07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2608 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Sennilega hefur hinu samantvinnaða valdi stjórnmálaflokkanna og fjölmiðlanna, því er nú verr og miður, tekist að búa svo um hnútana með rangri framsetningu upplýsinga að allmikill þorri fólks stendur enn ranglega í þeirri trú að með þessu frv. sé verið að leysa einhvern skapaðan hlut. Þetta frv., sem hv. þm. Matthías Bjarnason hefur nú mælt fyrir þegar komið hefur úr nefnd, er flutt af forustumönnum stjórnmálaflokkanna fjögurra. Það er flutt svo til óbreytt hér við 2.umr.

Ég vil skjóta því inn, herra forseti, að þegar þetta mál var kynnt hið fyrsta sinni í 1. umferð kvaddi ég mér hljóðs um þingsköp til að mælast til þess að fram færu útvarpsumr. við 2. umr. þessa máls. Þau tilmæli voru til komin af ofur eðlilegum ástæðum, nefnilega þeim að fólkið í landinu verður að fá að vita með hverjum hætti Alþingi er hugsanlega í þann veginn að breyta stjórnarskrá lýðveldisins. Þá gerðist það að hv. 1. flm. þessa máls, hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, kom hér upp og tók undir það að útvarpsumr. skyldu fara fram. Hið sama gerðu þm. a. m. k. nokkurra annarra stjórnmálaflokka. Síðan, herra forseti, höfum við ekkert frétt af málinu. En af hverju er verið að leggja þetta til? Af því að þetta mál, herra forseti, á ekki að þurfa að verða neinn feluleikur. Alþingi, eða meiri hl. þess, skammast sín væntanlega ekki fyrir hvað hér er verið að gera. En það örlar ekki á þeim útvarpsumr. sem hér var óskað eftir og menn tóku undir að ættu að fara fram. Þvert á móti heyrum við að nú standi til að keyra þetta í gegnum 2. umr. í kvöld og 3. umr. í nótt.

Athugum það að hér erum við ekki að ganga frá stjórnmálaályktun einhverra samtaka. Við erum ekki einu sinni að ganga frá lögum. Við erum að ganga frá grundvallarbreytingu á sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins. Þessi mál eru búin að vera í undirbúningi í fimm ár, segja þeir. Það er vika síðan þetta kom fram og ég held því fram og staðhæfi að það er verið að blekkja meira og minna allan landslýð um það, í hverju þessi breyting er fólgin, og það gengur eftir, ef þessi keyrsla á að fara fram með þeim hætti, sem hér er lagt til, að það eigi að troða þessu máli í gegnum Nd. Alþingis, þá deild sem hýsir 2/3 hv. alþm., nánast á einum degi.

En flokkarnir skammast sín. Og af hverju skyldu flokkarnir skammast sín? Vegna þess, herra forseti, að blekkingin er í því fólgin að þetta eru tvö aðskilin mál. Annars vegar er það frv. til stjórnlaga, þ. e. frv. um breytingu á sjálfri stjórnskipan landsins. Hún felur í sér fjölgun þm. um þrjá og nákvæmlega ekkert annað. Í einni af þeim fjórum brtt. sem forseti kynnti hér og lagðar hafa verið fram legg ég til að 1. gr. frv. verði felld niður, sem er um fjölgun um þessa þrjá, og eftir standi þá hin gamla grein, að þm. séu 60.

Blekkingastarfsemin er fólgin í því, að með brengluðu fjölmiðla- og upplýsingamiðlunarkerfi er fólk látið standa í þeirri meiningu að það standi eitthvað á bak við þau fskj. sem með þessu frv. eru, sem eru tillögur manna sem sumir hverjir eru kannske að hætta á hv. Alþingi, um hvernig þeir vildu gjarnan að næsta þing skipaði kosningalögum. Þessi framsetning málsins er náttúrlega svo ósvífin vegna þess að við erum að fara að ganga til kosninga þar sem væntanlega verður tekist á um þessa hluti m. a.

