07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. mínum og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur við frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Tillögurnar eru þessar:

1. 1. gr. orðist svo: „Á Alþingi eiga sæti 60 þjóðkjörnir þingmenn“. M. ö. o. felst brtt. í því, að þm. verði ekki fjölgað.

2. Lagt er til að 2. mgr. 1. gr. orðist svo: „Skiptingu þingsæta milli kjördæma skal ákveða í kosningalögum“. M. ö. o. öll ákvæði í stjórnarskrá, sem kveði á um lágmarksfjölda þingsæta á kjördæmi, verði numin úr stjórnarskrá og færð í kosningalög.

3. Lagt er til að 3. mgr. 1. gr. falli brott, en í staðinn komi þessi mgr.: „Við úthlutun þingsæta samkv. kosningaúrslitum skal þess gætt, að hver þingflokkur fái þingmannatölu í samræmi við heildaratkvæðatölu sína.“

Í texta þess frv. sem hér liggur fyrir er þetta orðalag svo loðið að það er nánast merkingarlaust, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við úthlutun þingsæta samkv. kosningaúrslitum skal gæta þess svo sem kostur er að hver þingflokkur fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína.“

Síðan koma önnur ákvæði sem varða raunverulega aðferðir við úthlutun jöfnunarsæta o. s. frv.

Þetta eru efnislega þær tillögur, sem við flytjum á þskj. 494.

Herra forseti. Nú vil ég leyfa mér að rökstyðja þessar tillögur nokkru nánar.

Hér liggur fyrir frv. til stjórnskipunarlaga, sem í aðalatriðum snýst aðeins um tvennt: Í fyrsta lagi fjölgun þm. um þrjá og í öðru lagi felst í þessum tillögum að stjórnarskrárbinda það misvægi atkvæðisréttar, sem tillögur þessar í heild sinni gera ráð fyrir, en þær gera ekki ráð fyrir meiri leiðréttingu á vægi atkvæðisréttar sem orð er á gerandi en náðst hafi þegar árið 1959, þ. e. það þýðir að kjósendur í Reykjavík eiga að una því áfram samkv. þessu samkomulagi að það þarf rúmlega 21/2 kjósanda í Reykjavík til þess að jafnast á við þann kjósanda í dreifbýli sem best er að búið í þessu efni.

Þær tillögur, sem hér eru fluttar, eru í andstöðu við þetta og kveða á um breytingar á þessum efnum. Hver er vilji kjósenda í þessum málum? Allar skoðanakannanir staðfesta að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur fjölgun þm. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er líka þeirrar skoðunar að allir Íslendingar eigi að hafa sama atkvæðisrétt. Hins vegar eru margir tilbúnir að sætta sig við þá málamiðlun að sú þróun verði í áföngum. Ég lýsi því yfir að ég er einn þeirra sem get unað því, enda er það pólitísk staðreynd að samkomulag um annað er ekki fáanlegt á Alþingi.

Niðurstaða skoðanakönnunar sem Samtök áhugamanna um jafnan kosningarrétt efndu til í febrúar var þessi: Meiri hluti þátttakenda eða 55% vill jafna atkvæðavægið milli landshluta að fullu og gera landið að einu kjördæmi án þess að fjölga þm. Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu míns flokks, svo sem hann hefur boðað hana áratugum saman og fest í sína stefnuskrá, en eftir sem áður er það staðreynd að um þessa leið er ekkert pólitískt samkomulag að fá á Alþingi.

Samkvæmt gildandi stjórnarskrá er það þm. sjálfra að ákveða leikreglur í kosningum og fjölda þm. Þetta er fráleit skipan. Það er viðurkennd réttarregla að menn eigi ekki að vera dómarar í sjálfs sín sök. Við þetta bætist að minni hluti þjóðarinnar hefur öflugan meiri hluta á Alþingi. Ástæðan er sú, að einungis þriðji til fjórði hver kjósandi fjölmennustu kjördæmanna hefur í reynd kosningarrétt til Alþingis. Þessi skipan þýðir að fulltrúar meiri hluta þjóðarinnar verða að leita eftir samkomulagi við fulltrúa minni hl., hinn stjórnarskrárverndaða þingmeirihl., til þess að fá leiðréttingu sinna mála.

Það liggur þegar ljóst fyrir að allir flokkar eru klofnir í afstöðu til þessa máls, hvernig svo sem reynt er að breiða yfir það með samkomulagstilraunum. Stjórnarskrárfrv., sem nú liggur fyrir Alþingi flutt af formönnum flokkanna og stutt af meiri hl. þingflokkanna, er pólitísk málamiðlun. Um hvað er þetta frv.? Eins og ég hef þegar sagt eru aðalatriðin tvö: fjölgun þm. um þrjá og það að færa kosningaaldur niður í 18 ár. En það hangir fleira á þessari spýtu. Í fskj. með stjórnarskrárfrv. er að finna tillögur um gerbreytt kosningalög, sem ætlast er til að næsta Alþingi samþykki. Það skal tekið skýrt fram, að hver svo sem verður niðurstaða þessa þings fær það ekki staðist að þetta þing bindi hendur þess þings sem saman kemur að loknum kosningum nú í vor, þannig að sá þáttur málsins hefur út af fyrir sig takmarkað gildi.

Hvað þýðir þessi tillöguflutningur í reynd? Þetta þýðir að samþykki nýtt Alþingi í maí þessa tiltölulega lítilfjörlegu stjórnarskrárbreytingu ásamt kosningalögum eru yfirgnæfandi líkur á því að efnt verði til nýrra kosninga í sumar, í júní eða júlí.

