hafa hækkað um 100 millj. Það sem þarna hefur gerst er einfaldlega það, að í staðinn fyrir að taka viðbótarlán hjá Seðlabankanum hafa verið tekin erlend lán. Erlendu lánin sem A-hlutinn skuldar 1975 eru 77,9 millj., en 1981 1 milljarður 506 millj. kr. Ef þessar tvær tölur, þannig fram settar, eru reiknaðar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu kemur út úr þeirri mynd að hér er um mjög svipað hlutfall að ræða sem skuld ríkissjóðs af þjóðarframleiðslu.

Hlutfall skuldar ríkissjóðs við Seðlabankann hefur lækkað af þjóðarframleiðslu, sem liggur í hlutarins eðli þegar við höfum búið við 50–60% verðbólgu á hverju ári. En þegar þessi samanburður er gerður hefur ekki verið tekið tillit til þess að ýmsir sjóðir í B-hluta, sem fengu áður millifærslu frá A-hluta fjárlaga, hafa verið látnir taka til þess að fjármagna útgjöld sín lán sem ríkissjóður mun greiða, þannig að í raun og veru ætti að færa þessar lántökur með lántökum ríkissjóðs. Auk þess má benda á, að aukin skattheimta, sem þessi ríkisstj. hefur staðið fyrir, nemur sennilega 3.4 milljörðum á þremur árum eða um 80 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu, en þetta fjármagn, þessir skattar, hefur ekki verið notað til að lækka skuld ríkissjóðs, heldur hefur enn verið varið til aukinna rekstrarútgjalda hjá ríkissjóði, auk þess að, eins og ég gat um áðan, erlendar lántökur hafa verið auknar.

Ef þetta er borið saman liggur ljóst fyrir að skuldastaða ríkissjóðs í lok ársins 1981 er síður en svo betri en í lok ársins 1977, þrátt fyrir auknar skatttekjur. Þrátt fyrir auknar erlendar lántökur er hægt að benda á að vitlaus gengisstefna núv. hæstv. ríkisstj., þ.e. að gjaldeyrir hefur verið á útsölu mánuðum saman, hefur valdið því að ríkissjóður hefur haft miklar tekjur af innflutningi. Það er talið að á árinu 1981 sé hér um að ræða 2% af þjóðarframleiðslu, sem mundi nema um 400 millj. kr., og það er meira en sá afgangur sem menn eru að státa sig af. Þessu hefur haldið áfram árið 1982. Eins og hæstv. fjmrh. sagði í framsöguræðu sinni áðan er staða ríkissjóðs eftir níu mánuði þannig, að það er rekstrarafgangur sem nemur 120 millj. kr. En tekjur ríkissjóðs af þessum ástæðum munu vera á sama tímabili 200 millj., þannig að í raun og veru, ef við hefðum verið hér með rétta gengisskráningu og við hefðum ekki verið með þann óhemjuviðskiptahalla sem hefur svo verið fjármagnaður með erlendri lántöku, væri 80 millj. kr. halli á ríkissjóði eftir fyrstu níu mánuðina.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa það sem Þjóðhagsstofnun segir um þessa stöðu:

„Hin mikla aukning innflutnings í fyrra hefur þannig skilað ríkissjóði drjúgum tekjum og má skýra allan rekstrarafgang ríkissjóðs árið 1981 með aukningu innflutningsgjalda umfram aukningu innflutnings.“

Þetta segir á einföldu og skýru máli, að fjármögnun viðskiptahalla með erlendum lántökum hefur orðið til þess að gefa ríkissjóði miklar tekjur. Þannig hafa erlendar lántökur orðið til þess að skapa ríkissjóði rekstrartekjur og þær verða á árinu 1982, fyrstu níu mánuðina, 200 millj. kr.

Ef við höldum aðeins áfram og metum árið 1982 í sambandi við skuldir ríkissjóðs með tilliti til hlutfallsins frá 1977, þá get ég vel ímyndað mér, eins og því dæmi hefur verið lýst, að hlutfall skulda ríkissjóðs við lok ársins 1982 verði hærra en við lok ársins 1977. En þegar litið er á lántökur ríkisins í heild keyrir um þverbak. Með lánsfjáráætlun þeirri sem samin var 1976 var áformað að koma á fastri skipan á erlendum lántökum og þær samræmdust markmiði ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum á hverjum tíma. Hvernig skyldi þarna hafa til tekist? Ég leyfi mér, herra forseti, að lesa úr Fjármálatíðindum, 1. hefti þess árs, grein sem þar er rituð um efnahagsjafnvægi, verðbólgu og þjóðfélagsgerð af Bjarna Braga Jónssyni hagfræðingi. Hann segir:

„Á þessu síðasta tímabili frá 1975 hófst gerð almennra lánsfjáráætlana í framhaldi af fyrri framkvæmda- og fjáröflunaráætlunum allt frá 1963, og gilti hin fyrsta þessara nýju áætlana um árið 1976. Var vandamál erlendrar skuldasöfnunar í fyrstu tekið mjög alvarlega og það sett sem eitt helstu markmiða áætlananna að hafa hemil á henni. Bar það nokkurn árangur í fyrstu, en síðan hefur þessi viðleitni snúist í vonlitla varnarbaráttu, svo sem eftirfarandi talnaraðir sýna“.

