08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Aðalmálið sem hér er til umr. er vissulega mjög mikilvægt. Það er um stöðu Námsgagnastofnunar. En ég veit nú ekki hversu langt ég fer út í að ræða hér almennt um fjármál menntmrn. Ég held að ég geti upplýst það hér að það er ekki verr statt en önnur rn. Mér er algerlega ókunnugt um það. Og þessa historíu, sem hv. þm. segir um að Sigurður Jóhannsson úr Ólafsfirði hafi ekki fengið greiddan ferðakostnað sinn, held ég að sé ástæðulaust að hafa hér sértaklega til umr. eða leggja mikið út af henni. Hann hefur að vísu einu sinni minnst á það við mig að honum bráðlægi á að fá þessa peninga. Það er alls ekki búið að gera ennþá upp við nefndarmenn, en ég vona að það takist án þess að nokkur vandræði verði út úr því og vil helst ekki þurfa að blanda slíku smámáli inn í umr. um slík stórmál sem hér er um að ræða. Mér kemur mjög á óvart að það skuli vera gert.

Hitt skal ég fallast á með hv. þm., sem hóf hér máls utan dagskrár, að Námsgagnastofnun á vissulega við vanda að etja og úr þeim vanda verður að ráða. Ég vil þá strax benda á að Námsgagnastofnun er engan veginn eina stofnun ríkisins sem á við fjárhagsvanda að etja. Því fer fjarri að svo sé. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt. Á þessum tíma árs, þegar verið er að undirbúa fjárlög, er það ekkert nýtt að menn sjái ýmiss konar erfiðleikum bundið að ráða fram úr málefnum ýmissa ríkisstofnana. Svo er nú sem oft áður og það er náttúrlega þeim mun eðlilegra að svo sé vegna þess að við höfum á þessu ári lifað talsvert erfiða tíma í fjárhagsefnum. En ég vil benda á það strax að þessi mál eru til meðferðar í þinginu og snerta að sjálfsögðu fjárlagagerðina, fjárlagaundirbúninginn. Ég mun vissulega gera mitt til þess að málefni Námsgagnastofnunar verði þar tekin eðlilega til meðferðar og að þau hljóti þar sem besta afgreiðslu.

Það er kannske óþarfi að rekja mjög nákvæmlega fyrir þingheimi hver sé tilgangur Námsgagnastofnunar. Það þekkja áreiðanlega allir hv. þdm. Lögin um Námsgagnastofnun eru tiltölulega ný. Þau voru sett árið 1979. Frv. að slíkum lögum hafði þá verið til meðferðar mjög lengi á vegum menntmrn. og reyndar flutt alloft á Alþingi án þess að það næði fram að ganga. Eins og menn einnig vita er Námsgagnastofnun eins konar samsafn af stofnunum sem áður höfðu starfað að útgátu bóka og annarra námsgagna. Fyrst Ég fremst er hér um að ræða Ríkisútgáfu námsbóka, sem er orðin býsna gömul stofnun, gamalt fyrirtæki, verður til í kringum 1936, ef ég man rétt, og var mikið framfaraspor á sinni tíð. Einnig er hér um að ræða stofnun sem hefur undir sér gamla Fræðslumyndasafnið og svo Skólavörubúðina. Þessi þrjú fyrirtæki heyra nú undir Námsgagnastofnun. En stofnunin sem slík er auðvitað ein þó að hún sé deildaskipt nokkuð í líkingu við þær stofnanir sem hún er sprottin af.

Það er líka rétt, sem fram kom hér mjög skilmerkilega hjá hv. fyrirspyrjanda, að starfssvið Námsgagnastofnunar er mjög víðtækt. Það nær samt eingöngu til þess nú að framleiða eða útvega námsgögn fyrir grunnskóla. Þó að heimild sé til þess einnig í lögum um Námsgagnastofnun, að Námsgagnastofnun sjái framhaldsskólum fyrir námsefni, þá hefur það ekki enn komið til framkvæmda og óljóst hvenær af verður.

