04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það verða umr. um þetta mál og er ekkert við því að segja. En þessar umr. hafa orðið allmiklar og menn hafa lýst sjónarmiðum sínum fyrr í þessum umr. Það er kannske nokkuð seint að koma með athugasemdir við 3. umr. og hætt við að menn séu að velta fyrir sér svipuðum spurningum og menn hafa verið að gera strax í upphafi, þegar þetta mál kom fram og var rætt við l. umr.

Menn spyrja sig t. d. þeirrar spurningar, hvort tjáningarfrelsið sé skert með þessu frv., en mér virðist að niðurstaða allra þeirra, sem eru að velta vöngum yfir þessu, sé sú, að svo sé ekki og að menn skilji réttum skilningi það sem stendur í 1. gr. þessa frv., þar sem orðið „ofbeldiskvikmynd“ er skilgreint. Og ég fæ ekki betur séð en allir sem hér tala, séu nokkurn veginn klárir á því hvað í þessu felst. Það sem fyrst og fremst felst í þessari skilgreiningu er það, eins og segir berum orðum og varla er hægt að misskilja, að „ofbeldiskvikmynd“ merkir kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar á mönnum og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir. Kjarni málsins er sá, að það þarf að vera aðalmótívið með myndinni að sýna og sækjast eftir því að sýna hrottalegar drápsaðferðir af verstu gerð, þannig að það er nokkuð augljóst hvað hér er átt við.

Ég lýsti þessu nokkuð í frumræðu minni og benti einmitt á það, sem segir í 1. gr. ennfremur, að bannið tekur ekki til kvikmynda, þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis hennar. Það er sem sagt augljóst mál að það er ekki verið algerlega að banna kvikmyndir þó að fjallað sé um ofbeldi í kvikmyndunum eða jafnvel ofbeldi sé sýnt. Og við vitum að það eru til listrænar myndir sem óneitanlega eru meira og minna með ofbeldissenum, eins og t. d. Hitchcockmyndirnar sem frægar eru og fleiri af slíku tagi, og vissulega má sjá margar allhrottalegar slagsmálasenur og annað í myndum sem engum manni dettur þó í hug að banna.

Það sem verið er að banna eru vitanlega þessar — ég vil taka svo stórt upp í mig og segja: þessar viðbjóðslegu og algerlega ólistrænu kvikmyndir, sem á boðstólum eru og ýmsir seilast til að hafa til sýnis á heimilum sínum. Ég vil taka það fram að slíkar myndir eru aldrei mér vitanlega sýndar í kvikmyndahúsum í landinu, vegna þess að kvikmyndahúsaeigendur hafa sín siðaboð að sjálfsögðu. Ég held að það sé nokkuð hægt að treysta því. Þeir hafa sín siðaboð og gera ekki tilraunir til þess að koma með slíkar myndir inn á hinn almenna kvikmyndamarkað. Það er verið að laumast með þetta fyrst og fremst við vídeódreifinguna. Fyrst og fremst er verið að koma þessu inn á heimilin, og vissulega mun það vera svo í mörgum tilfellum að fullorðið fólk hefur þetta með höndum og sýnir það fyrir sig og ætlast ekki til þess að börn sjái þessar myndir og ég geri ráð fyrir að í flestum tilfellum sé það svo að fullorðna fólkið reynir að varna því að börn hafi þessar myndir undir höndum eða komist yfir þær, en hitt er alveg jafnvíst, að allar athuganir, sem gerðar hafa verið, bæði í Ameríku og á Norðurlöndum, sem við þekkjum til, benda til þess að þessar vídeóspólur með þessu hrottalega kvikmyndaefni séu í umferð meðal barna, jafnvel ungra barna og unglinga, þannig að þetta rennur fram hjá allri gæslu heimilanna, gæslu yfirvaldanna og hvers konar gæslu sem hægt er að hugsa sér.