Hv. formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson, lýsti því yfir í þessum ræðustól áðan að flokkur hans væri andvígur því. Minn flokkur, þingflokkur Alþfl., hefur ekki viljað skuldbinda sig til þess að standa að tillögum sem fælu í sér skuldbindingu um að efnt verði til kosninga í vor. Engu að síður verður að játa, að sú leið sem hér er farin kallar því sem næst óhjákvæmilega á slíkar kosningar. Það er staðreynd að þetta frv. felur í sér að vísu mjög takmarkaða en þó nokkra leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar. Það mun fela það í sér að þrýstingur verður aukinn á það að efnt verði til kosninga samkv. nýjum kosningalögum og stjórnari skrárbreytingu. En á sama tíma er það staðreynd, að eftir langvarandi óstjórn, ekki aðeins þessarar ríkisstjórnar heldur hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri á undanförnum verðbólguáratug, er ástandið í íslenskum efnahagsmálum nú þannig, að hvenær sem er getur til þess komið að grundvöllur atvinnulífsins bresti og þær aðstæður skapist að það verði með öllu óverjandi að ætla að verja tíma þings og stjórnvalda mánuðum saman til þess að standa í kosningabaráttu, en við þessar kringumstæður eru litlar líkur á því að hægt verði að koma á starfhæfri meirihlutastjórn, hversu brýnt sem það augljóslega virðist vera, þannig að þessi leið er þegar af þessari ástæðu mjög hæpin. Ef menn hefðu viljað forðast þetta er augljóst mál að flokkarnir hefðu orðið að leita samkomulags um að leiðrétta misvægi atkvæðisréttar nú þegar á þessu þingi með þeirri aðferð að breyta kosningalögum með þeim hætti að samrýmdist stjórnarskrá. Það hefði falið í sér að fjölga ekki þm., því að það er stjórnarskrárbundið, og leggja fram breytingar á kosningalögum sem hefðu verið innan ramma stjórnarskrárákvæða, t. d. um 11 landskjörna menn. Ég viðurkenni að þetta var erfiðleikum bundið, en ég árétta að úr því að þessi leið er farin á annað borð er rökrétt niðurstaða þessarar aðferðar tvennar kosningar í vor, hvernig svo sem ástandið í íslenskum þjóðmálum kann að vera.

Ég sagði, herra forseti, að þær tillögur, sem hér liggja fyrir, væru pólitísk málamiðlun byggð á því að meiri hluti þings, sem að vísu er fulltrúi minni hluta þjóðar, gefur ekki kost á því að stærra skref sé stigið til þess að leiðrétta misvægi atkvæðisréttar en hér er gert.

Sú stjórnarbót, sem er boðin, snýst þá um þetta:

1. Það er ekki boðið upp á meiri leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar en þegar hafði náðst fyrir tæpum aldarfjórðungi eða árið 1959, svo að orð sé á gerandi.

2. Það er boðið upp á fjölgun þm. Hún er að vísu mjög lítil, það skal viðurkennt, og mun minni en vitað er og yfirlýst og fram kemur í samþykktum flokka að sumir stjórnmálaflokkar, þ. á m. bæði Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og Alþb., voru reiðubúnir til þess að fallast á. É.g hygg að þessi tiltölulega litla fjölgun þm. sé m. a. til komin vegna þess að bæði hér innan þings, innan einstakra þingflokka og úti í þjóðfélaginu sjálfu hefur risið mótmælaalda gegn því að fjölga þm.

Það eru ekki meginrök í þessu máli að á undanförnum árum hefur orðið mikil fjölgun opinberra starfsmanna. Alþingi er sérstök stofnun. Spurningin er þessi: Er einhver ástæða til þess að ætla að Alþingi verði skilvirkara í sínum störfum, skili meiri árangri í sínum störfum, ef þm. er fjölgað? Leysir það nokkuð þau vandamál sem við er að fást í þjóðfélaginu að fjölga þm.? Svar mitt við því er nei. Það leysir engin vandamál, nema pólitísk vandamál þm. sjálfra eða einstakra þingflokka. Þau vandamál eiga að víkja þegar kemur að svo alvarlegu máli sem endurskoðun stjórnarskrár, sem á að snúast um að ákveða sjálfar leikreglurnar í þjóðfélaginu.

