03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður.

Það er komið að lokum þessarar umr. utan dagskrár, sem hefur tekið ærinn tíma af störfum okkar á hinu háa Alþingi. Ég tel ástæðu til þess, eftir að þessi umr. hefur farið fram, að draga það skýrt fram sem hefur komið í ljós.

Það ber enginn brigður á að stöðuveitingavaldið er hjá hæstv. ráðh., en hins vegar er öllum, sem hafa tekið til máls, ljóst að með það vald var farið öðruvísi af hæstv. ráðh. en gera má ráð fyrir að eðlilegt sé. Það er ljóst af lögum, sem um þessi mál fjalla, að þeir menn sem starfa í flugráði eru annars vegar kjörnir menn af löggjafarþingi þjóðarinnar og hins vegar menn með sérstaka þekkingu á flugmálum. Þess vegna er, þegar aðili eins og flugráð kemst að einhuga niðurstöðu, algjörlega útilokað að um pólitíska niðurstöðu sé að ræða, sem hallist að einum flokki.

Þetta nefni ég sérstaklega vegna þess að hæstv. ráðh. vitnaði til annarrar stöðuveitingar, þar sem um var að ræða prófessorsembætti. Ef ég man rétt varð ekki samhljóða niðurstaða um prófessorsstöðu í guðfræðideild. Þar var ekki um kjörna fulltrúa að ræða, heldur fulltrúa sem höfðu verið skipaðir og höfðu þar umsagnaraðild. Það er allt annað mál. Það kemur sem sagt í ljós að jafnvel flokksbræður hæstv. ráðh., sem sæti eiga í flugráði og eru varamenn þar, komust að sömu niðurstöðu eftir umhugsun og þeir hv. þm. sem hér hafa talað og eiga sæti í flugráði. Hæstv. ráðh. fer hins vegar algjörlega gegn þessari niðurstöðu. Ég staðhæfi að það er ákaflega fátítt, en viðurkenni að mikill kjarkur býr að baki, enda hefur hæstv. ráðh. sýnt ærinn kjark í málefnum flugs hér á landi á undanförnum árum. en ekki held ég að allir séu sammála um að allar hans ákvarðanir hafi verið réttar. Um það ætla ég ekki að fjalla hér og nú.

Hitt, sem hefur komið fram í þessum umr. og ber að undirstrika, er það, að aðdróttanir hæstv. ráðh. í garð flugráðs eru með öllu tilhæfulausar. Aðdróttanir hæstv. ráðh. um óvönduð vinnubrögð hafa verið hraktar hér lið fyrir lið. Hæstv. ráðh. lét að því liggja að menn hefðu verið píndir, þeir hafi verið látnir skrifa undir plagg. — Ja við skulum hverfa frá orðinu „píndir“, en hæstv, ráðh. orðaði það þannig, að einn ákveðinn flugráðsmaður hafi látið aðra skrifa undir. Í því felst auðvitað sú aðdróttun, að það hafi nánast farið fram gegn vilja hinna mannanna. Það er verið að gefa í skyn að menn hafi ekki fengið tækifæri til að kynna sér umsóknir, einn flugráðsmaður hafi síðan komið og látið hina skrifa undir ákveðna tillögu. Þetta eru aðdróttanir sem ekki eru hæstv. ráðh. sæmandi, og hér hafa þær verið hraktar eftirminnilega. Slíkar aðdróttanir í blöðum eru auðvitað ekki drengilegar, svo að ég noti orðbragð hæstv. ráðh., sem hann grípur oft til þegar hann á erfitt um rökstuðning.

Ég vona, herra forseti, að umr. um þetta mál verði lexía sem draga megi lærdóm af, en ekki fordæmi fyrir aðra ráðh. eða hæstv. ráðh. sjálfan, hvernig standa skuli að embættaveitingum í framtíðinni.