04.03.1983
Efri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að mæla hér fyrir stjfrv. til laga um bann við ofbeldiskvikmyndum. Þetta mál var upphaflega flutt í hv. Nd. og hefur verið afgreitt þaðan hingað til hv. Ed. Um frv. var, eins og lög gera ráð fyrir, fjallað í menntmn. Nd. og þeir nm., sem á fundi voru þegar málið var til lokaafgreiðslu þar, rituðu þar undir nál. Fjórir nm. lögðu þar til að frv. yrði samþykkt óbreytt. Síðan urðu við 2. umr. nokkrar umræður um þetta mál, sem leiddu til þess að fram kom brtt. við 3. umr., sem flutt var af hv. þm. Vilmundi Gylfasyni og Pétri Sigurðssyni við 5. gr. frv., sem varðar gildistökuákvæði frv. Það segir í 5. gr. upphaflega: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Var frv. samþykkt hingað til þessarar hv. deildar með þeirri breytingu að 5. gr. hljóðar þannig nú: „Lög þessi öðlast þegar gildi og gildi til ársloka 1987.“ Þannig er settur þarna sérstakur frestur um hversu lengi lögin skuli gilda, en að öðru leyti voru lögin samþykkt óbreytt efnislega eins og þau voru lögð fram.

Þetta lagafrv. er, eins og menn sjá, ekki langt. Það er ekki margar lagagreinar. Þær eru aðeins fimm. Kjarninn í þessu frv. er í 1. gr., þar sem lagt er bann við því að framleiða í landinu eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir, sbr. 2. mgr. Síðar kemur, í 2. mgr. 1. gr.. fram skýrgreining á því hvað „ofbeldiskvikmynd“ merkir. Þar segir að „ofbeldiskvikmynd“ merki kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar á mönnum og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir. Síðan heldur áfram í sambandi við skilgreininguna:

„Bannið tekur ekki til kvikmynda, þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis hennar. Ekki tekur bann heldur til kvikmynda, sem hlotið hafa viðurkenningu skoðunarmanna, sbr. VI. kafla laga nr. 53/1966. Ef ástæða þykir til er skoðunarmönnum þó heimilt að meta að nýju sýningarhæfni kvikmynda, sem áður hafa verið metnar.“

Síðan segir í 3. mgr. og er það eins konar hluti af skilgreiningunni:

„„Kvikmynd“ merkir í lögum þessum myndefni af hvaða tæknibúnaði sem er, hvort sem ætlað er til sýningar í kvikmyndahúsum. sjónvarpi eða öðrum myndflutningstækjum.“

Í rauninni er kjarni málsins í þessari grein. 1. gr., og það sem felst í greininni er það, að það er altækt bann við framleiðslu á slíkum ofbeldiskvikmyndum og öllum viðskiptum í sambandi við slíkar myndir og eignarhald á ofbeldiskvikmyndum. Umræður í hv. Nd. urðu að sjálfsögðu mjög miklar um þetta atriði, um skilgreininguna, og það, hvort auðvelt sé að skilgreina ofbeldiskvikmynd. Mér virtist reyndar að menn yrðu að lokum nokkuð sammála um að það mundi vera hægt og að ekki væri hætta á því að nein oftúlkun yrði í þessu efni og menn skildu yfirleitt hvað við er átt, að ofbeldiskvikmynd er það þegar sérstaklega er sóst eftir því að sýna viðurstyggilegar kvikmyndir, sem eru með misþyrmingum á mönnum og dýrum og drápsaðferðum sem teljast hrottalegar. Hins vegar er strax í þessari skilgreiningu reynt að koma í veg fyrir að menn líti svo á, að allar myndir þar sem ofbeldi komi fram þurfi endilega að vera af hinu illa. Þar er m. a. vísað til listræns gildis myndarinnar. Þetta er auðvitað þungamiðjan í þessu og kannske það sem er mest vandmeðfarið. En ég held sem sagt að það eigi ekki að þurfa að vefjast mjög fyrir mönnum hvað hér er átt við, þegar til kastanna kemur, og ég segi það, að eftir umr. í Nd. virtist það ekki vera vandamál hjá mönnum hvernig skilja bæri þetta, hvernig skilja bæri á milli ofbeldiskvikmyndar í merkingu þessa frv. og svo annarra kvikmynda, jafnvel þó að þær kunni að fjalla um ofbeldi eða sýna ofbeldi.

Að sjálfsögðu átta menn sig á því, að ýmsar tækninýjungar verða til þess að frv. af þessu tagi verður til. Ég vil taka það fram. sem ég hef fyrir mína parta lagt á mjög ríka áherslu, að ég tel að það sé á ýmsan hátt hættubraut sem farið er út á þegar tekin er upp ritskoðun eða sensúr í lýðfrjálsu landi. Á þetta vil ég leggja mikla áherslu og ég hef lagt á það mikla á.herslu að fara varlega með vald af þessu tagi. Menn verða að vita hvað þeir eru að gera. Þannig verður að skilgreina þetta allt mjög þröngt og af mikilli gætni.

