03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er aðeins út af spurningum hv. þm. Árna Gunnarssonar.

Ég hef svarað mjög ítarlega hvað réð því að ég skipaði Pétur Einarsson. Svar mitt við fyrri spurningunni er því nei. Það var alls ekki stjórnmálaskoðun sem réð þar. Hins vegar hef ég hvað eftir annað sagt og hef hér endurtekið, að öðru jöfnu munu menn ekki gjalda þess að vera framsóknarmenn.

Ég ætla ekki að fara að telja hér upp menn í ráðuneytinu. Þar eru náttúrlega þeir menn sem hafa fjallað um flugmálin m. a. Ég sé ekki ástæðu til að fara að tíunda það hér.

Hér nefndi hv. fyrirspyrjandi að það mundi vera næstum því einsdæmi að gengið sé gegn einróma till. Svo ég vísi nú aftur í orð doktors Bjarna Benediktssonar, þá upplýsi ég til fróðleiks að dr. Björn Þórðarson mun hafa veitt Sigurbirni Einarssyni embætti gegn eindregnum till. allrar guðfræðideildar. Ég skal ekki segja hvorir eru marktækari guðfræðingarnir eða alþm., en þarna er þó a. m. k. eitt dæmi sem ég hef hér við hendina. (Gripið fram í: Séra Sigurbjörn var þó guðfræðingur líka, ekki satt?) Jú, hann var guðfræðingur og Pétur Einarsson hefur flugpróf — ég get bent hv. þm. á það — eins og Leifur, svo ég held að það sé nú út af fyrir sig sambærilegt.

En menn hafa hneykslast á því að ég vísa hér í Bjarna Benediktsson. Bjarni var að sjálfsögðu með hinum allra mætustu stjórnmálamönnum sem hér hafa verið. Ég vísa fyrst og fremst til hans lögskýringa, sem hér eru. Það er meira, sem ég held að hv. þm. ættu að kynna sér. um skyldur ráðh. í slíku sambandi.

Og ég vil segja það að lokum, að ég verð hvorki gúmmístimpill í hendi hv. þm. Alberts Guðmundssonar né neins annars. Hann verður að finna þá sjálfur.