07.03.1983
Efri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Aðdragandi þessa máls var rakinn þegar mælt var fyrir þessu frv. í Nd. og jafnframt hefur hv. 5. þm. Vesturl. gert þann aðdraganda nokkuð að umtalsefni hér og raunar meðferð frv. í þinginu, þannig að ég þarf ekki að bæta þar neinu við í sjálfu sér. Ég geri ráð fyrir að hv. félmn. Nd. hafi reynt til þrautar að fylgja frv. eftir í upprunalegri gerð þess. Eins og komið hefur fram er þetta frv. flutt ekki síst á grundvelli eindreginna óska íbúa þess byggðarlags sem hér er fjallað um. Ég vil líta svo til að umfjöllunin í Nd. og niðurstaða þar hafi orðið á grundvelli samkomulags, þar hafi menn náð svo langt sem tök voru á að sinni.

Það var getið um það úr þessum ræðustól af hv. síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Vesturl., að fulltrúar byggðarlagsins væru á leið til Reykjavíkur á morgun, skilst mér, væntanlega til þess að ræða við hv. alþm. kjördæmisins um það sem einhverjir kalla nú örlög þessa frv. Gott og vel. En ég vil leggja áherslu á, að verði gerð breyting í hið upphaflega horf frv. verði það ekki til þess að málið strandi hér í þinginu. Ég legg áherslu á að hv. félmn. hyggi mjög að því.

Ég set mig ekki á móti því að frv, fái sinn upphaflega búning, svo fremi að málið nái fram að ganga. Að sjálfsögðu verður það þá að fara á nýjan leik til Nd. Eins og frv. liggur fyrir núna er gert ráð fyrir að sýslumaður Snæfellinga gegni störfum bæjarfógeta í Ólafsvík. Þarna er að sjálfsögðu ekki gengið jafnlangt, og upphaflega gerð frv. gerði ráð fyrir. Hins vegar liggur í augum uppi að það verður sett upp skrifstofa í Ólafsvík sem innir af hendi þá þjónustu með sama óætti eða mjög svipuðum og um væri að ræða fast embætti og aðsetur þess aðila í Ólafsvík, enda þótt ekki sé gengið alveg jafnlangt og með stofnun sérstaks embættis.

Ég tek raunar þátt í þessari umr. einvörðungu til að ítreka að málið stöðvist ekki hér í þinginu. Ég hvet hv. félmn. til þess að sjá svo til að málið nái fram að ganga. Að mínum dómi er að mestu leyti komið til móts við íbúa þessa byggðarlags, enda þótt það sé ekki í jafnríkum mæli og upphafleg frv.-gerðin gerir ráð fyrir.