07.03.1983
Efri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

130. mál, málefni fatlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Frv. um málefni fatlaðra, sem ég mæli hér fyrir, á sér alllangan aðdraganda. Það má segja að með atkv. sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1976 hafi Ísland ákveðið að helga eitt ár málefnum fatlaðra. Það var árið 1981 sem kallað var Alþjóðlegt ár fatlaðra.

Við undirbúning þess árs var ákveðið í ríkisstj. á árinu 1980 að undirbúa m. a. frv. til laga um heildarlöggjöf um málefni fatlaðra. Það frv. var unnið af nefnd sem kölluð var Alfanefnd og var skipulögð í sept. 1980. Starfaði hún undir forustu Margrétar Margeirsdóttur deildarstjóra í félmrn., en auk hennar sátu í Alfanefndinni fulltrúar frá ýmsum samtökum fatlaðra, Sambandi ísl. sveitarfélaga svo og frá rn., þ. á m. menntmrn.

Þetta mál fékk síðan rækilega meðferð í ríkisstj. og var lagt fyrir þing á s. l. vetri 1982. Félmn. Nd. fékk málið til meðferðar og skilaði áliti í apríl 1982 og lagði til að gerðar yrðu nokkrar breytingar á frv. Frv. náði ekki fram að ganga á þinginu 1981–1982 og var því endurflutt á þessu þingi með þeim breytingum sem félmn. Nd. hafði gert á frv. á árinu 1982. Málið hefur síðan verið til meðferðar í hv. félmn. Nd. Hefur hún farið rækilega yfir málið og kallað fyrir sig fjölmarga aðila, leitað umsagnar og ábendinga. Málið hefur einnig veríð rætt talsvert innan þingflokkanna hér á hv. Alþingi og fór svo að félmn. Nd. skilaði ekki aðeins frá sér almennu nál., heldur einnig allmörgum brtt. við hinar ýmsu greinar frv. og birtast þær á þskj. 490.

Meginþáttur breytinganna fjallar um svokallaða Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og hvert hlutverk hún eigi að hafa. Það eru allmiklar breytingar frá því sem áður hafði verið gert ráð fyrir um greiningarstöðina sem þar er gerð tillaga um. Þeim fylgir svo ákvæði nr. II til brb. þar sem gert er ráð fyrir að félmrh. eigi í framhaldi af samþykkt þessa frv. að skipa fimm manna nefnd sem hafi það verkefni að gera tillögur um fyrirkomulag á framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins í samræmi við ákvæði 16. gr. Menntmrh. skipar einn fulltrúa frá Athugunar- og greiningardeildinni í Kjarvalshúsi, heilbrrh. einn fulltrúa frá nýburadeild Landsspítalans, félmrh. einn fulltrúa að fenginni tillögu svæðisstjórna — sameiginlegri tillögu væntanlega. Landssamtökin þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands tilnefna svo einn fulltrúa hvort í nefndina. Þegar tillögur þessarar nefndar liggja fyrir er gert ráð fyrir að þær verði lagðar fyrir Alþingi til staðfestingar.

Ég lít svo á, að til þess að leggja mál fyrir Alþingi til staðfestingar séu tveir eða þrír möguleikar uppi. Sá fyrsti er auðvitað að gera það í frv.-formi, sem ég teldi óþarft í þessu tilviki. Annar möguleikinn er sá að gera það í formi þáltill., sem lögð yrði fyrir Alþingi og óskað eftir því að Alþingi segði álit sitt á efni till. Þriðji möguleikinn er sá, að afgreiðsla og afstaða fjvn. og hv. Alþingis við afgreiðslu fjárlaga dugi í þessu efni. Ég teldi að rétt væri að hafa í þessum efnum uppi síðasta kostinn, þ. e. að hér yrði afstaða við afgreiðslu fjárlaga látin nægja, og mun ég halda mig við þann skilning, nema að aðrar ábendingar komi fram frá hv. félmn. Ed. þegar hún fjallar um þetta mál.

Í ákvæði II til bráðabirgða segir að menntmrn. eigi þegar í stað að gera ráðstafanir til að leigja eða kaupa hentugt bráðabirgðahúsnæði fyrir starfsemi Athugunar- og greiningardeildarinnar í Kjarvalshúsi. Kostnað vegna bráðabirgðahúsnæðisins skal fjármagna úr Framkvæmdasjóði öryrkja og þroskaheftra. Þarna er gert ráð fyrir að með lögum væri þetta mál tekið út úr verksviði stjórnarnefndar málefna fatlaðra. Verði um kaup að ræða á húsnæði sem ekki hentar framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins skal endursöluverð þess húsnæðis renna til Framkvæmdasjóðs öryrkja, sem fjármagnar stofnkostnað, sbr. 1. lið ákvæðis til bráðabirgða II. Um þetta er í sjálfu sér gott eitt að segja. Greiningarstarfsemin býr við mikil þrengsli eins og sakir standa og er nauðsynlegt að bæta þar úr.