Það sem við verðum fyrst og fremst að átta okkur á, þegar við ræðum um Námsgagnastofnun, er að hér er um tiltölulega nýja stofnun að ræða. Lögin verða til 1979. Hún tekur formlega til starfa, ef ég man rétt, á vordögum árið 1980 þegar henni er fengin stjórn. Síðan er settur námsgagnastjóri eða framkvæmdastjóri stofnunarinnar í ágústmánuði 1981. Sá sem því starfi gegnir var síðan skipaður í þá stöðu ári síðar, í ágústmánuði 1981. Ég vil því leggja mjög mikla áherslu á það að Námsgagnastofnun, í því formi sem lögin gera ráð fyrir, er óneitanlega stofnun í mótun. Hún er fyrst og fremst stofnun í mótun. Og mig langar til að vek ja mikla athygli á því að þegar um þessi mál var fjallað hér, þegar Ríkisútgáfa námsbóka var lögð niður og Námsgagnastofnun sett á laggirnar með miklu víðtækara starfssviði og skýrari starfsreglum. þá var ævinlega gengið út frá því að þessi nýja stofnun hefði sinn ákveðna þróunartíma, hún gæti aldrei komið alsköpuð fram, heldur yrði það að taka sinn tíma að þróa stofnunina upp í það stóra veldi sem henni er ætlað að vera samkv. lögum. Mig langar til að skýra þetta örlítið nánar.

Í raun og veru, ef við lítum á lagabókstafinn sem slíkan, þá er náttúrlega ljóst að þarna er gert ráð fyrir því að alger bylting verði í öflun námsgagna til skólanna miðað við það sem verið hefur frá upphafi. Lengi vel var fyrst og fremst miðað við það að til væri ein, kannske tvær námsbækur fyrir hverja námsgrein. Þetta þykir nú á tímum ótækt og reyndar nokkuð langt síðan menn sáu að óeðlilegt var að hafa ekki úr meiru að velja en kannske 1–2 bókum í hverri námsgrein. Stefnan er því sú að valið verði að vera miklu meira. Undir þetta tek ég og undir þetta er almennt tekið, að það er brýn nauðsyn á því að úrval námsbóka sé miklu meira en var hér fyrir allmörgum árum og viðgekkst á meðan Ríkisútgáfa námsbóka starfaði fyrst og fremst. En þetta setur náttúrlega stofnunina í vanda. Ef hún á að geta framkvæmt þetta vel og fljótt, þá setur það hana náttúrlega í gífurlegan fjárhagsvanda. Mín skoðun er því sú að við ættum að stefna að því að reyna að efla Námsgagnastofnun stig af stigi með það í huga að hún geti náð meginstyrk sinum á nokkrum árum.

Þetta mál ræddi ég mjög ítarlega við stjórn stofnunarinnar, þegar hún var sett á laggirnar einmitt í byrjun míns ráðherraferils 1980, og einnig við forstjóra stofnunarinnar sem settur var fyrst og síðan skipaður á árunum 1980 og 1981. Og ég held að það hafi verið sammæli okkar allra að þannig yrði að vinna. Það yrði að gera ráð fyrir þróun stofnunarinnar. Hún gæti aldrei orðið til alsköpuð á einu ári. Ég legg mikinn þunga á þetta atriði. Það skiptir verulegu máli að menn átti sig á því að hér er um allvandasamt framkvæmdamálefni að ræða. Hér er um vandasamt málefni að ræða og þess vegna verðum við að ætla okkur skynsamlega þróun í uppbyggingu svo viðamikillar stofnunar. Þetta held ég að sé fullkomið sammæli stjórnarinnar, ráðherra og forstjóra stofnunarinnar. Þetta er um það sem fyrst og fremst snýr að uppbyggingu stofnunarinnar og því sem á döfinni er í því sambandi.

