04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því við hæstv. utanrrh. að fá að taka til máls utan dagskrár um málefni olíustöðvarinnar í Helguvík í tilefni af viðtali sem var við hæstv. ráðh. sunnudaginn 27. febr. í dagblaðinu Tímanum. Í þessu viðtali segir hæstv. ráðh., og ég les með leyfi forseta:

„Að því er varðar Helguvík, þá er það allt ennþá í undirbúningi. Framkvæmdir eru ekki hafnar. Gert er ráð fyrir því, að á þessu ári verði tveir stórir olíutankar fluttir úr hlíðinni fyrir ofan byggðina á fyrirhugað svæði, sem þeim er ætlað, og þar með verði helmingurinn fluttur. Jafnframt verði lagðar leiðslur frá þeim upp á flugvöllinn og vegur byggður. En að því er varðar löndunaraðstöðuna, þá eru ekki komnar neinar endanlegar teikningar af því, enda engar framkvæmdir fyrirhugaðar á þessu ári. Þarna tel ég mig aðeins vera að framfylgja vilja Alþingis, því það var samþykkt á þingi að flytja þessa tanka. Og að því er varðar löndunaraðstöðu og höfn. þá er óhjákvæmilegt að flytja þetta úr Njarðvíkurhöfninni, en þar brotnaði bryggjan sem þar var“

Ég les ekki lengra, herra forseti, að vísu mun átt við Keflavíkurhöfn í þessu tilviki, en það skiptir kannske minnstu máli.

Það sem skiptir máli í þessu er tvennt: Hér segir hæstv. utanrrh. að það sé hugmyndin að flytja tankana úr hlíðinni fyrir ofan byggðina á fyrirhugað svæði, og hitt atriðið, sem skiptir máli, varðar löndunaraðstöðuna. Nú verður þetta ekki skilið öðruvísi en að þeir tankar sem eru í hlíðinni verði fluttir á hið nýja svæði í Helguvík. Og þá hlýtur sú spurning að vakna: Er það virkilega svo, að hugmyndin sé að flytja þessa gömlu og afdönkuðu tanka í einu stykki út í Helguvík? Ef svo er er þar um algjöra stefnubreytingar að ræða, en ef svo er ekki er orðalagið, sem valið er í þessu viðtali, at því tagi að það gefur ekki rétta mynd af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru og þess vegna rétt að hæstv. utanrrh. fái tækifæri til að leiðrétta það og kveða skýran að orði um hverjar séu hinar fyrirhuguðu framkvæmdir á Helguvíkursvæðinu.

Í annan stað hafði ég skilið það svo, að fyrirhugað væri að það berg, sem væri sprengt á þessu svæði, yrði notað einmitt í hafnarframkvæmdirnar. Jafnframt hafði ég skilið það svo og tel að áætlanirnar séu þannig, að þeir tankar sem yrðu reistir á Helguvíkursvæðinu yrðu einmitt sprengdir í berg og niðurgrafnir. Ég vil þá spyrja af þessu tilefni, hvort það sé ekki enn áformað að ganga þannig frá málum að þeir tankar sem þarna verði byggðir verði sprengdir í berg og hvort ekki sé ætlunin að nýta það grjót, sem fram komi við þær sprengingar, til þess að vinna jafnframt að því að koma upp hafnargarði og löndunaraðstöðu, eins og fyrirhugað hafði verið og hæstv. utanrrh. hefur látið koma fram hér í umr. á Alþingi.

Að lokum hefði ég óskað skýringa hæstv. utanrrh. á því, hvernig á því standi að þetta mál hafi dregist svona lengi. Þegar þáltill. var flutt um þetta efni á sínum tíma — Ólafur Björnsson flutti þáltill. um olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík — var þess getið að byggingartíminn væri áætlaður um 7 ár, en hann mætti stytta um eitt ár, ef íslensk stjórnvöld hefðu lagt út í að byrja strax á árinu 1981. Það varð reyndar ekki, en mér sýnist að þessar framkvæmdir hafi haft tilhneigingu til þess að tefjast nokkuð mikið. Svo framarlega sem þetta er rétt hefðu framkvæmdir átt að geta verið í fullum gangi á árinu 1983, en það verður ekki sagt að þær framkvæmdir séu komnar í gang og verður ekki ráðið fyllilega af viðtalinu við hæstv. utanrrh. hversu mikil umsvif verði á þessu ári. Þess vegna hefði ég öskað eftir upplýsingum um það, hvort orðið hafi einhverjar ófyrirsjáanlegar tafir, hver heildarbyggingartími sé nú áætlaður og hversu mikið verði unnið á næstu árum.

Ég held, herra forseti, að ég hafi þá komið þessum fyrirspurnum á framfæri. Ég tel nauðsynlegt að þessi mál liggi skýrt fyrir og hef borið mínar fyrirspurnir fram við hæstv. utanrrh.