Í annan stað liggur ljóst fyrir að fjölgun þm. er óþörf ef menn reyna að réttlæta hana með því að ella hefði ekki náðst sambærileg leiðrétting á misvægi atkvæðisréttar. Ég vísa þm. á að kynna sér að í skýrslu stjórnarskrárnefndar um kjördæmamálið eru lagðir fram valkostir, í þeirri skýrslu auðkenndir A 3 og A 4, þar sem kemur fram að unnt er að ná svipaðri leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar án fjölgunar þingmanna. Fjölgun þingmanna er þess vegna hvort tveggja í senn óþörf til þess að ná því meginmarkmiði þessara breytinga að ná vissum áfanga f jöfnun atkvæðisréttar og hún verður ekki réttlætt að öðru leyti með því, að þar með sé verið að gera Alþingi skilvirkara eða ábyrgara í störfum. Við þurfum ekki á að halda fjölgun þm. og þess vegna er það, að þegar boðið er upp á stjórnarskrárbreytingu sem felur í aðalatriðum aðeins í sér tvennt, fjölgun þm. sem þjóðin er á móti og sem er óþörf, en hins vegar lækkun kosningaaldurs, þá er niðurstaðan sú, að eftirtekjan af margra ára starfi víð heildarendurskoðun stjórnarskrár sé heldur rýr.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Eftir er það versta að mínu mati og það er þetta: Með því að binda lágmarkstölu þingsæta á kjördæmi í sjálfri stjórnarskránni er þetta misvægi atkvæðisréttarins, tveir-þrír Reykvíkingar og Reyknesingar á móti einum kjósanda í dreifbýli þar sem best er boðið í kosningum til Alþingis, stjórnarskrárbundið með varanlegum hætti. Það þýðir m. ö. o. að það eru engar líkur á því að þetta misrétti fáist leiðrétt í áföngum fyrir hverjar kosningar í framtíðinni. Í fyrri ræðu minni við 1. umr. þessa máls rakti ég það allítarlega að í kosningalögum því sem næst allra nágrannaríkja okkar er að finna slík sjálfvirk leiðréttingarákvæði, þar sem það þykir svo sjálfsagt mál að atkvæðisrétturinn, grundvallarréttindi almennings í kosningum, sé hverju sinni fyrir kosningar með þeim hætti að allir þegnar viðkomandi ríkis sitji þar við sama borð. Ef þetta nær fram að ganga lokumst við aftur inni í vítahringnum frá 1959. Með áframhaldandi búsetuþróun mun misvægi atkvæðisréttar halda áfram að aukast. Samkvæmt því fskj. um kosningalög sem lagt hefur verið fram, langar mig til að árétta það enn einu sinni, er ekkert slíkt leiðréttingarákvæði að finna, vegna þess að lágmarksfjöldi þingsæta er bundinn í stjórnarskrá að öðru leyti en því að búast má við því, að ef búsetuþróun verður með líkum hætti og verið hefur leiði það innan fárra ára til þess að Reykjavík verði að láta af einu þingsæti í hendur Reykjanesi. Það er eina tilfærslan sem boðið er upp á samkv. þeim kosningalögum, sem að vísu eru ekki hér á dagskrá, þar sem það kemur til kasta næsta þings að taka afstöðu til þeirra. M. ö. o. er boðið upp á að við sitjum enn í sama farinu og 1959, þjóðin verði áfram klofin í andstæðar fylkingar í jafnviðkvæmu deilumáli sem þessu, sem varðar grundvallarreglur lýðræðis. Við byrjum aftur að safna glóðum elds að höfði okkar uns þetta óréttláta kerfi að lokum springur á ný.

Því er erfitt að trúa að þm. Reykjavíkur og Reykjaness hafi engar aths. að gera við þessa skipan mála. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þm. t. d. Sjálfstfl. hér í Reykjavík og Reykjanesi hafi enga aths. að gera fyrir hönd umbjóðenda sinna, þegar það liggur fyrir að í þessu stjórnarskrárfrv. er ekki boðið upp á meiri leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar en raunverulega hafði náðst 1959 og síðan er meiningin að stjórnarskrárbinda þetta misrétti með varanlegum hætti áratugum saman. Reynslan kennir okkur að það er ekki rokið til að breyta stjórnarskrárákvæðum eins og venjulegum lögum og á ekki að gera það. Það hafa liðið áratugir milli slíkrar endurskoðunar þannig að við sitjum enn í sömu sporum. Misvægi atkvæðisréttar mun halda áfram að vaxa, og ég trúi því ekki að meiri hluti þingmanna, sem leitar hér eftir sáttum um málamiðlun, sé svo forhertur í afstöðu sinni til þessa að hann fáist ekki til þess að hlusta á þau sanngirnisrök a. m. k. að þetta misrétti verði ekki stjórnarskrárbundið með varanlegum hætti.

Herra forseti. Afstaða mín í þessu máli er skýr og afdráttarlaus. Ásamt með dr. Gylfa Þ. Gíslasyni hef ég verið fulltrúi míns þingflokks í stjórnarskrárnefnd á undanförnum árum. Sú nefnd hefur skilað heildartillögum um endurskoðun stjórnarskrár. Spurningin er: Ef Alþingi telur sig hafa tíma og ráðrúm til stjórnarskrárbreytingar, eins og nú horfir í íslensku þjóðfélagi, þá finnst mér að Alþingi ætti að sýna af sér þá reisn að afgreiða stjórnarskrármálið í heild. Ég vil taka fram að það hefur verið afstaða míns þingflokks að leita eftir samkomulagi við aðra flokka um að taka með við þessa stjórnarskrárendurskoðun sem allra flesta þætti sem samkomulag hefur getað náðst um að því er varðar stjórnarskrána í heild sinni. En þingflokkar sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu og Alþb. hafa ekki verið fáanlegir til að taka þátt í slíku samkomulagi.

Ég vil rifja það upp rétt einu sinni að í stjórnarskrárnefnd vorum það við Gylfi Þ. Gíslason sem lögðum til að einn af valkostum nefndarinnar yrði að landið yrði gert að einu kjördæmi, sem um áratuga skeið hefur verið stefna Alþfl. í þessu máli. Þeir kjósendur, sem nú hafa sannfærst um að þetta er eina rétta leiðin til þess að tryggja öllum þegnum ríkisins jöfn lýðræðisleg réttindi, geta illa fylgt þeirri sannfæringu sinni eftir með því að kjósa stjórnmálaflokka sem eru andvígir þessu. Hitt er hægt að gera að sætta sig við að taka þetta skref í áföngum.