Erlendar skuldir þjóðarinnar í árslok 1977 voru 31.6% af þjóðarframleiðslu, en spáð er að á þessu ári fari það hlutfall í 45%. Það nemur 2 milljörðum 750 millj. kr. af þjóðarframleiðslu þessa árs. Greiðslubyrði erlendra lána sem hlutfall af gjaldeyristekjum var árið 1977 13.7%, en er nú áætlað að greiðslubyrðin verði 23% á þessu ári. Ef þannig eru lagðar saman skatttekjur ríkissjóðs í tíð núv. ríkisstj. og erlendar lántökur eins og þær hafa hækkað, hvort tveggja sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, er hér um að ræða 6 milljarða 250 millj. kr. Og útlitið sýnist vera enn dekkra á næsta ári.

Ríkisútgjöldin á tímabilinu 1978 til 1982 hafa farið vaxandi sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni. Er nú svo komið, að ríkið mun á árinu 1982 taka til sín stærri hluta af þjóðarframleiðslu en nokkru sinni fyrr. Á árinu 1983 má búast við að það taki til sín þriðjung þjóðarframleiðslunnar. Þriðja hver króna þjóðarframleiðslunnar mun fara í ríkisútgjöld.

Annað einkenni þessarar þróunar er að stærri og stærri hlutar ríkisútgjalda eru rekstrargjöld og tilfærslur fjármuna sem notaðar eru til að hafa áhrif á verðmyndun og verðbólguþróun. Þetta hefur leitt til þess, að minni hluti af heildarútgjöldum ríkisins fer til verklegra framkvæmda en áður, eða aðeins 10% af heildargjöldum ársins 1983 eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þetta gerist á sama tíma og skattheimta hefur aldrei verið meiri, lántökurnar aldrei verið meiri. Er nú svo komið að ekki er annað fjármagn hjá ríkissjóði til verklegra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða en það fjármagn sem hin aukna skattheimta skilar ríkissjóði á þessu ári. Haldi þessari þróun áfram má búast við því að ekkert verði af skatttekjum til þess að fjármagna byggingarframkvæmdir í framtíðinni, svo sem eins og skóla, heilsugæslustöðvar, dagvistunarheimili og allt annað, enda hefur fjármagn til þessara framkvæmda sífellt farið minnkandi, eins og fram hefur komið í ítarlegum nál. minni hl. fjvn. á undanförnum árum. Verði haldið fram sem nú horfir verður að fjármagna slíkar framkvæmdir eingöngu með erlendum lántökum.

Af fjárlagafrv. fyrir árið 1983 má sjá að óbreyttri vinstri stefnu skal fylgja á næsta ári. Ekki er ætlunin að nota ríkisfjármálin sem hagstjórnartæki í baráttunni við verðbólguna, enda algerlega gefist upp. Enn einu sinni er sett reiknitala sem verðlagsforsenda frv., sem öllum er ljóst að ekki er í neinu samræmi við það sem er að gerast í þjóðfélaginu í verðlagsmálum. Þær röngu verðlagsforsendur sem verið hafa í fjárlögum á s.l. árum hafa leitt til þess að rekstrargrundvöllur fjölmargra ríkisstofnana er brostinn. Í því sambandi má benda á yfirlýsingar forustumanna ríkisstofnana, þar sem þeir lýsa ástandi þeirra og gera grein fyrir þeim miklu fjárhagsvandamálum sem við er að stríða, jafnvel svo að til stöðvunar þessara stofnana þurfi að grípa. Á sama tíma og þetta skeður hefur hið opinbera, að frumkvæði núv. ríkisstj., tekið að sér þjónustuverkefni sem kalla á aukið fjármagn til reksturs. Má ætla að í það stefni innan örfárra ára að enn þurfi að auka skattheimtu eða taka erlend lán til venjulegra rekstrargjalda. Þetta hefur verið að gerast hjá okkur næstu nágrönnum á undanförnum árum og það veldur þeim nú erfiðleikum sem þeir sjá ekki fram úr.

