04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil, eins og þeir ræðumenn sem um þetta mál hafa talað hér, taka undir það, að að sjálfsögðu hljóti allir að vera sammála því, að við þessum ofbeldismyndum beri að setja slíkar hömlur að þær komist helst ekki á þann markað sem við höfum fyrir vídeómyndir hér innanlands. Ég fæ hins vegar ekki séð að það sé fyrirbyggt með þessu frv.

Ég vil reyndar hefja mitt mál með því að segja, að það er fulldjúpt í árinni tekið hjá hæstv. menntmrh. þegar hann þakkar allri menntmn. fyrir stuðning við málið því að ég fæ ekki séð annað á þskj. en það sé aðeins lítill meiri hl. n. sem hefur staðið að afgreiðslu þessa máls. En nóg um það.

Til n. bárust mjög ítarlegar aths. frá aðilum. Í fyrsta lagi frá aðilum sem hafa fyrst og fremst í huga að fyrirbyggja að þessar myndir komist til barna og reyndar alls almennings vegna þeirra tengsla sem hljóta að vera á milli möguleika unglinga og barna að komast í slíkt myndefni, ef fullorðnir hafa það. En í öðru lagi komu fram mjög ítarlegar aths. um framkvæmd þessa máls. Það er pólitískt skipuð nefnd, það er nefnd skipuð af ráðh. sem á að fá nokkurs konar ákvörðunarvald og dómsvald í hendur um hvaða efni sé flutt inn og hvað heyri undir hugtakið sem verið er að móta með þessari lagasetningu.

Aðilar sem þekkja til innflutnings slíkra mynda bentu á það og óskuðu eftir því, að þau tvö frv. sem liggja fyrir hv. Alþingi til umfjöllunar og athugunar væru skoðuð saman, það frv. sem liggur fyrir Ed. og 1. flm. að er hv. þm. Eiður Guðnason og það frv. sem hæstv. ráðh. flytur hér í hv. Nd. Ég hefði talið mjög æskilegt að þetta hefði verið gert og að sjálfsögðu getur sú nefnd sem fær málið til meðferðar í Ed. gert það ennþá, hv. menntmn. þeirrar deildar. Ég óska eftir því, og mun koma þeirri ósk minni á framfæri við þá n., að nefndin taki bæði frv. til athugunar um leið. Ég þykist vita að það verði gert.

En ég tel að það sé margt að varast í sambandi við samþykkt þessa frv. og ég er ekki viss um hvort það samræmist því starfi sem við vinnum hér á Alþingi að við séum að afhenda ólöglærðum skoðunarmönnum rétt til að framfylgja bönnum og hvort við eigum að vera að framselja nokkurs konar dómsvald til þeirra. Ég held að þetta sé á móti og samræmist illa þeirri réttarvitund sem Íslendingar búa við, að löggjafinn leggi þær skyldur á herðar þegnunum að þeir eigi ekki að fremja það sem saknæmt getur talist en þegnarnir geti hins vegar ekki gert kröfu til þess að fá vitneskju um það fyrirfram hvers konar athæfi sé þeim óheimilt og hvað sé saknæmt, en það er ekki hægt fyrir innflytjendur samkv. þessu frv.

Þá vil ég benda á að það stendur ekki í sambandi við þetta frv. þó að það hafi komið fram miklar og harkalegar aths. í garð þeirra sem með þessi mál fara fyrir hönd framkvæmdavaldsins um það hvernig sjálfsögðum lagaskyldum í sambandi við tolla, söluskatt og verslunarleyfi er framfylgt. Því hefur verið haldið fram hér á Alþingi og er haldið enn fram, að af ríkissjóði séu hafðar stórmiklar tekjur með þessari starfsemi eða ýmsum þáttum þessarar starfsemi, sem rekin er á hinum frjálsa markaði.

Fleira er mjög athugavert í þessu frv., t. d. í sambandi við kostnað sem hlýtur að leiða af framkvæmd þessara laga. Ég er ekki viss um að það sé rétt að leggja hann á þann aðila sem kannske einn er nefndur til í þessu tilfelli. Að sjálfsögðu ætti framkvæmd laganna að vera á kostnað ríkissjóðs fyrir hönd þegnanna allra.

En ég endurtek það, að ég styð þá brtt. sem hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur haft forgöngu um að flytja. Ef þetta frv. gengur áfram í gegnum Ed. og verður samþykkt sem lög frá Alþingi tel ég einmitt rétt að reynslan leiði í ljós hvort frekari breytingar þurfi að gera. Ég tel að þessi aðferð geti verið góð í mörgum tilfellum, þegar ágreiningur er uppi um framkvæmd vissra mála, að það geti verið gott ákvæði að eftir ákveðinn tíma skuli vera búið að endurskoða lögin áður en skylt er að leggja þau aftur fyrir Alþingi til samþykktar að nýju.