Það segir held ég í aths. við þetta frv. einhvers staðar, og er þar vísað til manna sem um þetta fjalla, fjölmiðlafræðinga, að sjónvarpið sem slíkt, hið venjulega sjónvarp, kalla menn fjölskyldumiðil. Fjölskyldan safnast um þennan miðil í heild og allir horfa á efni hans og geta nokkurn veginn treyst því yfirleitt að sjónvarp flytji boðlegt efni sem öll fjölskyldan getur horft á. Hins vegar hafa menn nefnt vídeóspólurnar, vídeótækin, eins konar hópmiðil og þá er átt við að það eru tilteknir hópar sem rotta sig saman til að horfa á kvikmyndir og þá stundum laumulega. Það er einmitt það sem gerist í þessu tilfelli, að börn og unglingar verða sér úti með ýmsum hætti um þessar kvikmyndir og koma sér fyrir einhvers staðar þar sem þeir geta horft á þær, t. d. á heimilum þar sem foreldrar eru ekki til staðar eða fullorðið fólk til þess að hafa gæslu á hendi. Þetta er sú aðferð sem beitt er í þessu tilfelli, og ég er alveg sannfærður um það, að ef mikið af þessum myndum verður í gangi í landinu og þær komast inn í landið og komast inn á heimilin munu börnin auðvitað halda áfram að sækjast í þessar myndir.

Ég vil taka það fram hér mjög skýrt, eins og ég er búinn að gera reyndar í hverri ræðunni á fætur annarri, að ég er í hjarta mínu mjög hræddur við allt sem heitir sensúr, alla ritskoðun sem við köllum, hvort sem það nær til ritaðs máls eða kvikmynda. Ég er mjög hræddur við það efni og vil síst af öllu gerast forgöngumaður fyrir slíku. Hins vegar þýðir ekkert að vera að stinga höfðinu í sandinn eða gera sér upp sérstakar skoðanir eða góðan hug í þessu efni. Við verðum að líta raunsætt á þessi mál og viðurkenna að það er ekki alltaf hægt að komast hjá því að beita eins konar ritskoðun og/eða eftirliti með því efni sem á boðstólum er fyrir almenning og þá sérstaklega fyrir börnin og jafnvel unglingana. Þetta höfum við reyndar viðurkennt hvað kvikmyndir varðar, ég held frá fyrstu tíð, og kvikmyndahúsaeigendur hafa sætt sig við þessa skoðun, gengist undir þessa kvöð á sinni atvinnustarfsemi. Ég held að þetta hafi yfirleitt farið vel úr hendi og ég sé því ekki að það sé á nokkurn hátt óeðlilegt þó að aðrar tegundir kvikmynda og kvikmyndatækni verði líka að lúta þeim boðum og bönnum sem kvikmyndahúsaeigendur verða að sætta sig við menn sem þó eiga atvinnu sína að verja í þessu og gegna að sjálfsögðu mikilvægu hlutverki í okkar menningarlífi þar sem kvikmyndahúsin eru og sýningar kvikmynda eru.

Ég held því að við ættum ekki að deila mjög mikið um þetta mál hér, heldur gera eins og hv. menntmn. hefur gert, þ. e. þeir menn sem á fundi voru þegar menntmn. hélt sinn fund, að leggja til að þetta frv. verði samþykkt án breytinga. Ég vona að það geti orðið. Þessar umr. held ég að séu ekki endilega jákvæðar í þessu máli. Ég held að það sé miklu mikilvægara að við reynum að sameinast um að koma þessu máli fram efnislega og að það geti farið til Ed. og fengið þar sömu meðhöndlun sem það hefur fengið hér nú.

En ég hlýt þó að segja að lokum að það er hverju orði sannara, og það held ég hafi komið skýrt fram hjá mér í frumræðu minni þegar ég mælti fyrir þessu frv., að framkvæmd þessa, ef að lögum verður, er vissulega mjög vandasöm. Mér er fyllilega ljóst að framkvæmdin á þessu er mjög vandasöm ég þar verður ekki hjá því komist að setja um framkvæmdina reglugerð, sem ég fúslega viðurkenni að er vandasamt að semja. En það má samt sem áður ekki fæla okkur frá því að taka afstöðu til þessa máls og vera annaðhvort með eða móti þeim voða sem af því hlýst að hafa slíkar ógeðslegar kvikmyndir í gangi og inni á heimilum fólks, eins og hér er um að ræða. Ég held að við ættum að þora að hafa á þessu skoðun og vera annaðhvort hreint með því eða á móti. Ég hygg að besta aðferðin verði sú, eins og ég hef reyndar komist að raun um fyrir mína eigin athugun og með flutningi þessa máls, að altækt bann, ef svo má segja, sé rétta leiðin í þessu, jafnvel þó að ég viðurkenni það, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. var að nefna hér, að vissulega verður framkvæmdin erfið. En við megum ekki láta það ógna okkur.

