07.03.1983
Efri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

148. mál, notkun fasteignamats til viðmiðunar eignarskatts

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta frv. gerir í óbreyttri mynd ráð fyrir að lækka gjaldstofn við álagningu eignarskatts á fasteignum sem eru íbúðarhúsnæði, á höfuðborgarsvæðinu. Ég hefði talið eðlilegra að þessi lækkun næði jafnt til allra, án tillits til þess hvar þeir búa á landinu. Auðvitað má um það deila hversu mikil þessi lækkun skuli vera, en ég hef í samræmi við frv. sem ég flutti áður gert till. um að hér skuli í raun veittur 20% afsláttur, sem þýðir það, að gjaldstofninn hækkar um nálægt 42%, ef ég man rétt, milli ára í stað 78% hér á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað geta verið skiptar skoðanir um það, hversu mikill þessi afsláttur skuli vera, en það hafði ég til viðmiðunar í þessum efnum, að þessi gjaldstofn þyngdist ekki meir en svaraði til tekjuþróunar milli áranna, heldur væri frekar þeim megin að gjaldbyrðin af þessum sköttum léttist enn frekar en þyngdist með tilliti til þess að nú eru horfur á samdrætti í kaupmætti og hann reyndar kominn fram að hluta.

Það er jafnframt ákvæði í þessari brtt. um að við álagningu annarra gjalda eða skatta til ríkisins, svo sem erfðafjárskatts og stimpilgjalda, skuli miða gjaldstofn við 80% af fasteignamatsverði þessara eigna þrátt fyrir ákvæði annarra laga. Mér sýnist eðlilegt að þessi gjaldstofn sé yfirleitt lækkaður um sama hlutfall alls staðar, þar sem hér er greinilega um það að ræða að menn telja ekki rétt að nýta þennan gjaldstofn til fulls eða leggja þessar álögur á landsmenn til fulls.

Brtt. felur sem sagt í sér í fyrsta lagi að þessi lækkun nái jafnt til allra, hvar sem þeir búa á landinu, í annan stað að það nái til annarra gjalda, sem líka eru reiknuð af fasteignamati, stimpilgjalda og erfðafjárskatts, þannig að það sé gert almennt að því er álagningu ríkisgjalda varðar að fasteignamatið sé ekki reiknað upp um þá háu prósentutölu sem fasteignamatsnefnd hefur ákveðið, heldur verði nýtt að þessu sinni sem lægri gjaldstofn, en þá með sama hætti í öllum tilvikum.