Vegna þess að fyrirspyrjandi talaði hér nokkuð um húsnæðið, þá langar mig að víkja að því. Ég tel að í húsnæðismálum sé tiltölulega vel að búið og hugmyndir um það hvernig búið verði að stofnuninni að því leyti í framtíðinni held ég að þurfi ekki að verða ágreiningsefni. Þau mál séu í sæmilegu lagi. Hv. fyrirspyrjandi minntist á Víðishúsið eða Laugaveg 166, sem ríkið á en hefur ekki tekið fyllilega í gagnið, enda þarf að gera mikið við það hús. Ég vil taka það fram að menntmrn. hefur frá fyrstu tíð lagt mjög mikla áherslu á að Víðishúsið verði tekið í fulla notkun, vegna þess að menn þar eru sannfærðir um, eins og allir sem kynna sér málið, að Víðishúsið er á margan hátt góð eign og gott hús og þar er auðvelt að búa vel að ýmsum stofnunum ríkisins. En auðvitað kostar það fjármagn að gera slíkt og það hefur verið reynt. Eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda hefur verið veitt allmiklu fé á undanförnum árum til þess að lagfæra húsið. Það sem brýnast var til þess að koma í veg fyrir skemmdir, sem annars kynnu að verða frekar á húsinu, var að lagfæra þakið. Fyrir dyrum stendur einnig, og verður að sjálfsögðu að gera, að lagfæra glugga hússins frekar en orðið er.

En það sem ég vil segja í sambandi við Víðishúsið og Námsgagnastofnunina er það, að ég tel að ég hafi nú fengið það alveg ákveðið fram innan ríkisstj. að Námsgagnastofnun fái inni með sína starfsemi í Víðishúsinu á næstu árum, eftir því sem fram vindur viðgerð hússins. Ég tel því að út af fyrir sig sé ekki illa fyrir því máli séð, enda nauðsynlegt að Námsgagnastofnunin komist á einn stað með sína starfsemi, sem nú er dreifð viða um bæinn, bæði hér niðri við Tjarnargötu og uppi í Brautarholti 6 frá gömlum tíma og svo á Laugavegi 166 og reyndar einnig niðri í Borgartúni, þar sem filmusafnið er. Auðvitað verður þetta allt að komast á einn stað. Ég vil upplýsa það hér — og ég vona að menn taki eftir því — að það er ákveðið af ríkisstj. hálfu að Námsgagnastofnunin fái inni með sina starfsemi á Laugavegi 166, eftir því sem fram vindur um viðgerð og endurbætur á húsinu.

Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri almennt um stofnunina. En ég hlýt líka að taka undir það að vissulega skortir Námsgagnastofnun verulegt fjármagn eins og nú horfir. Æskilegt væri að geta skaffað stofnuninni meira fé en verið hefur þessi árin. Ég vil líka geta þess að þær tillögur sem gengið hafa frá menntmrn. — þó að ég sé reyndar ekki með þær núna hjá mér, ég segi það bara almennt — þær tillögur sem gengið hafa frá menntmrn. í sambandi við fjárlög bæði á þessu ári og í fyrra hafa verið skornar verulega niður við lokagerð fjárlagafrv. Og hvað snertir árið í ár held ég að það sé nokkurn veginn vafalaust að ástæðurnar eru almennt erfitt fjárhagsástand og þörf á aðhaldi í ríkisrekstrinum. En ég vil taka það fram að ég tel að aðhaldsaðgerðir gagnvart Námsgagnastofnun megi ekki verða of strangar og ég tel að það verði að vinna að því að bæta verulega úr því sem nú er fyrirhugað í fjárlagafrv. Þar treysti ég að sjálfsögðu á þingið og fjvn., að kynna sér það mál vel og rækilega svo að hún sé fær um að leggja þar nýtt til. Ég vona að samstaða geti náðst um það efni.

Það er deginum ljósara að Námsgagnastofnun hefur mjög víðtæku hlutverki að gegna. Henni er fyrst og fremst ætlað að sjá grunnskólunum fyrir námsefni. Það má vissulega deila um hvort það tekst. Ég ætta ekki að draga fjöður yfir þann vanda sem við er að etja. En það má ekki heldur mála þetta svo dökkum litum að ekki sjáist nein glæta.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef ekki orðið var við það, ég hef ekki fengið t.d. frá fræðslustjórum í landinu neina sérstaka umkvörtun um það að skólar hafi ekki getað hafið störf og geti ekki sinnt kennslustörfum sinum í vetur eðlilega vegna skorts á námsgögnum sérstaklega. Ég hef ekki orðið var við það. En hitt er alveg augljóst, að það varð viss dráttur á afhendingu námsgagna í haust. Ég hef ekki nákvæma skýrslu um hvaða gögn eða bækur þetta voru, en vissulega hefur komið í ljós að svo var. Það mun ekki alveg nýtt í sögu Ríkisútgáfu námsbóka og Námsgagnastofnunar að slíkt gerist, og er auðvitað illt til þess að vita að það skuli þurfa að koma fyrir, en ég held að við megum samt ekki mála þetta allt of dökkum litum.