Ég vil taka það skýrt fram, herra forseti, að afstaða mín í þessum málum er fyrir löngu fullmótuð og margyfirlýst, þannig að ég verð með engu móti sakaður um að hafa á seinustu stundu snúist gegn samkomulagi sem meiri hluti í mínum þingflokki styður. Ég hef marglýst þessum skoðunum mínum. Ég hef gert það á fundum stjórnarskrárnefndar, ég hef gert það á fundum í mínum þingflokki og í ótal blaðagreinum og ræðum á almannavettvangi á undanförnum árum. Afstaða mín er þessi:

1. Ég er andvígur fjölgun þm. Það hefur verið sýnt fram á að hún er óþörf. Það er hægt að ná svipaðri leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar og felst í framlögðum málamiðlunartillögum án fjölgunar þm.

2. Ég vona í lengstu lög að allir sanngjarnir menn hljóti að viðurkenna, að markmiðið í kosningarréttarmálum hljóti að vera að allir Íslendingar hafi sama atkvæðisrétt. Fáist sú leiðrétting ekki fram nú tel ég það sanngjarna lágmarkskröfu að þetta misrétti verði leiðrétt í áföngum fyrir hverjar kosningar í framtíðinni, svo sem dæmi eru til um með flestum öðrum grannþjóðum okkar.

3. Þess vegna má undir engum kringumstæðum binda málamiðlun um misrétti í sjálfa stjórnarskrána. Það er fráleitt. Stjórnarskrá er ekki venjuleg lög sem hægt er að breyta á hverju þingi. Stjórnarskrárbreytingar á því aðeins að gera að þær eigi að vera varanlegar, þ. e. þær eigi að gilda áratugum saman. Það á ekki að hringla með stjórnarskrárákvæði. Stjórnarskráin er til þess að tryggja öllum þegnum eins ríkis eitthvað sem getur talist sameiginleg almenn mannréttindi. Að ætla að stjórnarskrárbinda alvarlega mismunun þegnanna, eins og t. d. það að sumir þegnar ríkisins skuli hafa fjórða part úr atkv., aðrir'/s og enn aðrir helming eftir einhverjum ákaflega hæpnum verðleikaflokkum, er í raun og veru hið sama og að stjórnarskrárbinda mannréttindabrot. Það er gersamlega fráleitt og það er gersamlega óviðunandi að mínu mati.

Ef fyrirhuguð stjórnarskrárbreyting á ekki að fela í sér annað en fjölgun þm., sem því sem næst allir eru á móti, nema kannske meiri hl. þm., og niðurfærslu kosningaaldurs, en heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem hefur verið unnið að árum saman, er slegið á frest, sennilega til margra ára, þá vaknar ný spurning: Er þetta nægilegt tilefni til stjórnarskrárbreytingar, sem á að kalla á tvennar kosningar eins og nú háttar í íslensku þjóðfélagi?

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur brtt. við stjórnarskrárfrv., en þessar brtt. snúast í aðalatriðum um tvennt: Í fyrsta lagi verði þingmannatalan óbreytt. Í öðru lagi verði misvægi atkvæðisréttar, eins og það er samkv. þessu samkomulagi að því er Reykjavík varðar, t. d. Reykvíkingur á móti 2.6 í fámennasta kjördæminu, undir engum kringumstæðum stjórnarskrárbundið og varanlegt. Þetta þýðir að ákvæði um lágmarkstölu þingsæta í hverju kjördæmi verði ekki í stjórnarskrá, heldur í kosningalögum, eins og öll önnur ákvæði um tilhögun og framkvæmd kosninga og kosningaaðferðir.

Ég vil reyndar taka það fram að gefnu tilefni að það mun hafa verið upphafleg tilætlan flm. að ákvæðin um þetta yrðu ekki í stjórnarskrá, heldur í kosningalögum. Það hefur hins vegar gerst í samningum á milli flokkanna að þessu var breytt á seinustu stigum málsins. Það er enn ein röksemd fyrir því að menn ættu að skoða þetta mál vandlega og athuga hvort ekki sé hægt að stíga þetta skref í átt til samkomulags við þá sem verið er að biðja um að una því að þeir búi enn við skertan kosningarrétt, að það verði ekki bundið í stjórnarskrá.

Þegar þingmeirihluti, sem er fulltrúi minni hl. þjóðarinnar, ætlar að beita valdi sínu til að skammta meiri hl. þjóðarinnar skertan atkvæðisrétt, þá er það ósköp einfaldlega lágmarkskrafa af hálfu meiri hl. að þessi skertu mannréttindi verði ekki bundin í stjórnarskrááratugum saman. Það eru engin rök sem mæla með slíku gerræði. Ég vildi mega óska þess að allir þm. Reykjavíkur og Reykjaness gætu sameiginlega tekið þá afstöðu að forða því að niðurstaðan verði að stjórnarskrárbinda misréttíð.

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hv. 1. þm. Vestf. og frsm. hv. stjórnarskrárnefndar, sem hann lét falla hér áðan, þar sem hann eina ferðina enn taldi að ólík félagsleg aðstaða Íslendinga eftir búsetu ætti að réttlæta það og gera það að sanngjarnri réttlætiskröfu að samningar geti tekist um að bæta upp þessa ólíku félagslegu aðstöðu með því að vega atkvæðisrétt manna ólíkt eftir búsetu, þá verð ég enn einu sinni að andmæla þessum sjónarmiðum og leyfa mér að taka nokkurn tíma til að sýna fram á að þetta eru falsrök og standast ekki.