Það skiptir máli í þessari umr., herra forseti, að hv. 1. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, lýsti áðan þeirri einföldu skoðun sinni, sem hann er auðvitað í fullum rétti til, að hvað sem liði afstöðu hans til frv. verði á þessu stigi málsins ekki að taka nokkra afstöðu til einhverra fskj., sem þarna eru talin drög að frv., sem með þessu frv. eru prentuð. Það er þetta sem er kjarni málsins. En ég fullyrði að mikill þorri þjóðarinnar, vegna þess að hann hefur ekki verið upplýstur, veit þetta ekki. Hann heldur að hér sé verið að færa til — t. d. að leiðrétta vægi atkvæða, ef það er rétt orðað, og leiðrétta það, sem um eru skiptar skoðanir. En það er ekkert slíkt verið að leggja til í þessu frv. Ætlað er að næsta þing sjái um það.

Enginn veit hverjir þá skipa hina virðulegu löggjafarsamkomu þjóðarinnar og enginn bindur, hvorki hv. þm. Geir Hallgrímsson, Steingrímur Hermannsson, Magnús H. Magnússon né Svavar Gestsson, með einum eða öðrum hætti það Alþingi sem kjörið verður nú snemma vors væntanlega. Þetta er kjarni málsins en um þetta veit þjóðin ekki. Og af þeirri ástæðu hef ég sem einn af andstæðingum þessa frv., vegna þess hvernig það er sett fram og hvað stendur í því og eins vegna hins, sem ekki stendur í því, haldið fram þeirri skoðun að okkur beri skylda til þess, sem nú skipum löggjafann, að gera fólki þetta ljóst. Við höfum eitt tæki til að koma þessari upplýsingamiðlun til fólksins í landinu, og það er útvarp frá Alþingi. (PP: Og sjónvarp.) Já, já, og fleiri tækifæri raunar.

Svo standa þeir hér upp hver á fætur öðrum og taka undir þessi sjónarmið, en það er augljóst að við því á ekki að gera, heldur er hugmyndin sú, sem nánast er pólitískt óhæfuverk, að ætla að riðla þessu máli hér í gegn í kvöld og í nótt. Ég trúi því raunar ekki fyrr en á er tekið, að þetta verði niðurstaða málsins, því að þetta nálgast það að vera pólitískt óhæfuverk.

Því nota ég svona orð að þjóðin stendur í þeirri meiningu að hér sé verið að gera annað og leiðrétta meira en felst í að fjölga þm. um þrjá. En svo er ekki. Það er allt annað eftir. Þá á ég við hugmyndir fjórmenninganna, sem væru auðvitað í frv. ef þeir hefðu komið sér saman um það. En af því að þeir koma sér ekki saman um það er þjóðin blekkt með því að prenta eitthvert pappírsgagn sem fskj. með þessu frv. þar sem stendur að svona gætu þeir hugsað sér að þetta yrði einhvern tíma í framtíðinni. Kvótakerfið er auðvitað til að reyna að bjarga andlitinu, sýna samstöðu um eitthvað. Og það getur vel verið að það takist að því leytinu til að það sé búið að samþykkja frv. hér áður en allur almenningur áttar sig.

Þetta er ómerkilegt og lítilsvirðing. Það er gamla aðferðin. En það er ekki kjarni málsins. Það sem við biðjum um, andstæðingar þessa frv., og það voru fleiri en ég sem kynntu slíkar skoðanir við 1. umr. málsins, er að við fáum að kynna þetta mál fyrir þjóðinni og útskýra af hverju við erum andsnúnir því. Það eru auðvitað eitthvað misjafnar forsendur fyrir því, eins og menn þekkja, en við eigum líka okkar rétt. En forustulið hins riðlandi flokkakerfis ætlar ekki að gera það. Það sem það ætlar að gera er að bola þessu máli í gegn án þess að þjóðin fái þar nokkra vitneskju.

Að þessum formála sögðum, herra forseti, vegna þess að í umr. um þingsköp var því beint til aðalforseta Nd., Sverris Hermannssonar, hvort um þetta mál yrðu ekki útvarpsumr., undirstrika ég að 1. flm. málsins, hv. þm. Geir Hallgrímsson, tók undir kröfuna um að um þetta mál skyldu verða útvarpsumr. Það gerði og hv. þm. Albert Guðmundsson. Það gerði og hv. þm. Karvel Pálmason, svo að ég nefni fjóra, þá ég man í svipinn. Það hlýtur að vera krafa nokkurs virði þegar formaður stærsta stjórnmálaflokksins, skulum við segja, allavega hv. 1. þm. Reykv., 1. flm. þessa máls, lýsir yfir vilja til útvarpsumr. um þetta mál. Ég vildi gera hlé á ræðu minni til þess, herra forseti, að fá svar við þeirri spurningu: Hefur þessi ósk okkar hv. þm. Geirs Hallgrímssonar fengið undirtektir hjá forsetum þessarar virðulegu deildar? (Forseti: Því miður get ég ekki svarað því á þessari stundu, en ég skal koma þessu áleiðis.) En mér þætti vænt um að fá svar við þessu svo fljótt sem verða má. (Forseti: Það er sjálfsagt að verða við því.)

Það sem hér er að gerast er það að ekki hefur náðst lausn um svokölluð stjórnarskrár- og kjördæmamál. Þetta veit auðvitað öll þjóðin. Þetta sama flokkakerfi og hefur verið að riðlast, sbr. myndun núv. hæstv. ríkisstj., sbr. svo ótal mörg dæmi út um samfélagið allt, hefur ekki heldur náð nokkurri samstöðu um stjórnarskrár- og kjördæmamál. Þar hafa myndast margs konar fylkingar og hv. þm. hafa riðlast og vegir þar liggja til allra átta. Kjarni málsins er sá, að það er engin niðurstaða. Það sem þetta vald þá gerir er að það leggur til frv. sem aðeins fjallar um tvennt: Um að þm. sé fjölgað úr 60 í 63 og kosningarréttur sé færður niður í 18 ár. Það fyrra er algerlega ófært. Það seinna auðvitað sjálfsagt. Síðan búa þeir til regnhlíf utan um sjálfa sig og kynna þetta sem lausn. Lausnin, segja þeir, er að vísu ekki fólgin í fjölguninni eða frv. sjálfu, heldur einhverjum almennum hugmyndum, sem þeir segjast hafa, og þetta er ekki ósmekklegt að næsta þing hugsanlega samþykki. Þetta er málið.

Það er engin furða þó að hv. 1. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, lýsi því hér einfaldlega yfir að hann geti svo sem fellt sig við fjölgun um þrjá, en það er ekki málið. Hann er auðvitað algerlega óbundinn af hinu. En ég fullyrði að þjóðin veit ekki enn um þetta. Þeim hefur tekist að koma áleiðis þeirri röngu hugmynd að rugla saman stjórnarskrá og einhverjum fskj. og gera úr því eina og sömu hugmyndina, því að raddir okkar, sem á þessi einföldu sannindi hafa verið að benda, hafa ekki enn náð að hljóma svo sem þeim ber.

Stærstu dagblöðin rangkynna þetta, ríkisfjölmiðlarnir miskynna þetta, og enda er auðvitað samhengi á milli flokkavalds og fjölmiðlavalds. Það vita menn. Nú gætu menn verið að sigla inn í það, að þjóðin fengi ekki hinar réttu upplýsingar fyrr en eftir að þessi ákvörðun hefur verið tekin. Flokkakerfið verður auðvitað að taka því og það mun uppskera það sem það á skilið, fari svo. En skynsamlegra væri að kynna málið fyrst og samþykkja það svo eða synja því, þegar það hefur verið kynnt. Þannig ætti auðvitað lýðræðislegt stjórnarfar að vinna. En því miður, herra forseti, það er ekki það sem þeir stefna að. Þeir stefna að því einu að fjölga þm. um þrjá. Svo ætla þeir að þvæla sér úr í kosningar á mettíma, raunverulega svo snemma að enginn skilur nákvæmlega hvers vegna. En látum það vera. Og þeir vonast til þess að koma sér yfir kosningarnar að þessu sinni með því að geta veifað þessari gervilausn framan í fólkið í landinu og treysta svo á guð og lukkuna með framhaldið og ætla að hafa það í hendi sér hvort þeir hafa einar kosningar eða tvennar. Það fer væntanlega eftir úrslitum kosninganna hvernig það er metið. Það er vonandi að þetta fjórflokkakerfi, sem á auðvitað miklu fleira sameiginlegt en hitt, sem skilur það að, verði að loknum kosningum ekki í þeirri stöðu að geta haldið þessum ómerkilegu leikjum sínum áfram.

