04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Pétur Sigurósson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda þeim á það báðum tveim, hæstv. forseta deildarinnar og ráðh., að 3. umr. fer að sjálfsögðu fram samkv. þingsköpum og við erum hér til þess að ræða mál og ræða þau ítarlega. Ég bendi ennfremur á að ég og hv. þm. Vilmundur Gylfason flytjum brtt. við þessa umr. og erum m. a. að rökstyðja þá brtt., sem við höfum fulla heimild til samkv. þingsköpum og íslenskum lögum. Og hæstv. ráðh., sem hafði orð á því að hér væri verið að efna til umr., er búinn að tala jafnlengi og allir aðrir ræðumenn í Nd. um þetta mál. Ég hef verið að benda á ónákvæmni, sem hefur komið fram, og við erum að rökstyðja að frv. eigi að fá þá meðferð sem við leggjum til. Ég tek aðeins eitt atriði til viðbótar til þess að sýna fram á þetta svo að hæstv. ráðh. viti um það.

Það stendur í t. gr. frv. að þetta bann taki ekki til kvikmynda sem hlotið hafa viðurkenningu skoðunarmanna. Ég met það fólk, sem samdi þetta frv., ákaflega mikils. Sumar persónur þekki ég persónulega og hef bestu kynni af þeim, en hér hefur þeim yfirsést.

Það eru framleiddar kvikmyndir, sem hafa verið sýndar hér heima, þar sem ákveðnir kaflar myndarinnar eru gerðir fyrir viss lönd í heiminum, og fer það eftir þeim skoðunarreglum sem gilda í viðkomandi löndum. Til Íslands hafa kvikmyndahús ekki flutt aðrar kvikmyndir en þær sem fylgja hinu strangasta eftirliti og síðan er skoðað hér heima af íslenska kvikmyndaeftirlitinu og þá oft til viðbótar klippt úr þessum myndum. Samkv. þessu frv. verða myndir með því nafni sem er á þeirri kvikmynd sem hér hefur verið sýnd ekki skoðaðar aftur. Aðrir innflytjendur, sem flytja inn myndbönd, geta tekið þá útgáfuna sem er óþokkalegust og flutt hana inn og haft hana á markaði hér á Íslandi án nýrrar skoðunar.