04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er einkennilegt sérkenni þessa máls að koma fram ævinlega á síðustu stundu. Síðast kom það til umr. við afgreiðslu fjárlaga þegar nokkuð langt var á þá afgreiðslu liðið. Var þá mikið kapp lagt á að sú afgreiðsla næðist á skammri hríð. Það varð nú ekki. Nú gerist það aftur, þegar þingið er í miklum önnum og fer væntanlega rétt að ljúka, að frv. um þetta efni kemur hér til umfjöllunar. Ég held að það sé augljóst mál að þeir sem geta

hugsað sér að standa að aðstoð við leit að skipinu Het Wapen vilji fá að skoða það mál mjög gaumgæfilega. En hér er ekki einu sinni um að ræða frv. varðandi leit að skipinu Het Wapen, heldur heitir það til björgunar skipsins Het Wapen. Skipið er náttúrlega fyrir löngu strandað. En ekki hefur það verið sannað með óyggjandi hætti að þeir viðarspænir eða annað, sem hefur fundist þarna, séu akkúrat úr þessu skipi. En vel má það vera og kannske benda miklar líkur til þess.

Hins vegar verður það líka að teljast nokkuð vafasamt í þessu máli að veðið sé í hlutum sem við vitum ekki hvort eru til, sem við vitum ekki hverjir eru og vitum ekki hvort fundist hafa, því að hér segir að þetta skuli vera gegn tryggingu sem fjmrn. telur fullnægjandi, svo sem í verðmæti hins bjargaða, þ. e. í því sem ekki hefur verið bjargað. Peningana eiga menn að fá fyrir fram. en veðin eiga að hluta til að vera í hlutum sem menn vita ekki hvort eru þarna eða hvort eru til né hversu verðmætir muni reynast. Ég held að það sé ákaflega háskasamleg braut fyrir ríkið að ætla sér að taka jafnvel þó ekki sé nema einhvern hluta af veðinu í hlutum sem menn vita ekki hvort eru til eða hversu verðmætir eru.

Í annan stað held ég að það sé ákaflega hæpið fyrir Alþingi Íslendinga, á sama tíma og verið er að tala um mikil erlend lán, að ætla sér að láta ríkið ganga í ábyrgð fyrir svo hárri fjárhæð sem hér um ræðir, 50 millj. kr. Við umfjöllun um lánsfjáráætlun í fjh.- og viðskn. hefur komið fram það álit Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka að erlend lánsfjárþörf til atvinnuveganna sé ekki 590 millj., eins og stendur í frv. til lánsfjárlaga, heldur 1 150 millj. bara vegna þeirra loforða sem ríkisstjórnin hefur þegar gefið. Þarna skortir upp á aðrar 500 millj. og vel það, 5-600 millj. vegna loforða sem þegar eru gefin. Nú eru menn að tala um að halda lánum í lágmarki. Þessu er alveg eftir að mæta. Og það er alveg sama hvernig lánsfjárlögin verða samþykkt, hvort þau eru samþykkt með 590 millj. eða réttri tölu, 1 150 millj., því að við höfum þær staðreyndir fyrir augunum að það er þá bara farið fram úr sem því nemur. Á sama tíma og menn eru að tala um að erlend lán eigi að takmarka og munu standa frammi fyrir þessu 5–600 millj. kr. verkefni held ég að sé erfið aðstaða til þess að Alþingi láti ríkið ganga í ábyrgð fyrir 50 millj. kr.

Nú kunna einhverjir að segja: Ja, þetta þarf nú ekki að vera erlent lán. En ef þetta væri innlent lán þá fer það þó ekki í atvinnureksturinn í landinu af innlendu fé. Og þörf atvinnurekstrarins í landinu fyrir fé verður þá bara þeim mun meiri í erlendum lánum. Það kemur því út á eitt hvort lánið er innlent eða erlent. Það má vel vera að hið opinbera eigi að aðstoða við leit að þessu skipi. Ég vil kalla það leit en ekki björgun. Það getur vel verið að það eigi að gera það. En ég held að það sé ekki góð aðstaða til þess nú og ég held að það eigi ekki að gera það með þeim hætti sem hér er lagt til.