04.11.1982
Sameinað þing: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

1. mál, fjárlög 1983

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, þó að sum þeirra væru kannske ekki mjög ákveðin.

Það er greinilegt að hann virðist ekki hafa miklar áhyggjur af því að hafa ekki lengur þennan tekjuauka af innflutningnum í ríkissjóð því hann virðist ekki hafa látið athuga það fyrir sig hvað þetta hefur numið miklum fjárhæðum í fyrra og í ár. Það er alveg augljóst, hæstv. ráðh., að mjög auðvelt er að reikna það þar sem við höfum það sem er orðin staðreynd. Ég er ekki að tala um að reikna slíkar tölur fram í tímann eða áætla tekjur af innflutningi til áramóta. Við vitum náttúrlega hvaða tekjur ríkissjóður hefur haft af innflutningi undanfarna 9 mánuði og hvað hann hafði í fyrra og hvaða tekjur eru vegna umframeftirspurnar á þessum tíma. Þetta er tiltölulega mjög auðvelt dæmi. (Gripið fram í: Hvað er umframeftirspurn?) Umframeftirspurn eftir innflutningi er það sem er umfram eðlilegar veltubreytingar í þjóðfélaginu. Það er það sem dæmið snýst um. Þetta stafar að sjálfsögðu af viðskiptahallanum, af eyðsluskuldasöfnuninni og þetta er kjarni málsins til þess að gera sér grein fyrir ríkisrekstrinum undanfarin ár og hvert horfir.

Við vitum að það hefur í sívaxandi mæli orðið að veita auknar fjárveitingar til hinna og þessara stofnana vegna þess að forsendur fjárlagafrumvarps hafa brugðist og það hafa verið til peningar til að gera þetta vegna þeirra miklu tekna sem ríkissjóður hefur haft umfram forsendur frumvarpsins og umfram veltustærðir í þjóðfélaginu. En þetta er ekki lengur til staðar og þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir hæstv. fjmrh., ef hann ætlar að sitja áfram eitthvað í stólnum, að gera sér grein fyrir þessari staðreynd. Þess vegna spurði ég hann hvort hann hefði ekki látið athuga þetta fyrir sig og reikna þetta fyrir sig. Ég hef meira að segja reynt að gera þetta með aðstoð sérfróðra manna og tel að þarna sé um að ræða hvorki meira né minna en 800 millj. kr. á verðlagi í ár, eins og ég sagði áðan, og hafi ríkissjóður haft þann tekjuauka af umframeftirspurn eftir innfluttum vörum.

Ég vil upplýsa hæstv. ráðh. um það,— ég sá það á blaði hjá mér, ég hafði skrifað það eftir Seðlabankanum — að í ár hefur lánsfjáráætlun gert ráð fyrir 2071 millj. kr. í lántökur í erlendum lánum, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir því núna að þessar lántökur nemi 3000 millj. kr. Það stendur á plaggi frá Seðlabankanum dags. 5. okt. Ég get sýnt hæstv. ráðh. það ef hann vill.

Um reikniforsendur Vegagerðarinnar skal ég ekki deila. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að hún gerir ráð fyrir að það verði 58% verðbólga milli áranna 1982–1983, sem menn telja raunsæja forsendu vegna þess hve verðbólgan er orðin mikil núna. Vegagerðin reiknar yfirleitt út verðbólgu frá miðju ári til miðs árs, vegna þess að hún er með sínar framkvæmdir á miðju ári og hún verður að gera ráð fyrir slíkum forsendum ef á að vera eitthvað að marka raungildi þeirra talna sem hún er að fjalla um í framkvæmdum, og þess vegna hefur Vegagerðin fengið þessa tölu. Það er óumdeilanlegt, þetta liggur skjalfest fyrir, að hún telur að það skorti 136 millj. á til þess að ná 2.2%, eins og langtímaáætlunin gerir ráð fyrir, af þjóðarframleiðslu. Er þá náttúrlega gert ráð fyrir að þjóðarframleiðslan dragist saman, eins og í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir. Fjárskorturinn er þá 136 millj. kr. Það fé vantar til þess að sú forsenda standist að við leggjum 2.2% í vegagerð. Það vantar þá upp á frumvarpið. Og mín spurning var sú aðallega í þessu sambandi: Er það hugmynd ríkisstjórnarinnar að afla þess fjár með nýjum skatti?