Í umr. um þetta mál er oft alið á því að á Íslandi byggi tvær þjóðir. Það á annars vegar að vera þéttbýlisþjóðin hér á suðvesturhorninu — borgríkið eins og einn hv. þm., sem ég hef nú reyndar hér fyrir augunum, hefur m. a. orðað það. Hins vegar eru þeir Íslendingar sem byggja hin sex kjördæmi landsins. Þéttbýlisþjóðin er sögð njóta margvíslegra forréttinda vegna búsetu sinnar, einkum vegna nálægðar við kjötkatla stjórnsýslu. Dreifbýlisþjóðin er sögð búa við skarðan hlut. Þar er ýmislegt til nefnt, t. d. fjarlægðir frá helstu þjónustustofnunum ríkisvaldsins, sem flestar sé að finna í höfuðborginni. Þessi tvískipting þjóðarinnar í borgríki og þéttbýli er síðan notuð til að réttlætta að það þurfi þrjá-fjóra þéttbýlisbúa til þess að jafnast á við einn dreifbýlismann þegar komið er inn í kjörklefann, þegar greiða skal atkv. um menn og málefni og um stjórnmálastefnur og völd í almennum kosningum. Atkvæðisrétturinn á m. ö. o. að vera veginn á einhvern pólitískan kvarða eftir mati manna á félagslegri aðstöðu kjósenda, alveg eins og atkvæðisrétturinn var áður fyrr bundinn við eign, efnahag eða kynferði eða, eins og hann er reyndar enn í dag, bundinn við litarhátt í sumum ríkjum heims, og þykir víst lítt til fyrirmyndar.

Þetta vekur upp a. m. k. tvær spurningar, herra forseti: Trúa menn því að félagsleg aðstaða einstaklinga í þessu þjóðfélagi fari bara eftir búsetu? Halda menn að einstæð móðir uppi í Breiðholti hafi ekki eitthvað greiðari aðgang að sínum þm. eða meiri áhrif eða vettvang til áhrifa á Alþingi en t. d. atvinnurekandi á Þórshöfn eða Kópaskeri? Væntanlega hvarflar ekki að neinum að halda því fram, minnugir Þórshafnarævintýris. (Gripið fram í: En einstæð móðir úti á landi Jón?)

Ef það er staðreynd að félagsleg aðstaða manna fari eftir einhverju öðru en búsetu — enginn neitar því að hún er ólík — eru auðvitað engin rök fyrir því að vega atkvæðisréttinn ólíkt eingöngu eftir búsetu. Ef menn eru sammála um að ólík félagsleg aðstaða manna í þjóðfélaginu sé ekki búsetubundin, heldur tengd ótal öðrum þáttum, eins og t. d. erfðum, eignum, tekjum, skólagöngu, ólíkum hæfileikum, ólíku starfsöryggi o. s. frv., þá er spurningin: Vilja þeir, sem halda því fram að félagsleg aðstaða manna sé af öllum þessum sökum mjög ólík, virkilega halda því fram að þá eigi að verðleikaflokka, alla einstaka kjósendur og skammta þeim atkvæðisrétt eftir einhverju gæðamati sem byggist á slíkri flokkun? Eiga hér sem hafa háar tekjur að hafa meiri eða minni atkvæðisrétt? Eiga þeir sem eiga meiri eða minni eignir að hafa atkvæðisrétt í hlutfalli við það?

Eiga þeir sem hafa notið langrar skólagöngu að hafa meiri eða minni atkvæðisrétt en aðrir þegnar af þeim sökum? Eiga þeir sem búa við meira starfsöryggi en aðrir menn að gjalda fyrir það með meiri eða minni atkvæðisrétti? Allir menn eru sammála um að konur eiga allt of fáa fulltrúa á Alþingi. Á að bæta þeim það upp með því að láta konur hafa meiri atkvæðisrétt? Eiga konur sem einstaklingar að fá fimmfaldan atkvæðisrétt á Alþingi af þeim sökum? Sjómenn eru mánuðum saman víðs fjarri heimili sínu og náttúrlega sviptir þeirri félagslegu aðstöðu að hafa einhvern aðgang að þessum makalausu stjórnsýslustofnunum hér í Reykjavík. Á að bæta þeim upp þennan missi á félagslegri aðstöðu með því að skammta þeim þrefaldan, fjórfaldan eða fimmfaldan atkvæðisrétt?

Og þá vaknar að lokum upp ein spurning: Hverjir eiga að framkvæma þetta gæðamat, þessa verðleikaflokkun þegnanna? Hverjir eiga að draga þá í dilka? Hverjir eiga að vega þá og meta? Hverjir eiga að skammta þeim atkvæðisréttinn? Eiga það t. d. að vera þm. sem öllum öðrum mönnum fremur eiga þingsetu sína undir því hvernig vægi atkvæðisréttar er háttað, undir mismun þegnanna að því er varðar frumstæðasta grunnlýðræði lýðræðislegs þjóðfélags, eða á þetta kannske að vera faglegt og vísindalegt? Ættum við kannske að biðja svokallaða félagsvísindadeild Háskóla Íslands að annast þessa verðleikaflokkun, þennan dilkadrátt og þetta verðleikamat einstaklinganna í þjóðfélaginu? Ættum við t. d. að fela það prófessor dr. Ólafi Ragnari Grímssyni, núverandi formanni Alþb., eða félögum hans í félagsvísindadeild? Á þetta ekki að vera vísindalegt mat?

