07.03.1983
Efri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

148. mál, notkun fasteignamats til viðmiðunar eignarskatts

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. hafa e. t. v. tekið eftir ritaði ég ekki undir það nál. sem fjh.- og viðskn. lét frá sér fara vegna þessa máls. Í raun og veru er hér á ferðinni frv. þess eðlis, þ. e. eins og það var lagt fram og liggur hér fyrir, að lækka skal viðmiðunina, þegar um er að ræða álagningu eignarskatts á íbúðarhúsnæði, frá gildandi fasteignamati, á ákveðnu landssvæði, hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Í þessu sambandi hlýtur maður að huga að því, með hvaða hætti þetta fasteignamat er skráð og hvernig stendur á því að fasteignamatið hefur hækkað um 78% á milli ára. Ég vil hiklaust halda því fram, að til grundvallar því liggi að raunvirði þessara eigna hafi hækkað svo mikið, ef ekki meira. Öðrum þræði er það hinn frjálsi íbúðamarkaður, sem gildir um allt land og ekki síst hér í Reykjavík, sem veldur þessari hækkun, og fasteignamatið hefur verið viðmiðun við álagningu eignarskatts í slíkum tilfellum. Því væri í sjálfu sér eðlilegra að huga að fasteignamatinu sjálfu. Þetta frv. gefur ekki síst til kynna að menn séu með einhverjum hætti að vefengja það, enda þótt aðrar skýringar hafi verið gefnar á flutningi frv., þ. e. lægri launahækkanir en hækkun fasteignamatsins. En ég vil minna á að hér er um eignarskatt að ræða, en ekki tekjuskatt. Ég vil hiklaust halda því fram, og það er raunar þannig, að ef þetta frv. verði samþykkt sé fólki utan þessa þéttbýlissvæðis hér gert að greiða hærri eignarskatt sem hlutfall af hinu raunverulega verðmæti eignarinnar. Frv. táknar það í raun og sannleika.

Brtt. eru hér fluttar við frv. Annars vegar er brtt. frá hv. þm. Lárusi Jónssyni og Eyjólfi Konráð Jónssyni. Sú brtt. hljóðar um að það skuli miðað við skattvísitölu.

Þegar staðið yrði upp frá slíkri skattlagningu táknaði það raunar alveg sömu mismunun og ég er að reyna að færa rök fyrir, þ. e. verðmæti íbúðarhúsnæðis er verulega meira hér á Reykjavíkursvæðinu, skattgreiðslan sem hlutfall af raunvirði íbúðarhúsnæðisins hærri úti á landi.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson flytur jafnframt brtt. sem miðar að allverulega meiri lækkun, raunar lækkun fasteignaskattsins af íbúðarhúsnæði. Þar er gert ráð fyrir að lækkunin komi jafnt niður um allt land, en hún er það mikil samkvæmt brtt. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar að ég treysti mér ekki til að standa að og samþykkja þá brtt.

En að öllu þessu samanlögðu má til viðbótar kannske segja að meginrök mín fyrir því að standa ekki að slíku frv., sem hér er til umr. séu sá skollaleikur sem hér er leikinn. Við í fjh.- og viðskn. Ed. erum að fjalla um álagningu nýs skatts, veggjald heitir það. Að vísu er gert ráð fyrir að það veggjald sé greitt af bifreiðum landsins, en bifreiðarnar, sem þar um ræðir fyrst og fremst, gefa ekkert af sér. Þennan skatt verða menn að greiða af launum sínum alveg eins og eignarskattinn. Við erum sem sagt að taka með annarri hendinni og víkja að fólkinu með hinni.

Mér segir svo hugur um að ríkissjóði veiti ekki af þeim tekjum sem ætlað er að greiða á þessu ári, þó ég ætli ekki að fara að gerast sérstakur talsmaður ríkissjóðs, en hann er okkar sameiginlegi sjóður. Ég vil minna á að fyrir örfáum dögum samþykktum við frv. í þessari hv. deild sem varðar heilbrigðisþjónustuna. Þetta frv. kostar þó nokkur útgjöld úr ríkissjóði. Ekki gerðum við ráð fyrir neinni tekjuöflun í því sambandi. Við vékum ekki einu orði að því. Að öllu þessu samanlögðu, en fyrst og fremst því, að ég tel frv. fela í sér mismunun á milli dreifbýlis og þéttbýlis, þ. e. Stór-Reykjavíkursvæðisins og landsbyggðarinnar, og annað hitt, að ég vil helst ekki taka þátt í því að leggja á skatt annan daginn og fella niður skatt hinn daginn, mun ég greiða atkv. á móti frv.

Varðandi húsnæðiskostnað hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu til samanburðar við það sem er úti á landi er afar ólíku saman að jafna. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma. Ég vil aðeins minna á verulega meiri kostnað að því er varðar upphitun íbúðarhúsnæðisins. Ég hygg að nægi að nefna þetta atriði. Skattgreiðslur eru ekkert annað en kostnaður við íbúðarhúsnæðið.

Ég mun greiða atkvæði gegn því frv. sem hér er til umr. og brtt.