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir byggir á því að gerð er tillaga um að samræma nokkur lög sem snerta málefni fatlaðra og þroskaheftra. Þar er þá fyrst um að ræða lögin nr. 27/1970, um endurhæfingu og endurhæfingarráð, og 2. og 3. gr. laga nr. 12/1952 um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila. Með þessu frv., ef samþykkt verður, er sem sagt gert ráð fyrir að starfsemi endurhæfingarráðs í núverandi mynd falli niður, en stjórnarnefnd um málefni fatlaðra yfirtaki það starf, eins og segir í 3. gr. frv. Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að inn í það og inn í lögin um málefni fatlaðra verði tekin öll ákvæði laganna frá 1979 um aðstoð við þroskahefta og að þar með sameinist í eitt endurhæfingarstarfsemin annars vegar fyrir fatlaða og aðstoð við þroskahefta hins vegar.

Í frv. er einn kafli um markmið og stjórn, þar sem gerð er grein fyrir svæðisskiptingu í þessu efni. Í II. kafla er fjallað um þjónustu og stofnanir fyrir þroskahefta og fatlaða. Í III. kafla er rætt um tilkynningarskyldu, þ. e. ef í ljós kemur að ætla megi að barn sé fatlað eigi viðkomandi aðili að tilkynna það foreldrum eða viðkomandi stofnunum vegna hugsanlegrar greiningar eða frumgreiningar. Í IV. kafla er svo fjallað um greiningarstöðina og á honum er kannske aðalbreytingin gerð frá því sem var í upphaflegu frv. Í V. kafla er fjallað um hæfingu og endurhæfingu. Er þar um að ræða þau ákvæði sem sótt eru einna helst í endurhæfingarlögin. Í VI. kafla er fjallað um húsnæðis- og atvinnumál fatlaðra. Þar er m. a. gert ráð fyrir að atvinnuleit fyrir fatlaða verði starfrækt í tengslum við vinnumálaskrifstofur. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að lögin um vinnumiðlun eru nú í sérstakri endurskoðun með tilliti til aðildar Íslands að norræna vinnumarkaðnum. Í VII. kafla er svo fjallað um kynningu á málefnum fatlaðra hvernig henni eigi að haga. Þar segir t. d.: „Að ákvörðun menntmrn. skal tileinka einn dag á ári kynningu á málefnum fatlaðra í grunn- og framhaldsskólum landsins.“ Í VIII. kafla er svo fjallað um rekstur og kostnað. Þar er gert ráð fyrir algerlega óbreyttri kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá því sem nú er. Við treystum okkur ekki til þess að gera tillögu um breytingar í því efni við þessar aðstæður og í þessu frv. Þess vegna eru tillögur hér um algerlega óbreytta kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Í IX. kafla er fjallað um Framkvæmdasjóð fatlaðra, sem gert er ráð fyrir að heiti svo, og hann yfirtaki Framkvæmdasjóð þroskaheftra og öryrkja, sbr. lög nr. 47/1979, og hann yfirtaki einnig það fé úr Erfðafjársjóði sem fer til framkvæmda í þágu fatlaðra. Í brtt. er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi til árlega á næstu fimm árum jafnvirði 55 millj. kr. miðað við 1. janúar 1983. Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við byggingarvísitölu miðað við gildistöku laganna. Að þeim tíma liðnum skal endurskoða framlag ríkisins.

Ég vek athygli hv. Ed. á því að mér sýnist að ákvæði II til bráðabirgða eins og það kemur frá Nd. sé rangt orðað. Þar er greinilega gert ráð fyrir að sjóðurinn haldi sama nafni áfram, en hann á að heita Framkvæmdasjóður fatlaðra en ekki Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra áfram eins og í brtt. Nd. er gert ráð fyrir. Þetta er væntanlega ritvilla úr Nd. og sjálfsagt einfalt að leiðrétta það.

Herra forseti. Það er engin launung á því að þetta mál er eitt þeirra málefna sem ríkisstj. hefur sett á þann lista yfir mál sem hún óskar eftir að fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Þó að skammt sé eftir þings óskum við eindregið eftir því. Málið hefur fengið mjög rækilega meðferð hér á hv. Alþingi. Það hefur verið í félmn. Nd. lengi. Og ég veit að hv. þm. hafa gert sér grein fyrir því að fjöldi samtaka fatlaðra og samtaka aðstandenda fatlaðra hefur látið frá sér fara mjög eindregnar ábendingar og ályktanir um að Alþingi ljúki þessu máli. Ég heiti á hv. félmn. Ed., svo og deildina alla, að reyna að sjá um að svo verði.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn.