04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér er vissulega á ferðinni mál sem tvímælis orkar hvort Alþingi eigi að hafa nokkur afskipti af. Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi ekki að hafa nokkur afskipti af þessu máli. Hér er, eins og hæstv. utanrrh. komst að orði áðan, vissulega um lofsvert framtak að ræða. En ef þetta er jafngott mál og ábatavonin jafnrík og aðstandendur málsins hafa látið í skína, þá ætti þeim að vera auðvelt að afla sér lána og þeirra trygginga sem til þarf með öðrum hætti en þar komi til atbeini Alþingis Íslendinga. Ég held að þetta mál þurfi að athuga mjög vel, en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að ákveðinn hópur þm. hafi tekið sig saman um að keyra þetta mál hér í gegn. Það hefur, eins og þegar er komið fram og að mér virðist, ekki fengið mjög ítarlega athugun í Nd. Ég get í rauninni tekið undir hvert orð sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan.

Þegar maður stendur í því rétt fyrir hádegið að fjalla um útgerðarvandamál togara í sjávarplássi, sem er í þann veginn að stöðvast vegna þess að fjármagn skortir til eðlilegs viðhalds, fjármagn sem er ekki nema brot af þeirri upphæð sem hér er um að ræða og þar sem kannske 100–200 manns eiga á hættu að missa sína atvinnu, og það virðist standa á fyrirgreiðslu ríkisins í því efni þó svo hún hafi runnið greiðlega í gegn annars staðar, þá er afskaplega erfitt að standa að því að samþykkja 50 millj. kr. ríkisábyrgð á ævintýri sem þessu. Mér er það ekki nokkur leið. Menn verða auðvitað að gera það upp við sig, vega og meta hvað þeir meta mest. Ef menn telja að ríkið hafi frekar efni á því að standa undir svona happdrættisábyrgð, sem ég held að þetta sé, en að greiða fyrir og tryggja atvinnuöryggi í sjávarplássum, þá verða menn auðvitað að vera frjálsir að því að hafa þá skoðun. En þá skoðun get ég ekki haft. Ég lýsi því yfir að ég get ekki greitt þessu frv. atkvæði.