04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

22. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess að ég vil láta afstöðu mína koma fram.

Ég sé enga ástæðu til þess að lækka fasteignagjöld á sumarbústöðum og hafa þessar litlu tekjur af fámennum og fátækum sveitarfélögum. Þeir sem hafa efni á því að eiga sumarbústaði ættu að gera borgað þessar 100 kr. fyrir að fá að búa þar og vera og valda meira og minna mikilli umferð og beinu og óbeinu ónæði. Þarna er um ákaflega litlar upphæðir að tefla í langflestum tilfellum og ég undrast þegar forustumenn verkalýðsfélaga, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og hv. þm. Pétur Sigurðsson, eru að kveinka sér undan því að greiða þessa smámuni úr sínum sjóðum, sem áreiðanlega eru nógu feitir til þess að borga fasteignagjöld þessum hreppum. Ég sé ekkert eftir því þó að þeir taki nú upp budduna einstaka sinnum, þessir herramenn, því að þeir eiga nóg af peningum.