04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins mælast til þess, sem þó ætti ekki að þurfa, við hv. nefnd, sem fær þetta mál til athugunar, að hún kynni sér það rækilega og athugi það mjög gaumgæfilega. Mér sýnist hér vera á ferðinni mál nokkuð sérstaks eðlis. Hér er um að ræða ábyrgðarheimild fyrir mjög verulegri fjárhæð. Það getur áreiðanlega brugðið til beggja vona hvers virði þau verðmæti eru, sem kunna að bjargast þarna, og hversu mikla tryggingu þau gefa fyrir þeirri fjárupphæð sem hér er um að tefla, auk þess sem líklegt er, verði um björgun að ræða á einhverjum verðmætum, að þau séu hvort eð er eign ríkisins, séu fornminjar að verulegu leyti. Ef svo væri ekki, þá er í bréfi rn. á sínum tíma tilskilið að 12% af andvirði skuli renna til ríkisins.

Ég get ekki neitað því, að þó að þetta sé orðað sem ábyrgðarheimild sýnast mér nokkrar líkur, svo að ekki sé meira sagt, benda til þess að þessi fjárhæð muni skella á ríkissjóði. Í því ástandi sem nú ríkir í fjármálum og í þeim þrengingum sem um er að tefla varðandi lántökur til ýmissa nauðsynlegra og æskilegra framkvæmda sýnist mér full ástæða til að athuga sinn gang áður en mál eins og þetta rennur í gegnum Alþingi eins og á bandi. Þetta mál bar að vísu á góma við afgreiðslu fjárlaga, en ég hygg að það hafi ekki tekið ýkja langan tíma að afgreiða þetta í hv. Nd. Vel má vera að þeir sem afgreiddu það þar hafi treyst eins og áður fyrr á hv. Ed., að hún mundi gaumgæfa málið betur.

Ég tel það út af fyrir sig lofsvert framtak, sem þarna hefur átt sér stað, að leita að þessu skipi. Og lofsverð þrautseigja hjá þeim mönnum sem staðið hafa að þessari björgun — að þessari leit réttara sagt, vegna þess að enn er ekki um neina björgun að tefla. Ég er ekki á þessu stigi að gefa út neinar yfirlýsingar um afstöðu mína við endanlega afgreiðslu þessa máls, heldur aðeins að taka fram að mér þykir það nokkuð vafasamt að þetta mál sé afgreitt með þvílíku hraði eins og mér virðist hafa átt sér hér stað. Þetta er þó vissulega ekkert smámál.

Löngum hefur gullleit verið ævintýri. Reyndar mun talið líklegt að ekki sé neins gulls að vænta á þeim slóðum þar sem þetta skip og þau verðmæti, sem í því kann að vera að finna, eru. Samt sem áður má náttúrlega með ýmsum hætti kalla þetta ævintýri. Stundum eru ævintýri lofsverð og það getur það vissulega verið í þessu tilfelli. En þannig getur staðið á fyrir mönnum að þeir hafi ekki mikil ráð á því að leggja út í ævintýri. Þessi fáu orð sem ég mæli hér eru bara varnaðarorð um það, að menn verði að líta á hlutina í nokkru samhengi og verði að aðgæta hvernig ástatt er áður en þeir afgreiða svona mál alveg með hraði.