04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þess hefði ég viljað óska, að hv. alþm. og landsfeður hefðu fyrrum verið jafn varkárir í veitingu ábyrgða af hálfu hins opinbera eins og þið nú eruð. Ég tel að nokkurn veginn sannað sé að hinn forni farkostur sé nú fundinn á söndunum þarna eystra, sem strandaði þar 1667. Ég get tekið undir það með hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni að líkur eru að vísu litlar á því að gull muni finnast í skipinu. Ég tek aftur á móti trúanlegar upplýsingar sem lúta að verðmæti þessa skipsskrokks sjálfs. Og þó ekki fyndist nú annað í honum en ballestin fræga, koparballestin, þá hygg ég að það sé nokkurn veginn borðleggjandi fyrir okkur að skrokkurinn og ballestin ein muni standa undir ábyrgðinni sem hér er farið fram á.

Ég get vel tekið undir það að á þeim tíma þegar okkur skortir fé til nauðsynlegra framkvæmda á sviði atvinnumála þá eigum við heldur að halda að okkur höndum um fjárfestingu í ævintýrum. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að draumurinn sjálfur um að finna þetta skip hafi nú ræst og ævintýrið, sem fram undan er, sé fremur áhættulítið. Ber þá að geta þess, að ríkið sjálft á vinnings von í þessum verðmætum, hvort þau verða mikil eða lítil, sem þarna eru í sandinum.

Út af varnaðarorðum hv. þm. Eiðs Guðnasonar varðandi þessa ríkisábyrgð á fyrirtækið til þess að heimta fram í dagsljósið og nútímann forna sögu, gamalt ævintýr, sem kann að vera misjafnlega nákvæmlega frá sagt, vil ég rétt aðeins rifja það upp að það var nú 150 árum eftir strand þessa skips sem landssjóður lagði of fjár á þess tíma mælikvarða í það að ræsa fram seftjörn í kjördæmi hans í leit að skrímsli nokkru sem kallað var Katanesdýrið. Ekki er mér kunnugt um það að þm. Vestlendinga hafi nokkru sinni andmælt þeirri leit, þeim tilkostnaði. (Gripið fram í: Voru þeir spurðir?) Eftir því sem ég kemst næst þá beittu þeir sér fyrir þessari fjárveitingu. Ég sakfelli að vísu ekki hv. þm. Eið Guðnason fyrir það, því þetta var nokkru fyrir fæðingu hans, en af því svæði var hugmyndin að þessari gagnmerku fjárfestingu runnin. Ég held að áhætta í sambandi við þetta, sem eftir er þarna á söndunum, sé tiltölulega lítil og ef við viljum nota orðið ævintýri þá hygg ég að við höfum lagt peninga í annað verra og arðminna á liðnum áratugum heldur en að leyfa því að rætast.