Þetta frv. heldur áfram á þessari braut, að ekki sé tekið tillit til raunverulegra útgjalda ríkissjóðs til fjölmargra viðfangsefna. Halda á viðteknum hætti, að leysa fjárhagsvandamál fjölmargra stofnana með aukafjárveitingum utan fjárlaga. Með þess konar vinnubrögðum er verið að færa fjárveitingavaldið úr höndum Alþingis og láta framkvæmdavaldinu og ríkisstj. það í hendur. En fjárveitingavaldið hefur Alþingi samkv. stjórnarskránni og því ber að hafa það. Óraunhæf áætlunargerð, eins og fjárlögin eru nú orðin, hlýtur að valda miklum erfiðleikum í allri fjármálastjórn hjá ríkissjóði og stofnunum ríkisins. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir auknum ríkisumsvifum og aukinni miðstýringu eins og fram hefur komið hjá sjálfseignarstofnunum í heilbrigðismálum. Á yfirstandandi ári verða ríkisútgjöldin hærri en nokkru sinni fyrr eins og ég gat um áðan. Á næsta ári er búist við því að þriðja hver króna af þjóðarframleiðslunni verði nýtt til ríkisútgjalda. Á árunum 1976 og 1977 voru ríkisútgjöldin 27% af þjóðarframleiðslu og meira að segja á árinu 1975, en það er eitt erfiðasta ár í efnahagsmálum á áratugnum, voru ríkisútgjöldin þó ekki nema 30,4%. En nú eru þau komin yfir 31%.

Í fjárlagafrv. hefur fjmrh. þó ekki komist hjá því að taka nokkurt mið af því efnahagsástandi sem er orðið og horfunum fram undan. Afleiðing þeirrar efnahagsstefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt og valdið hefur samdrætti, mun leiða til minni óbeinni skatta á næsta ári nema gert sé ráð fyrir ennþá meiri viðskiptahalla. Spyrja má hvort sú tekjuminnkun af innflutningi sem frv. gerir ráð fyrir sé nægjanleg eða hvort áformað sé að halda áfram á þeirri braut að viðskiptahallinn verði að hluta til fjármagnaður með erlendum lántökum og verði látinn skapa ríkissjóði tekjur til þess að hægt sé að guma af óraunhæfum og röngum samanburði í ríkisfjármálum. Þá fyrirhugar ríkisstj. að viðhalda öllum þeim sköttum sem settir hafa verið í tíð ríkisstjórna Ólafs Jóhannessonar og Gunnars Thoroddsens. Þessir skattar munu nema á árinu 1983 1,7–1,8 milljörðum eða 35 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu.

Vegna þeirra þrenginga sem verða hjá heimilum í landinu á næstunni hefði mátt búast við því að ríkisstj. og þá sérstaklega þeir ráðherrar hennar sem telja sig fulltrúa hinna lægst launuðu-hefði beitt sér fyrir því að nokkur samdráttur yrði í útgjöldum h já hinu opinbera og þannig yrði hægt að lækka skattbyrðina og bæta hag heimilanna. Þvert á móti ber frv. með sér að sú leið hefur ekki verið valin. Áfram er haldið þeirri skattastefnu sem fylgt hefur verið síðan síðla árs 1978. Því er einnig lýst yfir að skattbyrðin skuli vera hin sama á næsta ári. Það getur ekki orðið öðruvísi en verðbólgan verði yfir 60%. Ríkisstj. viðurkennir því með þessari yfirlýsingu uppgjöf enn eitt árið í röð. Sýnir það getuleysi hennar í stjórn efnahagsmála þjóðarinnar betur en nokkuð annað.

Aukin skattheimta hefði auðvitað átt að leiða til minni lántöku ríkisins. Svo hefur ekki verið. Eins og áður hefur verið á bent er enn haldið uppteknum hætti í þessu frv. að auka lántökur ríkissjóðs. Lántökur A-hluta ríkissjóðs hækka frá frv. fyrir árið 1982 úr 317 millj. kr. í 525, eða um 65%, og eflaust eiga lántökur eftir að hækka enn meira þegar lánsfjáráætlun fyrir árið 1983 verður afgreidd. Í heild hækka gjaldaliðir frv. um 60,5% frá fjárlögum þessa árs, og reikna má með mikilli hækkun í meðferð þingsins, sérstaklega ef viðurkenna á raunveruleg rekstrargjöld hinna ýmsu stofnana ríkisins og lagfæra það misræmi sem er vegna rangra verðlagsforsendna. Í framhaldi af þeirri útþenslustefnu sem ríkisstj. fylgir er rekstrargjöldum ætlað að hækka um tæp 74%, þrátt fyrir vanáætlanir, og niðurgreiðslum um 80%. Er nú svo komið að tíunda hver króna af tekjum ríkissjóðs, eða um 1,1 milljarður kr., fer til niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir. Er það nær sama fjárhæð og fer til verklegra framkvæmda hjá A-hluta ríkissjóðs. Á árinu 1977 runnu 20% af fjárlögum til verklegra framkvæmda A-hluta ríkissjóðs en samkv. þessu frv. er aðeins áformað að verja 10% til þeirra þátta.

