04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

22. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég tel vera fyllstu ástæðu til þess að afgreiða þetta mál og tek undir þær röksemdir sem komu fram hjá 1. landsk. þm. Það má ugglaust deila um það hvort það eigi að vera fjórðungur eða hálft prósent, eins og kemur fram í brtt. hv. þm. Magnúsar Magnússonar.

Vegna orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Alexanders Stefánssonar, þá er það auðvitað misskilningur, sem kemur fram hjá honum, að hér sé verið að ráðstafa tekjustofnum sveitarfélaga. Hér er verið að ákvarða hverjir tekjustofnarnir skuli vera. Það er gert með lögum og hefur ætíð verið gert með lögum. Alþingi hefur ætíð sett lög um þau atriði, en síðan hafa sveitarstjórnirnar auðvitað haft fullan ráðstöfunarrétt yfir slíku, nema — og nú vona ég að hv. þm. hlusti — nema þegar um það er að ræða að ríkisvaldinu er sigað á viss sveitarfélög og gert að skyldu að taka þessa tekjustofna til þess að greiða með þjónustu, eins og t. d. hjá Strætisvögnum Reykjavíkurborgar. Þá er verið að ráðstafa tekjum, en ekki með þessum hætti. Þetta er alveg tvennt ólíkt, sem verið er að tala um. Annars vegar er verið að setja lög um það hverjir tekjustofnar skuli vera, en þegar það hefur verið gert eiga auðvitað sveitarfélögin að ráðstafa þeim tekjum sem sveitarfélögin fá. Þess vegna gætir æði mikils misskilnings í þessu máli.

Það skiptir auðvitað ákaflega miklu máli að þau sjónarmið sem hv. þm. Alexander Stefánsson kom fram með, sem eru alveg hárrétt, nái fram að ganga. Ég vænti stuðnings hans í því, því að nú er í nefnd í Nd. mál, sem er brtt. við frv. til l. um breyt. á lögum um verðlagsmál, þar sem gert er ráð fyrir því að verðlagsyfirvöld geti ekki skyldað sveitarstjórnir til að greiða með opinberri þjónustu eins og gert er hér í Reykjavík. Um það snýst það mál sem hv. þm. fjallaði um. En auðvitað getur Alþingi ætíð sett lög um hverjir tekjustofnarnir skuli vera.