Hv. þm. vísaði til meðferðar okkar á áfengum drykkjum og talaði um að eitt sinn hefði bann verið hér algert á innflutningi áfengis. Það er hverju orði sannara, þó að hvorugur okkar muni það nú í reynd vegna þess að það er svo langt síðan að við munum hvorugur hvernig það gekk fyrir sig, þó að við þekkjum það nokkuð af sögunni, og menn eru engan veginn sammála um hvernig það bann hafi gengið fyrir sig. Það vita allir að þetta bann var stórlega brotið og það var bruggað í landinu á þessum tíma og allt það. Við vitum það. Hins vegar er það held ég alveg ljóst að á þessum tíma var drukkið miklu minna áfengi en nú. Áfengisvandamálið var miklu minna í landinu á þessum tíma, þegar svo var, en nú er. Það er alveg ljóst að svo var.

Ég vil líka nefna að við höfum býsna stranga áfengislöggjöf um margt. Það er mikið af boðum og bönnum í okkar áfengislöggjöf, þó að um þá áfengislöggjöf megi svo sannarlega deila því að hún er auðvitað full af alls konar hræsni. Það er annað mál. En eitt af því sem bannað er í þeim lögum er bruggun í heimahúsum. Við vitum samt sem áður, eða mér er sagt svo og ég hygg að flestir kannist við það, að bruggun í heimahúsum á Íslandi er þó nokkur þrátt fyrir þetta bann, enda hefur það verið svo að jafnvel hafa innflytjendur með dugnaði sínum og áhuga á því að koma góðum varningi til fólks séð um að bruggefni og bruggtæki eru flutt inn í landið, og yfirvöldin hafa ekki séð sér fært að banna þetta þó að allir viti í sjálfu sér að það er ekki verið að brugga einhvern liðónýtan Egilsbjór á heimilunum, sem eiga þessi tæki, heldur roksterkan áfengan bjór. Þannig er auðvitað ljóst að það er oft erfitt að framfylgja lögum fyllilega og/eða bönnum sem sett eru í lög. Það er rétt. En jafnvel það eigum við ekki að óttast.

Við verðum aldrei svo helgir og heilagir, homo sapiens, eins og hv. þm. sagði, að við höldum ekki áfram að vera örlítið spilltir og fullir af löngun til að brjóta lög. Ýmis lög eru nú þannig, að þau hafa aldrei kannske fengið fulla staðfestu í almenningsálitinu. Slík lög eru brotin. En ég held að það eigi naumast við um það sem við erum að tala hér um núna, bann við ofbeldiskvikmyndum. Ég held að það hafi ekki unnið sér sömu hefð og t. d. áfengisdrykkja, sem homo sapiens hefur stundað núna miklu lengur en elstu menn muna a. m. k. og jafnvel ágætir sagnfræðingar eins og vinur minn hv. 4. þm. Reykv. þekkja. Ég veit ekki hvað margir eru búnir að vera að drekka sig fulla í mörg árþúsund, ég veit það ekki, en það er víst orðinn afar langur tími. Það er komin eins konar hefð á það, og það hefur aldrei fyllilega fengið staðfestingu í hugum margra að ekki væri heimilt að hafa áfengi um hönd og ákaflega erfitt að framfylgja þar bönnum. En það getur hreint ekki átt við ofbeldiskvikmyndir, síst af öllu þær ofbeldiskvikmyndir sem nú eru fluttar inn til landsins á þessum dæmalausu vídeóspólum, sem er hálfheilagt orð, og hafa ekki unnið sér neinn þann sess að ekki sé óhætt fyrir okkur Íslendinga að taka þar í taumana strax og banna þetta með altæku banni, ekki bannsins vegna og ekki vegna þess að við séum slíkir bannvösólfar, heldur af því að við viljum vernda okkar börn og okkar unglinga fyrir skaðlegum áhrifum þessara viðbjóðslegu mynda. Þess vegna vona ég það reyndar, að hv. þm. fallist á að þetta frv. verði að lögum og verði afgreitt héðan frá deildinni og síðan afgreitt til hv. Ed. og geti orðið þar að lögum.

Ég held að þó að það sé vafalaust hægt að hugsa sér einhverjar breytingar á frv. væri æskilegt að þær yrðu ekki gerðar. Slíkt gæti orðið til þess að tefja framgang þessa máls. Ég er ekki viss um að það væri okkur alþm. til verulegs sóma ef við reyndum ekki nú að nota lagið og koma nokkurri reglu á þetta mál.