04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

216. mál, Landsvirkjun

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. til I. var rætt í borgarstjórn Reykjavíkur nýlega gerði ég þá aths. við það, að það samkomulag sem verið var að lögfesta var gert milli Akureyrarbæjar, ríkisins og Reykjavíkurborgar á allt öðrum forsendum en þessi lög gera ráð fyrir. Þá var gerður samningur og samstarfssamningur milli ríkisins og umræddra sveitarfélaga um hlutafélag, sem skyldi rekið sem slíkt. Síðan hafa verið sett lög um Landsvirkjun, um byggingu orkuvera og rekstur orkuvera, þannig að sá sameignarsamningur sem var gerður á milli þeirra aðila sem ég gat um getur tæplega orðið undirstaða undir slíku ríkisfyrirtæki, sem hér er nú verið að stofn. til, þrátt fyrir samþykkt borgarstjórnar. Ég mun því greiða atkv. gegn þessu frv. m. a. vegna þess að ég tel óeðlilegt að einstök sveitarfélög, eins og t. d. Reykjavíkurborg eða Akureyrarbær, séu eignaraðilar. Eignaraðilar, sem hafa út af fyrir sig ekki mikið að segja en taka á sig ábyrgð langt umfram það sem eðlilegt er, miðað við það að Landsvirkjun er að verða ríkisfyrirtæki og á þess vegna að vera 100% ríkiseign. Réttast hefði verið að ríkið keypti bæði Akureyrarborg og Reykjavíkurborg út úr þessum samstarfssamningi.

Ég ætla ekki að halda hér langa tölu, en ég ætla þó að benda á nokkra punkta, t. d. í 10. gr., svo að ég stikli á stóru. Ég ætla að taka betur til máls á seinni stigum. þegar frv. hefur lengið meðferð í nefnd, og sjá hvernig það lítur þá út. Í 10. gr. er gert ráð fyrir að aðrir aðilar en eignaraðilar komi saman á landsfund eða eins konar ársþing fyrirtækis, sem þeir eru alls ekki að neinu leyti ábyrgir fyrir rekstrarlega eða lántökulega séð. Ég tel það algerlega óeðlilegt, þó svo að þetta sameignarfyrirtæki svokallað eigi að selja sína framleiðslu í öllum landshlutum.

Þá vil ég benda á atriði í 12. gr. Og ég bið hæstv. ráðh. að taka mjög vel eftir því sem ég segi nú, vegna þess að það er algerlega óeðlilegt og ég tel siðlaust, eins og hv. 4. þm. Reykv. tekur svo oft til orða. Í þessu tilfelli á það við. Ég ætla að bíða þar til hæstv. ráðh. heyrir örugglega mál mitt. Það stendur, með leyfi forseta, í 12. gr.:

„Stjórn Landsvirkjunar ræður löggiltan endurskoðanda til að endurskoða og staðfesta reikninga fyrirtækisins.“

Ég tel það algerlega óviðeigandi og alls ekki Alþingi sæmandi að stjórn fyrirtækis sem þessa ráði sjálft þá endurskoðendur sem eiga að fara yfir reikninga og endurskoða störf þess. Það er í lögum eins og er og ég hef bent á það hér. Það er líka í seðlabankalögunum. Það þarf að breyta þessari 12. gr. þannig, að Alþingi ráði löggilta endurskoðendur til þess að fylgjast með rekstri fyrirtækisins. Það á náttúrlega ekki að ræða það hér, en sama á við um Seðlabanka Íslands. Á þetta legg ég mjög mikla áherslu.

Þá er í 13. gr. talað um að stjórn Landsvirkjunar setji sjálf að fenginni tillögu Þjóðhagsstofnunar gjaldskrá fyrir Landsvirkjun. Það er út af fyrir sig allt í lagi ef ekki væri sagt neðar í sömu grein að slíkir samningar megi ekki að dómi ráðh. valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið. Þarna er verið að færa hugsanlegan taprekstur eða hækkunarkostnað frá Landsvirkjun yfir á hinar einstöku rafveitur, þ. e. viðskiptavini Landsvirkjunar, án þess að rafveiturnar, viðskiptavinir Landsvirkjunar, megi hækka hlutfallslega raforkuverðið til neytenda. Það er algerlega útilokað að hægt sé að samþykkja slíkt. En þannig hefur það verið og þessu þarf að breyta.

Þá segir í 14. gr. með leyfi forseta: „Landsvirkjun er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni“. Áfram þarf ekki að lesa frekar. Þetta er alveg fráleitt vegna þess að sveitarstjórnir tvær eru eignaraðilar að hálfu, Reykjavíkurborg annars vegar og Akureyrarbær hins vegar, og að gefa Landsvirkjun sjálfdæmi um að ráðstafa á þann hátt sem hún hefur gert fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna er fyrir neðan allar hellur Þessu vil ég mótmæla hér. Þessu hef ég mótmælt í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég hef þær upplýsingar frá ábyrgum embættismanni borgarinnar að skuldir Landsvirkjunar séu nú um helmingur af heildarskuldbindingum íslenska ríkisins erlendis. Að vísu var þetta leiðrétt á fjh.- og viðskn.fundi nýlega af forstjóra Landsvirkjunar. þar sem hann viðurkenndi að skuldir Landsvirkjunar væru kannske rúmlega 30% af heildarskuldum þjóðarinnar erlendis. En sá sami forstjóri gaf þessum ábyrga embættismanni borgarinnar það upp, að heildarskuldir Landsvirkjunar væru um 7 milljarðar ísl. kr., sem er þá um helmingur heildarskulda þjóðarinnar erlendis. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt.