Samkvæmt lögum frá 1979 ber að leggja lánsfjáráætlun fram með fjárlagafrv. Þegar fyrstu lánsfjáráætlanirnar voru gerðar gagnrýndu flokksbræður hæstv. fjmrh. það hversu síðbúin lánsfjáráætlunargerðin var. Þegar þeir komust í stjórnaraðstöðu á árinu 1979 skyldi gerð á þessu bragarbót. Til þess að koma í veg fyrir þann slóðaskap, sem þeir gagnrýndu, var það sett í lög að lánsfjáráætlun skyldi lögð fram með fjárlagafrv. Það var auðvitað gert, eins og sagt var, til þess að styrkja efnahagsstjórnina í landinu að lögfesta slíkt ákvæði. Reyndin er samt sú, að allt frá 1977 hafa lánsfjárlög aldrei verið samþykkt samhliða fjárlögum á Alþingi. Og ekki verður annað séð en sama hátt eigi að viðhafa nú og áður, enda er stjórn þessara mála í samræmi við hvernig staðið hefur verið við það lagaákvæði sem samþykkt var hér 1979.

Ríkisstj., sem mynduð var til að berjast gegn verðbólgunni með aðhaldsaðgerðum er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál, stendur nú uppi eftir þriggja ára valdaferil sjálfri sér sundurþykk, eftir að hafa mistekist flest ef ekki allt það sem hún setti á blað sem leiðarvísi fyrir ferð sina. Það sem þó er sýnu verst er að ríkisstj. er gersamlega ráðalaus og var kannske ekki við öðru að búast. Frá henni kemur ekkert frumkvæði sem snúið getur við þeirri óheillaþróun sem hún hefur staðið fyrir. Undirstöðuatvinnuvegirnir eru komnir í þrot. Vanrækt hefur verið að skapa þeim heilbrigð rekstrarskilyrði. Að ekki sé minnst á nýjar atvinnugreinar.

Ríkisstj. heldur því á lofti að hér á landi sé full atvinna og það sé meira en hægt sé að segja um ástandið hjá okkar næstu nágrönnum. Þetta er rétt svo langt sem það nær. Það væri hrikalegt ef ekki hefði tekist að bægja atvinnuleysisvofunni frá með þeirri miklu skattheimtu sem ríkisstj. hefur staðið fyrir. Á það má einnig benda að full atvinna var í landinu þegar ríkisstj. kom til valda. Það er hins vegar afar áleitin spurning um þessar mundir hvort atvinnuleysið sé ekki á næstu grösum, vegna þeirrar röngu stefnu í málefnum atvinnuveganna og efnahagsmálum þjóðarinnar sem framfylgt hefur verið af núv. ríkisstj. Við horfum upp á geigvænlega greiðsluerfiðleika hjá atvinnuvegunum sem eru að leiða til algerrar stöðvunar ýmissa fyrirtækja. Peningastofnanir eiga í miklum erfiðleikum með fjármagn vegna minnkandi sparnaðar. Eigi að snúa þessu dæmi við og endurreisa atvinnulífið í landinu og bægja frá atvinnuleysisvofunni, þá er tvennt sem kemur til greina. Hið fyrra er að skapa þau rekstrarskilyrði fyrir útflutningsatvinnuvegina að þeim sé kleift að skila arði til uppbyggingar. Hið síðara er að skapa nýjar atvinnugreinar, sem grundvallast á orkunýtingu, til framleiðslu á útflutningsvörum.

Á meðan við völd situr ríkisstj. þar sem ráðherrar tala í sína áttina hver, sína tunguna hver og engin samstaða er fyrir hendi, sem nauðsynleg er til að þjóðin verði leyst úr þessum fjötrum, getum við ekki búist við að hér verði breytingar á. Hvað er til ráða? Það er endurreisn atvinnulífsins, efling atvinnulífsins á grundvelli innlendra orkugjafa. Því verður hins vegar ekki hrundið í framkvæmd nema með breyttri stjórnarstefnu sem byggir á hugviti og framtaki einstaklingsins og hafnar miðstýringarforsjá þeirrar ríkisstj. sem stendur að því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu.