07.03.1983
Efri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

238. mál, fangelsi og vinnuhæli

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nú fyrst biðja hæstv. forseta afsökunar og síðan þm. í þessari hv. deild sömuleiðis, og hafa þeir þó e. t. v. ýmislegt fleira að fyrirgefa mér, en þetta mál er borið hér fram fullseint.

Tildrög þessa máls eða afskipta minna af þessu máli eru þau, að þegar ég tók sæti í tryggingaráði fyrir senn fjórum árum bárust oft inn á borð hjá tryggingaráði tilmæli refsifanga um miskunn nokkra í sambandi við greiðslu barnsmeðlaga, er þeir voru ófærir um vegna fangelsisvistar að vinna fyrir. Ljóst þótti að yfirsýn hinna vitrustu manna, og vil ég þar nafngreina Gunnar J. Möller hæstaréttarlögmann, sem lengst hefur átt sæti í tryggingaráði, að tryggingalöggjöfin gerði ekki kleift fyrir Tryggingastofnunina að gefa þar nokkuð eftir. Við umfjöllun þessara mála kom einnig í ljós, að enda þótt meðlögin væru refsiföngum þung í skauti er þeir kæmu út úr fangelsi og þessi gjöld hefðu safnast upp ásamt með vöxtum væru enn önnur gjöld, sem þeim var gert að greiða og upp hlóðust meðan þeir voru í fangelsinu, enn þyngri, þar sem voru skuldir af opinberum gjöldum, útsvari og sköttum með refsivöxtunum sem hlaðast á þessar skuldir meðan mennirnir sitja inni. Enn leiddi eftirgrennslan það í ljós með mjög marga þessara fanga, að þegar þeir koma út er það svo, þó að ekki megi segja að það sé að fara úr öskunni í eldinn að losna út úr fangelsinu, að þá má kannske orða það þannig að þeir stígi af þröskuldi fangelsisins út í sökkvandi skuldafen þar sem þeir eiga sér litla bjargarvon margir hverjir.

Eins og segir í grg. með frv. er hér ekki um að ræða neitt nýtt mál, en það hefur tekið á sig nýja mynd á hinum síðari misserum og síðari árum vegna sífellt hækkandi refsivaxta. Það mun því miður vera svo, að ekki gerist það ætíð, og kannske of sjaldan, að afbrotamenn okkar komi úr fangelsum staðráðnir í því fyrst og fremst að bæta sitt framferði en guði sé lof eru það þó nokkrir þeirra sem koma út með þann staðfasta ásetning. En með þeim hætti sem hafður hefur verið með innheimtu þessara gjalda, sem um er fjallað í frv., hefur þetta viljað fara svo, að þeir hafa hvergi getað ráðið sig í vinnu vegna þess að innheimtustofnanir, og þá fyrst og fremst Innheimtustofnun sveitarfélaga, hafa verið á eftir þeim með innheimtu á þessu fé og hirt hefur verið af þeim allt sem þeir hafa getað unnið sér inn þannig að þeir hafa átt lítinn kost sér til lífsframfæris og hafa orðið, ef svo má segja, að fara huldu höfði á vinnumarkaðnum. Dæmi veit ég þess með þó nokkuð sterkum líkindum, að einmitt það hvernig búið er að föngunum varðandi þessi skuldaskil er út kemur hafi valdið því að menn hafi lent inn í fangelsinu á nýjan leik.

Það hvarflar ekki að mér að þeir sem um þessi mál hafa fjallað hafi viljað þyngja refsingu fanganna með þessum hætti. Ég hef ástæðu til að ætla að mönnum hafi sést yfir þetta atriði að sjá þeim farborða að þessu leyti, það hafi dregist úr hömlu að gera það, og kemur í ljós að það er ekki hægt að gera það með breytingu á tryggingalöggjöfinni.

Ég naut aðstoðar fyrrnefnds Gunnars J. Möllers hæstaréttarlögmanns við samningu þessa frv. og það er samið í fullkomnu samráði við Baldur Möller ráðuneytisstjóra í dómsmrn.

Ég vil ekki orðlengja þetta fremur, en gefa aðeins skýringu á niðurlagi 1. gr. Greinin hljóðar svo: „Meðlög, sem falla á þann tíma, reiknað í heilum mánuðum, sem maður afplánar refsingu, vinnur af sér meðlag eða barnalífeyri skulu ekki innheimt. Eigi að síður skal Innheimtustofnun sveitarfélaga standa skil á meðlagsgreiðslum fyrir slíkan tíma til Tryggingastofnunar ríkisins.“

Merking niðurlags greinarinnar er í sem skemmstu máli að Innheimtustofnunin skal svo sem áður innheimta frá sveitarfélögunum til endurgreiðslu til Tryggingastofnunarinnar. Hér er um að ræða þann hóp manna sem efalítið stendur verst í skilum með greiðslu á meðlögum til hins opinbera, og ef þetta væri ekki tekið fram í 1. gr. gæti þetta leitt til þess að gjöld sem Tryggingastofnunin hefur ekki áður greitt lentu á Tryggingastofnuninni. Innheimtustofnunin á sem sagt að halda áfram að standa skil á meðlagsgreiðslum, sem hún sækir til sveitarfélaganna, til Tryggingastofnunarinnar. Önnur atriði í þessu frv. skýra sig sjálf með lesningu grg.

Ég vil svo í lokin, ef svo má segja, hnykkja á afsökunarbeiðni minni að leggja þetta frv. svo seint fram. Ég hef ástæðu til að ætla að við getum þrátt fyrir allt, eins og málið er í pottinn búið, fengið það afgreitt á þessum hala þingsins, ef við komum okkur saman um að flýta afgreiðslu þess hér í Ed.