04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil enn á ný þakka hv. menntmn. fyrir fljóta og góða afgreiðslu á þessu máli og hef í rauninni ekki neinu sérstöku að bæta við það sem ég hef áður sagt um þetta frv., bæði í framsöguræðu minni í upphafi og einnig nú þegar það var rætt við 2. umr. Ég vil einnig þakka hv. síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Reykv., fyrir að hafa tekið efnislega undir efni þessa frv., og ég finn ekki að það sé neinn sérstakur ágreiningur milli okkar í sambandi við þetta frv. í sjálfu sér.

Hins vegar hefur honum þótt ástæða til að flytja hér brtt., sem að vísu sýnist ekki mikil eða stór í sniðum og ég get vel fallist á það í sjálfu sér að svo er ekki. Í sjálfu sér getur ekki skaðað þetta mál neitt endanlega þó að þessi brtt. yrði samþykkt. Hins vegar fæ ég ekki séð að þetta sérstaka ákvæði, sem hv. þm. hyggst beita þarna, þessi sérstaka löggjafaraðferð, breyti stórlega í sambandi við þetta mál og að því leyti til sé ég ekki ástæðu til að mæla með þessari brtt.

En ég hvet til þess enn og aftur að þetta frv. verði samþykkt og vil þakka fyrir þá meðferð, sem það hefur fengið í n., og þær góðu undirtektir, sem deildin hefur sýnt þessu frv.