Herra forseti. Það þarf ekki nema að spyrja slíkra spurninga til að komast að raun um að það er fráleit skoðun að það eigi að skammta kjósendum atkvæðisrétt eftir einhvers konar félagsfræðilegu mati á félagslegri aðstöðu, sem er óendanlega misjöfn, hefur verið það og mun óhjákvæmilega verða það og fer alls ekki fyrst og fremst eftir búsetu, heldur eftir allt öðrum þáttum, eins og ég hef þegar nefnt. Gæðaflokkun af þessu tagi er fornaldarviðhorf. Hún minnir á þau sjónarmið þegar það var ríkjandi viðhorf fámennrar forréttindastéttar í landinu að kosningarrétturinn ætti því aðeins að vera leyfilegur að menn gætu sýnt fram á það í skjölum og skilríkjum að þeir væru gildir bændur, ættu jarðarparta eða nógu margar spesíur í handraðanum, eða frá þeim tímum þegar karlrembusjónarmið voru svo ríkjandi í þjóðfélaginu að þótti með öllu sjálfsagt að svipta helming þjóðarinnar, alla kvenþjóðina, atkvæðisrétti. Þetta eru fornaldarviðhorf sem ég hélt satt að segja að enginn maður, hugsandi einstaklingur, í lýðræðisþjóðfélagi nú á seinni hluta 20. aldar mundi leyfa sér að verja með þessum hætti. Að binda slíkt misrétti, sem styðst við slík falsrök, í stjórnarskrá er að mínu mati mannréttindabrot. Ef við trúum á lýðræðislega meirihlutastjórn hljótum við að krefjast þess að allir séu jafnir sem þátt taka í leiknum, að leikreglurnar sjálfar mismuni ekki þátttakendum. Ef þeirri grundvallarskyldu er ekki fullnægt er ekki um að ræða réttlátar lýðræðislegar leikreglur.

Herra forseti. Þetta eru grundvallarsjónarmið um mannréttindi sem ekki er hægt að versla með. Atkvæðisréttur manna á ekki að vera falur. Hér er því verið að bera saman ósambærilega hluti, annars vegar ólíka aðstöðu einstaklinga í þjóðfélaginu, sem eins og ég hef þegar sýnt fram á stafar af ótal ástæðum öðrum en búsetuvali manna, stafar af ótal þáttum sem aldrei verða vegnir eða greindir með tölfræðilegri nákvæmni, og hins vegar það, hver á að vera réttur einstaklinganna til að hafa áhrif á stjórn ríkisins í almennum kosningum. Niðurstaða málsins er auðvitað sú að þrátt fyrir margvíslegan aðstöðumun þegnanna í ríkinu, þrátt fyrir ólíkan efnahag, þrátt fyrir misjafnar tekjur, þrátt fyrir ólíka menntun, þrátt fyrir ólíka hæfileika á ýmsum sviðum eiga allir þegnar ríkisins, ríkir sem fátækir, hvar sem þeir búa á landinu, hvert sem er þeirra kynferði, að búa við sama rétt þegar kemur að grundvallaratriðum, stjórnarskrártryggðum almennum grundvallaratriðum og lýðræðislegum réttindum.

Herra forseti. Þetta dæmi um ólíka félagslega aðstöðu eftir búsetu einni saman, þ. e. um muninn í þeim efnum á því að búa í dreifbýli eða þéttbýli, hefur aldrei veríð gert upp og það verður aldrei gert upp með þeirri tölfræðilegu nákvæmni sem hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera forsenda fyrir öllum kröfum um það að atkvæðisréttur manna eigi að fara eftir slíku gæðamati. Þeir sem aldir hafa verið upp í dreifbýli og búið síðar á ævinni bæði í dreifbýli og þéttbýli vita af eigin reynslu að hvort tveggja hefur auðvitað sína kosti og galla. Auðvitað er olíukynding húsa dýr sums staðar á landsbyggðinni. Auðvitað er dýrt að kosta mörg börn samtímis í framhaldsnám. Auðvitað getur verið dýrt að þurfa um langan veg að sækja heilbrigðisþjónustu. Allt er þetta nefnt með þessum rökum sem dæmi um ókosti þess að búa í dreifbýli við ríkjandi aðstæður. Þetta er auðvitað pólitískt mál — og það er ekkert við það að athuga þó menn lýsi því yfir þeirri pólitísku sannfæringu sinni, þeirri stefnu, að það eigi að stefna að því að draga úr þessum mismun. Það kemur hins vegar atkvæðisrétti manna ekki nokkurn skapaðan hlut við.

En það má líka benda á annað. Það hefur sína kosti að búa í dreifbýli. Það hefur mikla kosti þar sem eru stuttar vegalengdir sem menn þurfa að aka til vinnu. Það er ekki lítill sparnaður, sem í því felst, ef menn bera saman annars vegar að búa í útköntum höfuðborgarsvæðisins og sækja vinnu hingað inn til bæjarins eða það að geta gengið daglega til vinnu sinnar. Það eru líka aðrir kostir. Víða um land er hægt að færa að því rök að fasteignamat og fasteignaverð er mun lægra en í Reykjavík. Það er líka staðreynd að meðaltekjur launþega eru til mikilla muna hærri á mörgum stöðum úti á landi en í Reykjavík. Reykjavík er láglaunasvæði. Ef menn ætla raunverulega að tala um mun á félagslegri aðstöðu, þ. e. um raunverulega fátækt í þessu þjóðfélagi, þar sem við erum að tala um þær fjölskyldur sem eiga að framfleyta sér af óyfirborguðum taxtatekjum einnar fyrirvinnu, t. d. einstæðra foreldra, hvar er slíka einstaklinga og slíkar fjölskyldur helst að finna? Þær eru langsamlega flestar hér í Reykjavík. Reykjavík er láglaunasvæði. Hér er að finna, og í öðru lagi á Akureyri, langsamlega flesta þá einstaklinga og þær fjölskyldur sem vegna launamisréttis, óðaverðbólgu, stjórnleysis og ranglætis í þessu þjóðfélagi þurfa að bera skarðan hlut frá borði. Síðan er þessu fólki núið því um nasir vegna nálægðar sinnar við þessa stofnun eða við embættismannakerfið að það eigi að sætta sig við að hafa ekki atkvæðisrétt nema þriðji eða fjórði hver maður. Þetta eru alger falsrök. Það sem verra er: Þau eru siðlaus. Þau hljóta að ofbjóða réttlætiskennd allra heiðarlegra manna, gersamlega án tillits til þess hvar menn eru búsettir.