Ég vil fyrir mína parta segja það að ég tel að Námsgagnastofnunina þurfi að efla. Það þarf að efla hana með talsverðum hraða og það þarf reyndar að koma sér niður á það með hvaða hætti eigi að ákvarða framlög til Námsgagnastofnunar og námsefnisgerðar. Það er hugsanlegt að miða þetta við einhverja ákveðna prósentutölu af því framlagi sem fer til kennslumála eða til skólanna. Það er hægt að hugsa sér það. Við höfum rætt það bæði fyrr og síðar hvaða prósentutölu ætti þar við að miða og bera upp við fjárveitingavaldið. Þetta er mjög mikilvægt að koma sér niður á, eins og er reyndar í sumum öðrum greinum, sumum öðrum kostnaðarliðum við skóla og fræðslukerfið. Ef litið er á tölur sem ég hef séð um þetta og teknar hafa verið saman um hlutfall í þessu sambandi — og þá miða ég við heildarframlög til grunnskólanna — þá kemur í ljós að síðustu 2–3 árin er síður en svo að þetta hlutfall hafi lækkað. Það hefur fremur hækkað. En ég er ekki að halda því fram að það sé nóg miðað við þarfirnar, miðað við umfang skólanna og vöxt þeirra og miðað við þann tilgang sem stofnunin hefur. En þegar litið er á framlög til Námsgagnastofnunar sem hlutfall af því fé sem gengur til skólanna, þá má ekki lita svo á að það hafi í sjálfu sér minnkað. Það er ekki rétt. Hins vegar er það svo, að þetta hlutfall hefði gjarnan mátt hækka, það hefði gjarnan mátt breytast í hækkunarátt.

Um þetta mál hef ég ekki öllu meira að segja. Ég hef viljað kynna mönnum Námsgagnastofnun. Hér er um nýja stofnun að ræða, sem er í vexti, sem er að stíga sín fyrstu spor, og það er smám saman verið að móta stefnuna í þeim efnum. Ég vil líka, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, minna á þá nefnd sem ég skipaði fyrir réttu ári síðan til þess að meta stöðu Námsgagnastofnunar og leggja á ráðin um þróun stofnunarinnar. Í þessari nefnd áttu sæti námsgagnastjóri og formaður stjórnarinnar og einn fulltrúi frá fjmrh. Þessir menn hafa unnið vel á þessu ári, skiluðu reyndar áfangaskýrslu strax í vor og bentu þar á ýmislegt, sem betur mætti fara í rekstrinum og hverju sérstaklega þyrfti að hyggja að. Auðvitað kemur fjölmargt í ljós í sambandi við rekstur þessarar stofnunar, sem þarf að bæta úr, bæði í stóru og smáu. En ég held að það sé höfuðatriðið að við reynum að þróa Námsgagnastofnun eðlilega. Hún getur aldrei orðið fullkomin á einu eða tveimur árum. Við verðum að taka upp hinar nýju aðferðir við útgáfu á bókum og kennslugögnum. Við getum ekki gert það með byltingarátaki heldur verðum við að gera það með eðlilegri þróun, ella er hætt við að við villumst, að okkur beri af leið, við villumst í því og ráðum ekki við slíkt verkefni fjárhagslega. því að ég held að allir hljóti að vera sammála um það að að mörgu er að hyggja í okkar ríkisrekstri og við höfum ekki nein praktísk skilyrði til að efna til stórbyltinga í fjárframlögum. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að það þarf að auka fjárveitingar og efla stofnanir, en við skulum gera það þó með réttri og eðlilegri þróun. Þetta er mín afstaða til Námsgagnastofnunar um leið og ég lýsi yfir því, að hún á vissulega við sína erfiðleika að etja núna, sem ég vænti að Alþingi taki á og að úr verði bætt áður en fjárlög verða afgreidd.