04.03.1983
Efri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem töluðu um þetta mál hér. Ég held að við séum allir sammála um það í megindráttum að þetta er málefni sem þarf að snúast við.

Ég skal ekki þrátta við hv. þm. Eið Guðnason um það, hvort fyrr eða síðar hefur verið brugðist við þessu af minni hálfu. en frv. liggur a. m. k. hér fyrir og má vel segja sem svo, að það hefði mátt vera fyrr á ferðinni, og skal ég ekkert rengja hann um það.

Þá gat hv. þm. þess, að ég hefði tekið svo til orða að ekki þyrfti allt ofbeldi að vera af hinu illa. Hv. þm. má ekki leggja allt of mikið í þessi orð. Það sem ég á við er að sjálfsögðu það, að við komumst ekki hjá því einhvern tíma að fjalla um ofbeldi í kvikmyndum eða bókmenntum eða á annan hátt. Ég held að það sé ekki mögulegt að stefna að því að hafa algera dauðhreinsun á myndefni hvað þetta varðar og við verðum að gera þarna nokkurn greinarmun á því, í hvaða tilgangi, hvert sé mótívið fyrir því að fjallað er um ofbeldi í kvikmyndum. Það er nú þetta sem ég á við, en ég held að það hljóti almennt að verða öllum ljóst að ég sem ráðh. og sem persóna hef áhuga á að það verði lagt bann við ofbeldiskvikmyndum því annars hefði ég ekki flutt þetta mál og ekki flutt þær ræður sem ég hef flutt fyrir efni þessa frv.

En svo ég snúi mér aftur að hv. þm. Stefáni Jónssyni. þá gerir hann þarna athugasemd við þá breytingu sem gerð var í Nd. Það er kannske að fara í geitarhús að leita ullar að biðja mig um skýringar á þessu, vegna þess að í fyrsta lagi var ég ekki tillögumaður að þessu og talaði gegn þessu, en var auðvitað ofurliði borinn í þessu máli. því miður, af minni ágætu Nd. En eins og fram kom í máli tillögumanna heitir þetta, að láta lög gilda til ákveðins tíma, „sólarlagsaðferðin“. Felst í því að lög skuli gilda í ákveðinn tíma og séu þá tekin til endurskoðunar. Þetta er eins konar biðtími. (EG: Þá þarf ráðh. að breyta nafni laganna og láta þau heita um „tímabundið bann“.) Já. ekki skal ég þrátta um hvort svo sé. Það má ræða um það í n. hvort ástæða sé til þess, enda er hér um að ræða bann við ofbeldiskvikmyndum, hvort sem það telst nú tímabundið eða ekki. (Gripið fram í. ) En skýringin er eingöngu þessi, að tillögumennirnir töldu að hér væri um að ræða mál sem vissulega væri mikilsvert, en þó væri nauðsynlegt að endurskoða það fljótlega. Þess vegna var þessu ákvæði bætt inn í. Ég held að þetta skaði ekki málið mjög mikið í sjálfu sér. Efnislega heldur það sér, og þetta er þó fimm ára gildistími eða svo. Þess vegna vona ég að hv. Ed. taki þetta til athugunar og greiði fyrir því að frv. verði að lögum.