Ég segi: Þetta dæmi um kosti og galla þess að búa í dreifbýli eða þéttbýli hefur aldrei verið gert upp og það verður aldrei gert upp og það verður aldrei gert að einhverri grundvallarforsendu fyrir kröfum um að þess vegna eigi að svipta einhvern hluta þegnanna almennum mannréttindum. Það er alveg jafnfráleitt að ætla sér að meta atkvæðisrétt manna eftir búsetu og það var á sinni tíð að meina konum um atkvæðisrétt eða binda hann við gilda bændur og búfjáreign.

Herra forseti. Það er eitt lokaatriði, sem menn skyldu gera sér grein fyrir úr því að þeir eru að vekja upp þennan draug enn á ný, og það er þetta: Hin félagslega mismunun, sem menn taka sér í munn til þess að réttlæta mismunandi atkvæðisrétt, er auðvitað mest innan dreifbýlisins sjálfs. Hún er innan hvers einasta kjördæmis. Ég spyr: Bóndi á Barðaströnd þarf að senda börn sín í burtu í framhaldsnám eða sækja heilbrigðisþjónustu um langan veg, t. d. í Búðardal. Hverju er hann nær þótt búið væri að ljúka víð byggingu á tiltölulega fullkomnu deildaskiptu sjúkrahúsi á Ísafirði? Hann er engu nær. Þéttbýlisbúi innan Vestfjarðakjördæmis, eins og t. d. á Ísafirði, sem hefur við hendina alla þessa þjónustu, þ. e. skólakerfi allt fram undir háskólanám eða sjúkrahús og heilsugæslustöð við bæjardyrnar, býr að sjálfsögðu við miklu meiri nálægð við þessa þjónustu en t. d. þeir sem lengst eru frá henni á höfuðborgarsvæðinu.

Nú spyr ég þá sem halda því fram að það sé einhver rökvísi að miða atkvæðisrétt manna við búsetu: Á þá bóndinn á Barðaströndinni að hafa fimmfaldan atkvæðisrétt á við þéttbýlisbúann á Ísafirði? — Ég endurtek: Þykir mönnum sanngjarnt og eðlilegt að bæta bónda, sem býr afskekkt og er fjarri þessari félagslegu aðstöðu í helsta byggðakjarna síns kjördæmis, það upp með því að margfalda atkvæðisrétt hans? Ef menn svara því neitandi fellur um sjálfa sig öll þessi spilaborg og allar þessar falskenningar, öll þessi þjóðremba og öll þessi sýndarrök, um að það sé hægt að færa einhver rök til þess að réttlæta að mismuna mönnum að því er varðar atkvæðisrétt eftir því hvar þeir hafa valið sér búsetu í landinu.

Herra forseti. Það hefur enginn maður í hópi hv. þm. úr dreifbýlinu lagt til að farið verði að vega og meta einstaklingana í þeirra eigin kjördæmum og skammta þeim atkvæðisrétt eftir því hvar þeir búa, í nálægð eða fjarlægð við helstu þjónustumiðstöðvar þessara landshluta og þessara kjördæma. Hv. þm. hafa ekki lagt til að bændur norður á Langanesi fái fjarlægð sína frá Akureyri eða frá Egilstöðum bætta upp með því að skammta þeim margfaldan atkvæðisrétt. Ég hef ekki ennþá heyrt þær kröfur gerðar af hálfu talsmanna sjómanna að það eigi að bæta þeim upp langvarandi fjarvistir á hafi úti frá allri þjónustu, sem þetta ríki býður þegnum sínum sameiginlega, með því að skammta þeim aukinn atkvæðisrétt. Auðvitað eru þetta allt saman falsrök og auðvitað er ósæmilegt að vera að ala á deilum með þjóðinni. Þetta er eitt land og ein þjóð og ekki á að ala á sundrungu, úlfúð og fjandskap milli landshluta, milli dreifbýlis og þéttbýlis, milli einstakra kjördæma með slíkum falsrökum.

Herra forseti. Því hefur heyrst fleygt að Íslendingar mundu una því illa t. d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að fara þar með minna en eitt atkv. á móti þúsund millj. kínverskum. Og þá spyrja menn: Hvers vegna er þá verið að gera veður út af því þótt munurinn á atkvæðisrétti hér í okkar eigin félagsskap sé fimmfaldur eða sexfaldur og verri en það? Hér er enn verið að rugla saman óskyldum hlutum. Samvinna fullvalda ríkja á alþjóðavettvangi felur í sér samning. Alþjóðasamvinna fullvalda ríkja felur í sér afsal fullveldis viðkomandi ríkis, sem tekur þátt í slíkri samvinnu af frjálsum og fúsum vilja. Þar á móti kemur að þessi samvinna er gagnkvæm og hún er upp tekin af frjálsum og fúsum vilja á jafnréttisgrundvelli og hún er takmörkuð. Íslendingar vilja ekki að Kínverjar ráðskist með sín mál og það breytir engu þó að okkur gangi böslulega að ráða fram úr þeim sjálfir. Þetta er trúlega gagnkvæmt. Hins vegar hefur það hingað til þótt lýðræðislegt sjónarmið að Kínverjar ráði sínum eigin málum og Íslendingar sínum eigin málum þrátt fyrir að þeir sætti sig við það í alþjóðasamvinnu að þjóðir mismunandi að stærð eða mannfjölda fari þar með eitt atkvæði.

