08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál. Það er auðheyrt að hv. krataþm. hafa ekki fengið nægjanlega útrás um helgina á þingi sínu og við eigum sjálfsagt eftir að kynnast því næstu daga ef þessu heldur svona áfram.

Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr. um Námsgagnastofnun. Hún er ein af mikilvægustu stofnunum fyrir skólakerfi landsins. Það viðurkenna allir. Ég vil bara segja það hér, að fjárlagafrv. er nú til meðferðar hjá fjvn. og vonandi kemur álit nefndarinnar hér fram um þetta tiltekna mál og þá eiga hv. þm. tækifæri til að flytja brtt. ef þeim finnst ýmislegt á skorta í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Það er eitt sem mér finnst nauðsynlegt að komi hér fram, fyrst farið var að ræða þetta mál sérstaklega. Það stendur í aths. við fjárlagafrv. á bls. 200, með leyfi hæstv. forseta:

„Að undanförnu hefur nefnd unnið að endurskipulagningu á starfsemi stofnunarinnar“, þ.e. Námsgagnastofnunar, „og munu niðurstöður hennar væntanlega liggja fyrir síðar á árinu. M.a. kemur til álita að breyta ýmsum þáttum í rekstri stofnunarinnar og taka upp viðfangsefnaskiptingu á fjárlagaliðnum.“

Ég held að mjög mikilvægt sé að menn taki þetta inn í myndina vegna þess að taka þarf mjög málefnalega á þessari stofnun. Hún er svo mikilvæg og hún er á vissum tímamótum. Ég vil benda á að inn í verkefni þessarar stofnunar hefur komið til álita að nota vídeóvæðingu í skólum. Það hefur verið óskað sérstaklega eftir því við fjárlagaafgreiðslu 1982 að nefndin kynnti sér þessi mál meðal skólamanna og það yrðu gerðar ákveðnar athuganir á því, á hvern hátt fræðslumyndasafnið, sem er í höndum Námsgagnastofnunarinnar, gæti breytt sínu hlutverki miðað við þá nútímatækni sem nauðsynleg reynist við skólarekstur í landinu.

Ég vil taka þetta hér upp um leið og ég lýsi því yfir að ég tel að setja þurfi ákveðinn ramma um umfang þessarar mikilvægu stofnunar fyrir skólastarfið í landinu. Fjvn. hefur þegar sýnt áhuga á að reyna að leysa fjárhagsvanda stofnunarinnar. Forstjóri þessarar stofnunar hefur gefið mjög greinargott yfirlit yfir vandamálin og nefndin á von á fleiri upplýsingum um þann þátt sem ég var að tala um hér áðan. Einnig koma til greina tillögur nefndarinnar sem vinnur að þessum málum.