Þetta frv. er ekki neitt. Það leysir engan vanda og það er blekking að halda því fram að það sem hér hefur veríð gert séu lausnir á stjórnarskrár- og kjördæmamálum. Sé verið að þyrla upp átökum milli dreifbýlis og þéttbýlis, eins og t. d. kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, eru öll þau átök eftir. Þau fara fram í þingsölum að afloknum kosningum, sem væntanlega verður skipað nýjum þm., sem ekki eru bundnir við þessi stjórnarskrárdrög. Og blekkingin er m. a. fólgin í því. Það et verið að búa til tveggja mánaða frið sem á að vera fram yfir kosningar, frið með blekkingum sem á að vera fram yfir kosningar, en styrjöldinni sjálfri er frestað þangað til að kosningum loknum.

Það er þetta sem ég segi að sé óhæfuverk gagnvart þjóðinni. En hún segir sennilega ekki mikið vegna þess að hún veit ekki hvað hér er um að ræða. Hún veit ekki að átökunum milli dreifbýlis og þéttbýlis er aðeins verið að fresta um nokkra mánuði. Auðvitað mun umr. um stjórnarskrármálið halda áfram að afloknum kosningum í nákvæmlega sama farvegi og þeim sem þau hafa verið í, af sjálfu sér leiðir, og mun halda áfram næstu fjögur árin, næstu átta árin. Tillögurnar eru ekki merkilegri en svo, að þær bjóða upp á það. Og hvað eru menn þá að tala um lausn? Þetta er engin lausn. Þetta er ekki hugsað sem lausn og hefur aldrei verið það. Þetta er hugsað sem björgunartæki fyrir sökkvandi skip fram yfir kosningar. Það er allt og sumt. En mér segir svo hugur um að okkur í þessu húsi sem vitum allt og sjáum í gegnum þessa næfurþunnu blekkingu muni takast að koma hinum réttu skilaboðum áleiðis um það hvað þetta frv. er, en hinu miklu frekar, hvað það er ekki. Miklu skynsamlegra væri að menn legðu þetta frv. til hliðar og reyndu að leita lausna sem máli skipta. En þessar lausnir, herra forseti, skipta nákvæmlega engu máli.

Ég hef, herra forseti, flutt brtt. við þetta frv. á fjórum þsk., svo sem hér var kynnt.

Á þskj. 498 er flutt afar einföld breyting. Hún er sú, að 1. gr. frv. falli niður. M. ö. o., að fjölgunin um þrjá komi ekki til framkvæmda, að eftir sem áður verði þm. 60, þeim verði skipt eins og nú er gert og þjóðin verði ekki blekkt með því að hér sé verið að leggja til einhverja lausn á þessu máli, því að þetta er ekki lausn.

Í annan stað, herra forseti, er á þskj. 498 lagt til að á eftir 31. gr. stjórnarskrárinnar, þ. e. þeirri grein sem hér um ræðir, komi ný grein, 31 A, sem sé svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við kosningar til Alþingis skal kjósandi eiga þess kost að merkja við listabókstaf eða einstakling eða einstaklinga á listum allt upp í tölu kjörinna alþm. í viðkomandi kjördæmum.

Nánari ákvæði um þessa kosningatilhögun skulu sett í kosningalögum.“

Þetta er, herra forseti, sama hugsun og flutt hefur verið í frv. til kosningalaga annars staðar og er hluti af stefnumörkun Bandalags jafnaðarmanna svo sem hv. þm. er kunnugt um. Hér er einfaldlega verið að leggja til þá kosningaaðferð að vitaskuld raði samtök manna og kvenna, hver sem þau eru um þau málefni, hvort sem þau eru mynduð í eintölu eða fleirtölu upp listum, en kjósandinn hafi rétt til að kjósa listann, hvort sem hann kýs að kjósa einn einstakling af einhverjum lista eða ekki, og hljóti þá listinn jafnframt atkvæðið, en f þriðja lagi, sem skiptir ekki minnstu máli, að ef kjósandinn kýs að skipta atkv. sínu milli einstaklinga af mörgum listum sé honum það einnig heimilt og þá hljóti listarnir atkvæði í því hlutfalli sem kjósandinn hefur ákveðið að nota.