En það er annað, úr því að minnst er á Sameinuðu þjóðirnar. Við eigum aðild að mannréttindayfirlýsingum bæði Evrópuráðs og Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindayfirlýsing Evrópuráðsins hefur reyndar lagagildi hér, þó að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna hafi það að vísu ekki, skuldbindur hún okkur vissulega siðferðilega. Þar segir í 21. gr.:

„Vilji þjóðar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningaréttur jafn og leynileg atkvgr. viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.“

Herra forseti. Ég skal láta þessu máli mínu senn lokið. Við erum ein þjóð, Íslendingar, að vísu fámenn þjóð í stóru landi. Það er illt verk að ala á sundurþykkju og úlfúð milli landshluta, milli höfuðborgar og landsbyggðar, milli þéttbýlis og dreifbýlis, með því að höfða til tilfinninga og bera fyrir sig falsrök af því tagi sem hér hafa verið hrakin. Allir Íslendingar, allir þegnar þessa ríkis, eiga að sitja við sama borð að því er varðar stjórnarskrárvernduð mannréttindi og pólitísk réttindi. Annars slítum við í sundur friðinn.

Um kosningarréttarmál verður aldrei friður í þessu þjóðfélagi meðan meiri hluti þjóðarinnar nær ekki rétti sínum og það á að beita hann ofríki, þó það sé gert með rökum sem enga stoð eiga í veruleikanum. Það er illt verk að standa fyrir slíkum óvinafagnaði og ég óska eftir því að menn láti af þeirri iðju.

Pólitísk barátta fyrir jöfnun lífskjara og sem jafnastri aðstöðu til þess að njóta sameiginlegrar þjónustu á auðvitað fullan rétt á sér og er vitaskuld í fullu gildi. Á þeim vettvangi er um að ræða mál sem ástæða er til að berjast fyrir. Af þeim nefni ég tvö sem eru vissulega langstærst:

1. Það á að færa vald, fjármuni og ábyrgð frá miðstjórnarstofnunum ríkisins hér á höfuðborgarsvæðinu frá Alþingi, frá stjórnarráði, frá sérfræðingaveldinu og til sveitarfélaga og til landsfjórðunganna.

2. Það er stórmál að vinna betur og skipulegar að því en gert hefur verið áður eða hingað til að tengja alla landshluta við samgöngukerfi þjóðarinnar, með vegakerfi með varanlegu slitlagi og öruggri flugþjónustu og gera þetta að forgangsverkefni. Um þetta eiga allir Íslendingar, hvort heldur búsettir eru í dreifbýli eða þéttbýli, að sameinast.

Við dr. Gylfi Þ. Gíslason gerðum það að einni af tillögum okkar, og það er einn af valkostunum sem settir eru fram í skýrslu stjórnarskrárnefndar, að kjördæmaskipunin yrði byggð á hinni gömlu fjórðungaskipan ásamt með höfuðborginni. Slík breyting væri rökrétt niðurstaða af kjördæmabreytingunni frá 1959. Um leið vakti það fyrir okkur að gera landsfjórðungana að máttarstoðum í stjórnkerfi landsins. Það gerist með því að færa verkefni, t. d. í skólamálum, í heilbrigðismalum og í verklegum framkvæmdum frá miðstjórn ríkisins og sérfræðingastofnunum þess og út til sveitarstjórnanna og fjórðunganna. Þeir eiga að vera nægilega öflugar stjórnsýslueiningar til þess að valda slíkum verkefnum. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar sveitarfélaga og fjórðunga eiga síðan að hafa vald til að ákvarða sjálfir forgangsröðun framkvæmda í sínum fjórðungi. Til þess þarf að færa verkefni og tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga og fjórðunga og færi þá saman vald þeirra til að taka slíkar pólitískar ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og framkvæmda og fjárhagslega ábyrgð á þeim.

Þetta, herra forseti, er í raun og veru svar mitt og svar míns flokks, sbr. tillögugerð hans hér á hv. Alþingi, við því hvernig eigi að berjast pólitískri baráttu fyrir jöfnun á aðstöðumun þegnanna, fyrir því að færa valdið frá miðstjórnarvaldi ríkisins til þeirra sem staðarþekkinguna hafa og nær fólkinu. Þetta er rétta leiðin en ekki sú að standa f eilífu karpi innbyrðis, gagnkvæmum brigslyrðum um hvernig eigi að verðleikaflokka þegnana og skammta þeim atkvæðisrétt eftir því hvar þeir velja sér búsetu. Þetta er rétta leiðin til að stefna eftir eðlilegum pólitískum leiðum að því að jafna félagslega aðstöðu eftir búsetu eftir því sem hægt er. Þetta á að gera strax og um leið á að leggja fyrir róða heimskulegan meting milli byggðarlaga og landshluta. Allra síst má nokkur Íslendingur láta það heyrast af sínum vörum að hann ætli samlanda sínum að vera hálfdrættingur á við sjálfan sig eða þaðan af minna þegar kemur að sjálfum leikreglum þess lýðræðisþjóðfélags, sem við viljum hafa, því að ef við slítum í sundur lögin með þeim hætti slítum við í sundur friðinn.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég leyfi mér að mælast til þess að þeim brtt. sem við höfum flutt á þskj. 494 verði vísað til stjórnarskrárnefndar beggja deilda, sem hér er starfandi.