Hér má alls ekki líta svo á að það sé verið að taka upp almenna ritskoðun, það er síður en svo. Það er auðvitað hægt að setja sig í þær stellingar að vera algerlega á móti allri ritskoðun eða t. d. eftirliti með kvikmyndum, en ég held að það sé nokkuð erfitt að ætla sér það á þessari stundu vegna þess að við höfum haft kvikmyndaeftirlit í landinu afar lengi, ég skal nú ekki fullyrða hversu lengi, en a. m. k. frá því að víðtæk lög um barnavernd voru hér sett fyrir 35 árum eða svo. Líklega er kvikmyndaeftirlitið eldra þó ég hafi ekki kannað það nákvæmlega. Þannig er í sjálfu sér ekki nýtt að það hafi verið af löggjafans hálfu talið eðlilegt að hafa vit fyrir mönnum í þessu efni. Við skulum gæta þess að þegar út í svona er farið, ritskoðun af þessu tagi eða kvikmyndaeftirlit, er slíkt auðvitað ekki gert í þeim leiða tilgangi einræðisherranna að stöðva eitthvað sem ekki má sjást, heldur er þetta beinlínis gert í varnarskyni við okkar æsku, við börnin og æskufólkið. Það er einmitt á þeim grundvelli sem þetta hefur verið viðurkennt og reyndar þrautrætt mál. Við höfum haft kvikmyndaeftirlit mjög lengi og það hefur starfað núna á þeim lagagrundvelli sem er að finna í lögunum um barnavernd, sem eru nú að vísu frá 1966. en eiga sér eldri sögu.

Það þýðir að við höfum haft sensúr á kvikmyndum alllengi. Þarf því ekki að koma mönnum neitt á óvart þó að það sé enn sú hugmynd uppi að slíku þurfi að beita. En það sem gerist í sambandi við barnaverndarlögin nú er það, að kvikmyndaeftirlitsmennirnir eða skoðunarmenn kvikmynda hafa í rauninni takmarkað vald, takmarkað verksvið, og verksvið þeirra takmarkast fyrst og fremst við að skoða það sem við köllum almennt bíómyndir og sýna á í almennum kvikmyndahúsum og nær til þess að banna myndir börnum eða unglingum undir 16 ára aldri. Verksvið þeirra er þannig mikið þrengt. Sjónvarpið sem slíkt hefur ekki heldur verið háð kvikmyndaskoðun, heldur hefur það sjálft annast sínar skoðanir eða ákveðið hvað sýningarhæft telst fyrir almenning í sjónvarpi. Veit ég ekki annað en það hafi verið fullkomlega eðlileg framkvæmd á því og ekki heyrt mikla gagnrýni hvað það varðar.

En það sem hefur náttúrlega verið að gerast hér undanfarin ár er að tæknin er að gerbreytast. Það er hægt að koma kvikmyndaefni núna á svo auðveldan hátt inn á heimilin að það er ekki meiri vandi en að kaupa bók eða blað að eignast myndefni, og menn eiga tiltölulega einfaldan tæknibúnað á heimilum sínum til að sýna þetta, þannig að það er ekki lengur nauðsyn fyrir fólk að fara annaðhvort í kvikmyndahús og sjá þar myndir ellegar þá að horfa á það í sjónvarpi eftir venjulegum reglum, heldur er það nú möguleiki fyrir fólk að hafa nánast að segja sitt eigið kvikmyndahús, safna að sér kvikmyndaefni á viðráðanlegum og meðfærilegum spólum og sýna þetta heima. Það er þetta sem gerir það að verkum að flætt hafa yfir löndin spölur með myndefni sem er áreiðanlega mjög misjafnt að gæðum og beinlínis skaðlegt fyrir ungt fólk á að horfa og jafnvel eldra fólk líka, en þetta myndefni hefur verið algerlega eftirlitslaust.

Þetta hefur verið áhyggjuefni víða um lönd og þetta mál hefur verið einmitt til umræðu núna alveg síðustu árin, bæði í fyrra og hitteðfyrra, hér á Norðurlöndum, og sums staðar á Norðurlöndum er það reyndar enn til umræðu, eins og Finnlandi þar sem ég hygg að þetta sé til meðferðar á þessum vetri. Af þessu leiðir það, að við höfum verið að hugleiða þessi mál hér á Íslandi. Að sjálfsögðu hefur það komið í minn hlut sem menntmrh. að fjalla um þetta málefni sérstaklega. Þetta frv. er árangur af ýmsum fundum og álitsgerðum sem orðið hafa til í vinnu á vegum menntmrn. um þetta efni. og hér liggur þetta frv. fyrir. Sú niðurstaða varð að flytja frv. sem felur í sér bann á ofbeldiskvikmyndum, þ. e. algert bann á þeim. Það má segja að kannske sé hægt að fara aðra leið til að hefta þetta og tempra notkun og dreifingu þessara mynda, en þessi leið er valin. Hv. Nd. féllst á þessa leið í prinsippinu og því er það að þetta mál er nú komið hingað til hv. Ed. til meðferðar.

Herra forseti. Það er óneitanlega hægt að tala mjög lengi og ítarlega um þetta mál. Ég veit ekki hvort ég geri það þó á þessu stigi. Ég vænti þess hins vegar að hv. Ed. taki þetta mál til umfjöllunar og það skjótrar umfjöllunar að málið fái meðferð í n. eins og lög gera ráð fyrir. Jafnframt er það ósk mín, herra forseti, að n. geti starfað nokkuð hratt. Ég vil og leyfa mér að fara fram á að þessi hv. deild fjalli svo hratt um þetta mál, þótt stutt sé til þingloka, að frv. geti orðið að lögum áður en að þingi lýkur. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, herra forseti, en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. þegar þessari umr. lýkur og að hv. menntmn. fjalli síðan um málið.