Og það sem er að ske núna allra síðustu daga er að Landsvirkjun hefur tekið 400 millj. kr. erlent lán alveg nýlega og lánveitendur erlendis taka ekki lengur Landsvirkjun sem góðan og gildan lántakanda. Ábyrgð fyrirtækisins og eignaraðila er ekki lengur talin fullnægjandi nema til komi viðbótartrygging frá eignaraðilum, sem eru ríki og höfuðborg. þess efnis að eignaraðilar sjái til þess að viðkomandi lán verði örugglega greitt ekki síðar en 6 mánuðum frá gjalddaga. Þetta kemur einfaldlega til af því að það er alveg ljóst að Landsvirkjun sem slík er rekin með miklu tapi og lánveitendur sjá að hún getur ekki undir neinum kringumstæðum staðið í skilum með afborganir og vexti af þeim lánum sem þegar hvíla á fyrirtækinu. Þess vegna krefjast lánveitendur nú viðbótartryggingar frá höfuðborginni og frá ríkinu sjálfu. Þetta er alveg augljóst. Við erum ekki lengur góðir lántakendur, sem þýðir að Reykjavikurborg sem eignaraðili verður að taka á sig sinn hlut, sem er tæp 46% af þessum viðbótarskuldbindingum, og Akureyri 5%, eins og gefur að skilja, því að fyrirtækið stendur ekki sjálft undir þessu. Ég get fullvissað virðulegt Alþingi um það, að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar stendur ekki undir þessum skuldbindingum. Ef þær halda áfram að falla á fyrirtækið og eignaraðilar þurfa að standa í skilum, sem er alveg augljóst að þeir þurfa að gera vegna þess að fyrirtækið er rekið með tapi þá nægja ekki þrjár fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar til að standa undir þessum kvöðum þó að enginn peningur fari annað en í að greiða skuldir Landsvirkjunar.

Nú er það svo, að skuldum Landsvirkjunar er velt áfram á sama hátt og nýlega er byrjað að velta skuldum ríkisins áfram. með nýjum og nýjum skammtímalánum. Þetta kostar allt peninga og þar af leiðandi aukast skuldirnar, aukast kvaðirnar á eignaraðilum í staðinn fyrir að minnka á gjalddögum. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi vítahringur. Eins og kemur hér fram í frv., er Reykjavíkurborg beint ábyrg fyrir 45% af kvöðunum. Síðan er Reykjavíkurborg, miðað við höfðatölu Reykvíkinga í heildaríbúafjölda landsins, ábyrg fyrir þeim 50% sem ríkið á, svo að við skulum bara átta okkur á því hvað er að ske hér.

Ég er búinn að segja alveg nóg til þess að menn sjái í stórum dráttum á hvaða rökum ég er á móti þessu frv. Ég vil undirstrika og ítreka að fyrirtæki, sem er svona rekið, á að sjálfsögðu alls ekki að vera undir endurskoðendum sem stjórn þess ræður sjálf. Það hlýtur að segja sig sjálft. Þó að engin önnur breyting fáist á þessu frv. en bara sú, þá ætti Alþingi með því móti að geta fengið hlutlausara mat á reikningum fyrirtækisins.

Hitt er svo alvarlegra umhugsunarefni, að sá maður sem í senn er stjórnarformaður þessa fyrirtækis og seðlabankastjóri landsins — og enginn hefur betra yfirlit yfir heildarskuldir landsins og heildargreiðsluþol — skuli koma fram í sjónvarpi og segja: Það eru vondir stjórnmálamenn sem eru að sökkva landinu í erlent skuldafen — í staðinn fyrir að það er hans staða að segja: Hingað og ekki lengra, þegar hættumerki eru á lofti um erlendar lántökur. Og ef þá er ekki farið eftir hans ráðum, sem kannske er sá eini sem hefur fullkomið yfirlit yfir erlendar lántökur því að allt gengur þetta með einhverjum hætti í gegnum Seðlabankann, þá á hann bara að segja af sér á þeim forsendum að vondir stjórnmálamenn, sem hann er að vitna í, séu þrátt fyrir hans aðvörunarorð að koma landinu dýpra og dýpra í það fen sem hann sagði að við værum að sökkva í þegar við hann var talað á fundi fjh.- og viðskn. í gær. Ég vil því leggja áherslu á það við hæstv. ráðh., sem hefur kynnt þetta mál með sínum venjulega góða og mjúka málflutningi þegar hann þarf að fá eitthvað stórt í gegn, að ég vara við þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því hér á hv. Alþingi eins og ég gerði í borgarstjórn Reykjavíkur.