04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umr. er sérstakt að því leyti, að hér er ekki verið að fjalla um venjulega fjárfestingu og venjubundnar tryggingar, sem menn láta í té, heldur er hér um að ræða viðleitni til að bjarga menningarverðmætum eða fornminjum. Á slíkt er aldrei hægt að leggja sams konar mælikvarða og lagður er á ábyrgðir gagnvart fjárfestingum atvinnuvega eða annarra aðgerða sem á okkar tímum eiga að skila hörðum arði. Auk þess er ljóst að meðal Hollendinga er mikill áhugi á þessu máli og Íslendingar geta hugsanlega þurft að meta það, hvort þeir vilja láta þessa björgunarstarfsemi og þessa könnun vera okkar fyrirtæki, okkar verk eða hvort við. vegna þeirra viðhorfa sem hér hefur verið lýst í nokkrum ræðum. látum það kannske að meginhluta í hendur Hollendinga. Þetta bið ég menn að íhuga, þar til málið kemur aftur til meðferðar í deildinni, en ætla ekki að fara nánar á þessu stigi í efnislegar umr. um málið.

Hitt er rétt, eins og bent var á hér af hv. þm. Stefáni Jónssyni, að mjög hefur á skort að þeir sem gegnt hafa ráðherrastöðum á undanfórnum árum og áður fyrr hafi verið jafn varkárir í ríkisábyrgðum eins og komið hefur fram hjá þeim tveim ráðh. sem hér hafa talað. Er ég viss um að ef reikningar Ríkisábyrgðasjóðs væru skoðaðir kæmi greinilega í ljós að mörg hafa þau nú verið skipin, þó fljótandi séu og traust og siglingarhæf, sem ekki hafa skilað þeim arði að ekki féllu vextir og afborganir á Ríkisábyrgðasjóð. Má t. d. leita slíkra skipa í kjördæmi hv. þm. Eiðs Guðnasonar og víðar.

Að lokum, herra forseti, lýsti hæstv. viðskrh. því yfir að hann væri nánast ábyrgðarlaus á störfum langlánanefndar. Væri þar aðeins einn af 10 ráðh. og hefði ekki miklu meira með það mál að gera en aðrir. Ég andmæli þessum skilningi algerlega. Eins og fram hefur komið hvað eftir annað, m. a. hjá hæstv. ráðh. Ólafi Jóhannessyni, er ríkisstj. ekki fjölskipað stjórnvald og samkv. þeim réttarreglum og venjum sem tíðkaðar eru í okkar stjórnkerfi starfar langlánanefnd á ábyrgð hæstv. viðskrh. Það er staðreynd, sem við blasir, að þegar fjh.og viðskn. fær frv. til lánsfjárlaga frá hæstv. ríkisstj., þar með hæstv. viðskrh., til meðferðar, þá er það einn liður sem er svo í mótsögn við það sem Seðlabankinn kallar raunveruleikann, að ef ætti að breyta frv. í samræmi við grg. Seðlabankans þyrfti liðurinn að hækka um meira en 100% eða um röskar 500 millj. Og það er sá liður sem heyrir undir langlánanefnd og þar með undir hæstv. viðskrh. Það er a. m. k. mikill ábyrgðarhluti hjá hæstv. viðskrh., ef honum hefur verið þetta kunnugt, að láta hv. fjh.- og viðskn. Nd. og svo hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar fá það verkefni óleyst í hendur, sem nú er ljóst að hefur orðið, að í frv. er gert ráð fyrir 500 millj. kr. í lánveitingar á vegum langlánanefndar. en Seðlabankinn telur að það þurfi að vera röskar I 100 millj. Hæstv. viðskrh. getur ekki skotið sér undan hinni stjórnarfarslegu ábyrgð á þessum þætti, eins og mér fannst hann vera að gera hér áðan, og fjh.- og viðskn. situr nú uppi með það að þessi hv. nefnd, sem aðsetur hefur í viðskrn. og ráðuneytisstjórinn í viðskrn. mætti hjá fjh.- og viðskn. í morgun til þess að gera grein fyrir hennar störfum, hefur samþykkt 500–600 millj. kr. meiri erlendar lántökur á árinu 1983 til ýmiss konar verkefna en gert er ráð fyrir í því frv. til lánsfjáráætlunar sem hæstv. ríkisstj. lagði hér fram á Alþingi fyrir nokkru.