04.03.1983
Efri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2564 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hæstv. menntmrh. skuli hafa gert sér grein fyrir því að hér á landi hefur á undanförnum árum átt sér stað bylting, og sú bylting er tilkoma myndsegulbandstækjanna. Hins vegar hefur hann og hans ráðuneyti vaknað nokkuð seint í þessum efnum. en frv. það sem hér um ræðir, bann við ofbeldiskvikmyndum, hefði vissulega mátt vera nokkuð fyrr fram komið. Nokkru áður en þetta stjfrv. kom fram hafði ég lagt fram hér frv. til breytinga á lögum um vernd barna og ungmenna, sem hnígur mjög í sömu átt, en gengur að vísu ekki alveg eins langt.

Ég get sagt að ég er út af fyrir sig ekki ósamþykkur því að slíku banni verði komið á, sem hér um ræðir. vegna þess að margar af þeim myndum, sem hér um ræðir, eiga hreinlega ekkert erindi til fólks vegna þess að þar er um hreint rusl að ræða. Hins vegar brá mér svolítið þegar hæstv. ráðh. talaði um að ofbeldi þyrfti ekki endilega að vera af hinu illa. Ég þekki ekkert ofbeldi sem er af hinu góða, og ég held að slíks séu bara hreint engin dæmi.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri, heldur aðeins mælast til þess við þá n., sem fær þetta mál til athugunar, að hún fjalli um þetta frv. og frv. til laga um breytingu á lögum um vernd barna og ungmenna samtímis, vegna þess að þessi mál eru skyld og þegar er búið að vísa því frv. til n.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að þessu sinni, herra forseti.