04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði, vil ég geta þess, að mér hefur ekki borist þessi ályktun frá bæjarstjórn Keflavíkur. Ég vil þess vegna ekki ræða hana eða gera hana að umtalsefni fyrr en ég hef skoðað hana. En ég hef kappkostað að eiga sem besta samvinnu í þessum efnum við bæjaryfirvöld eða réttara sagt hlutaðeigandi sveitaryfirvöld, sem þarna suður frá eru. En það eru náttúrlega fleiri sem þar koma til en bæjarstjórn Keflavíkur ein, þó að það sé hún fyrst og fremst. Ég held að það hafi verið góð samvinna um öll þau atriði sem varða undirbúning þessa máls. Um það atriði vil ég sem sagt ekki ræða fyrr en ég hef kynnt mér þessa ályktun, en af lestri hennar virtist mér mega ráða að hún væri að einhverju leyti a. m. k. byggð á svipuðum misskilningi og fram kom hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að það væri um að ræða flutning á þessum gömlu geymum. (Gripið fram í.) Já, orðalagið er sjálfsagt mitt og það er nú svo, að almenningur talar gjarnan og hefur talað um „flutning“ á þessum geymum. Ég hjó eftir því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson byrjaði einmitt að tala um að flytja geyma, en lagfærði það eftir á. Þetta sýnir að mönnum er nokkuð tamt að nota þetta orðalag, en auðvitað meinar enginn það og hefur aldrei meinað það, að geymana, sem eru þarna og margir eru orðnir gamlir, ætti að flytja úr stað, heldur á að reisa nýja geyma sem rúma það eldsneyti sem geymt hefur verið í þeim tönkum sem þarna eru.

Ég vil ekki fara út í neinar almennar umr. um þessi svokölluðu Helguvíkurmál. Mér finnst eðlilegra að gera það þegar og ef — ég vona að það verði — skýrsla utanrrh. um utanríkismál verður rædd. En ég vil samt undirstrika að það hefur alltaf legið fyrir og var gert ráð fyrir því í áætlunum, sem gerðar voru, að þessar framkvæmdir tækju nokkur ár. Þeim hefur eitthvað seinkað, en það fullyrði ég að er ekki mikið. Þeim hefur seinkað af því, eins og ég sagði áðan, að undirbúningur virðist hafa tekið nokkuð lengri tíma en ráð var fyrir gert. En ég hygg að það hafi aldrei verið gert ráð fyrir því í þessum plönum að verulegar framkvæmdir ættu sér stað fyrr en á árinu 1983 og síðan gert ráð fyrir, ef ég man rétt. að þetta tæki 6 eða 7 ár. En út í það vil ég ekki fara nánar hér, enda hef ég ekki gögnin við hendina þar sem hægt er að fletta upp á þessu og sjá hvernig þetta var lagt fyrir.

Út af því, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði, að það væri ætlunin að leggja þarna skipulagt svæði undir geymana, þá er það á misskilningi byggt. Geymarnir verða byggðir utan svæðis Keflavíkur og á varnarliðssvæði sem tilheyrir Sandgerðishreppi. Þeir verða byggðir í meiri fjarlægð frá Keflavík en mönnum hafði kannske fyrst dottið í hug. Það sem ég hef leyft að byggja þarna af geymum, og það liggur fyrir skriflega, eru geymar fyrir jafnmikið rými og geymarnir í hæðunum fyrir ofan kaupstaðina hafa og meira ekki. Það voru óskir um að byggja fleiri geyma, sem rúmuðu meira. Ég hef aðeins gefið leyfi fyrir fjórum geymum og af þeim hafa tveir verið leyfðir í ár. Meðan það stendur er náttúrlega aðalbirgðastöðin í Hvalfirði eftir sem áður. Hvað síðari utanrrh. kunna að gera er ekki á mínu valdi að segja um.