04.03.1983
Efri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

143. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur tekið til meðferðar það frv. sem hér er á dagskrá, um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ekki hefur orðið samstaða í n. um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n., hv. þm. Karl Steinar Guðnason, Salome Þorkelsdóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson auk mín, leggur fram álit sitt á þskj. 449 og till. um afgreiðslu málsins.

Þetta frv. er allveigamikið að fyrirferð. Hins vegar var það ekki afgreitt til n. fyrr en ég hygg á síðasta degi Alþingis fyrir jólaleyfi. Nefndin gerði þá ráðstafanir þegar í stað til þess að leita umsagnar um frv. og sendi bréf til 14 aðila um það efni. Þrátt fyrir ítrekanir hafa ekki nema fimm af þessum aðilum orðið við óskum n. um að senda umsagnir um frv. Og það vekur athygli að meðal þeirra sem ekki gera slíkt er Húsnæðisstofnun ríkisins, sem þetta mál varðar að sjálfsögðu mest, þar sem hér er um að ræða frv. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Með tilliti til þessa teljum við í meiri hl. n. að nauðsynlegt hefði verið fyrir n. að hafa lengri tíma til umfjöllunar um frv. Ennfremur er þess að geta að sum atriði frv. eru mikil ágreiningsmál. Meiri hl. n. telur því útilokað að frv. geti fengið nægilega meðferð á þessu þingi sem gert er ráð fyrir að verði rofið innan nokkurra daga. Með tilliti til þessa gerum við í meiri hl. till. á þskj. 449 um rökstudda dagskrá á þá leið að í trausti þess, að frekari endurskoðun verði gerð á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og frv. um það efni lagt fram á næsta reglulegu þingi, taki deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Ég vil taka fram að það er álit okkar að ekki þurfi að verða neinn skaði að þeirri töf sem yrði á þeirri afgreiðslu málsins með því að vísa því til næsta reglulegs þings. Það er ekki um slíkt atriði hér að tefla að það þurfi að breyta þeirri afstöðu að afgreiða málið ekki á þessu þingi. Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. deildarmenn sjái að það er ábyrg afstaða í þessu máli að afgreiða það á þann hátt sem hin rökstudda dagskrá gerir ráð fyrir. Ég vænti þess því fastlega að sú till. verði samþykkt. En ef svo skyldi fara móti von minni og ætlan að till. yrði felld áskil ég mér rétt til að bera fram brtt. við frv. við 3. umr.