07.03.1983
Efri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

143. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir greinargóðan málflutning varðandi frv. og brtt. þær sem við sameiginlega höfum lagt fram.

Það frv. sem ríkisstj. hefur nú lagt fram um Húsnæðisstofnun ríkisins er afskaplega illa gert — og það sem verra er, í því eru stórhættulegar leiðir, sem verða húsbyggjendum mjög til trafala á næstunni, ef þær verða samþykktar. Það er mjög athyglisvert að í 1. gr. segir, að ríkissjóður eigi að tvöfalda verðgildi framlags til Húsnæðisstofnunar á fjárlögum árið 1982. Það er mjög athyglisvert að þetta kemur fram nú í lok þings, þegar til kosninga hefur verið boðað, og sýnir það reyndar að þarna eru menn að reyna að bæta úr því vandræðaástandi sem þeir hafa komið húsbyggjendum í. En í raun meina þeir ekkert með þessu vegna þess að þeir hafa ekki aðstöðu til að framkvæma þessa hluti. Það verður búið að koma þessari ríkisstj. og þessum þingmeirihluta frá þegar til þess kemur að efna þessi fyrirheit.

Það er mjög athyglisvert að fjöldi almennra byggingarlána árin 1977–1979 er að meðaltali 1800 byggingarlán á ári, en fjöldi byggingarlána árin 1980–1982, í tíð þessarar ríkisstj., er sem næst 1300 að meðaltali á ári, þ. e. byggingarlánum hefur fækkað að meðaltali um 500. Og það er áætlað að árið 1983, þ. e. á þessu ári, verði byggðar 1200 íbúðir. Varla er hægt að komast neðar á svo skömmum tíma sem gert hefur verið nú. Sannleikurinn er sá, að húsnæðiskerfið er að þrotum komið. Verðgildi almennra byggingarlána er að verða minna en nokkru sinni fyrr eða aðeins um 10–12% af raunverulegum byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Geigvænlegir erfiðleikar steðja að húsbyggjendum, einkum yngra fólki. Afleiðing þess er samdráttur í íbúðabyggingum, uppsprengt verð á fasteignamarkaði og sprengingar á leigumarkaði. Fjárhagsgrundvöllur Byggingarsjóðs ríkisins er brostinn. Hann mun tæpast geta haldið í horfinu á þessu ári og er nú rekinn með stórfelldum yfirdráttarskuldum. Yfirstjórn Alþb. í húsnæðislánakerfinu hefur orðið hefndargjöf fyrir íslenska alþýðu og æskufólk.

Alþfl. lítur á endurreisn húsnæðislánakerfisins sem mannréttindamál og mun gera það að forgangsverkefni þegar til kemur. Hefði stefna Alþfl. náð fram að ganga árið 1979 væru lán til almennra húsbyggjenda nú 45% af byggingarkostnaði viðmiðunaríbúða og hver lánshluti reiknaður við útborgun fram til verðlags á útborgunardegi. Alþfl. sýndi fram á það með ítarlegri úttekt á húsnæðislánakerfinu og áætlunargerð, að stefna hans væri raunhæf og framkvæmanleg. Þessari stefnu munum við framfylgja þegar til kemur.

Mig langar til þess að gefa hér nokkurt yfirlit yfir fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Enda þótt aðeins væru veitt 1 182 nýbyggingarlán á síðasta ári versnaði sjóðsstaðan um 43.9 millj. kr. Nú er sjóðurinn yfirdreginn um ca. 120 millj. kr. hjá Seðlabanka og veðdeild. Þessar tölur eru frá 2. febr. og enn hefur staðan versnað. Nýjustu drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 1983 gera ráð fyrir 60 millj. kr. fjárvöntun þótt verðgildi lánanna verði óbreytt og fjöldi þeirra aðeins 1 200 eins og þessir herrar ætla sér nú. Þá er gert ráð fyrir að skuldabréfakaup lífeyrissjóða verði 220 millj. kr. á árinu, sem er 68.5% aukning frá raunverulegum kaupum á síðasta ári og sjá menn á þessu hversu fjarstæðan er mikil. Í drögum að lánsfjárlögum er gert ráð fyrir að þessi skuldabréfakaup verði 321 millj. kr., sem er víðs fjarri öllum veruleika, en handhæg aðferð til að ná endum saman. Sama aðferð var notuð árið 1982. Þá vantaði 58 millj. eða 31.1% upp á skuldabréfakaupin. Þetta sýnir okkur hvernig staðan er nú og hvernig þessum málum er komið, hversu illa hefur verið á málum haldið. Það er mjög einkennandi fyrir þessa umr. einmitt í þessum sal að þegar við erum að ræða þessi brýnu mál og hvernig hefur verið farið með húsbyggjendur í landinu, þá hverfa Alþb.-menn af vettvangi. Hver og einn einasti þeirra er á burt og vill ekki heyra hversu illa hefur verið á þessum málum haldið.

Ég og félagar mínir teljum það frv. sem nú liggur fyrir alls ekkí verða til þess, ef samþykkt verður, að bæta úr fyrir húsbyggjendum, öðru nær. Við sem myndum meiri hl. í félmn. leggjum fram ítarlegar brtt. og ég vona að stjórnarliðar sjái sóma sinn í því að fylgja þeim till., till. sem eru tilraun til að bæta úr þeirri ánauð sem húsnæðislánakerfið hefur orðið að þola í tíð þessarar ríkisstj.

Það mætti fara mörgum orðum um það hvernig á þessum málum hefur verið haldið, en ástæðulaust er að þylja slíkt yfir hálftómum sal. Hitt er annað mál, að verði þetta frv. samþykkt, þá er vegið enn frekar en gert hefur verið að Byggingarsjóði verkamanna eða fólkinu sem á að njóta þeirra íbúða er þetta kerfi byggir. Það á að gera í því formi að hækka vexti til húsbyggjenda og er meiningin að gera það á þann hátt að ríkisstj. og Seðlabanka verði falið það vald.

Ég læt þessu lokið að sinni. En ég vænti þess að tillögur okkar í meiri hl. félmn. verði samþykktar.