Nú vil ég taka fram að í grg. með þessu frv. til stjórnskipunarlaga er ágætur rökstuðningur með þessari brtt. okkar. Ég trúi ekki öðru en hún verði samþykkt. Þar segja flm. á bls. 3:

„Þingflokkar Alþfl., Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi“ — og ég les tölul. 2: „Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár“. Svo tala þeir um sveitarfélög o. s. frv. og að sveitarfélög fái meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhríf landsmanna allra í eigin málum aukin.

Ég fæ ekki betur séð en þessir yfirlýstu valddreifingarsinnar hljóti að vera þeirrar skoðunar að það sé réttlætanlegt að dreifa valdinu með þeim hætti, að ef kjósandinn kýs að láta einstakling hafa atkv. sitt sé honum það heimilt. Og ef hann kýs að skipta atkv. sínu upp á milli fleiri lista, sem þá hljóti það í þeim hlutföllum sem hann sjálfur hefur ákveðið, sé kjósandanum það einnig heimilt.

En af hverju er þessi till. ekki aðeins skynsamleg í það almenna tekið, heldur einnig við sérstakar íslenskar aðstæður? Það er vegna þess að flokkakerfið í landinu er auðvitað ekki lengur neinn mælikvarði á skoðanir manna. Þvert á móti myndar flokkakerfið fyrirstöðu andspænis skoðunum manna. Það þvingar skoðunum upp á fólk, sem eru allt aðrar en þær sem raunverulega kunna að vera til staðar. Flokkakerfið er farið að mynda fyrirstöðu við hugmyndir manna og hugsanir þeirra, en er ekki tæki fyrir fólk til að koma skoðunum sínum áleiðis. Og flokkakerfið er farið að mynda — og þá á ég við þá alla fjóra — þvinganir fyrir fólkið í þessu landi.

Tökum dæmi um að þeirri aðferð sé beitt, sem við leggjum til, og dæmið skulum við taka úr Íslandi nútímans. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar í Reykjavík og á Akureyri komu konur saman sem eru þeirrar skoðunar að áhrif kvenna séu ekki nægjanleg. Það er auðvitað skoðun eins og hver önnur og sennilega hvorki betri né verri. Það er pólitísk skoðun sem þeir einstaklingar, sem hana aðhyllast, hafa. En ef konur eða karlar vilja greiða atkv. konum af listunum þvert af hverju mega þau það ekki, eða minnihlutahópar sem telja sig beitta misrétti og finnst það vera hið mikilvæga mál? Það er þeirra réttur og það er mikilvægt mál gagnvart þeim ef þeim finnst það. Af hverju mega þeir ekki greiða atkv. þvert á listana, t. d. fólk, sem er andvígt fóstureyðingum, eða hinir, sem eru hlynntir þeim, svo ég nefni skoðanir úr heilbrigðisgeiranum, sem aftur hafa tilfinningalega skírskotun fyrir þá einstaklinga sem slík mál setja á oddinn?

Það sjá náttúrlega allir að menn taka ekki neina afstöðu í lífsskoðunum þegar þeir á Austfjörðum fá aðeins að velja á milli hv. þm. Helga Seljan og Egils Jónssonar. Menn eru ekki að taka afstöðu til nokkurs skapaðs hlutar. Flokkakerfið er farið að mynda andstöðu við alla eðlilega skoðanamyndun í landinu. Við erum að leggja til að réttur fólksins sé að þessu leytinu til aukinn. Ef í framboði til kosninga eru fimm fylkingar sem bjóða upp á fimm mismunandi sjónarmið kýs fólk fylkingarnar. Af sjálfu leiðir. En ef boðið er upp á svo og svo margar fylkingar, en þær eru allar eins, nýtir fólk sér væntanlega persónuréttinn og það verður að koma í ljós hvernig það verður. Ég er sannfærður um að við núríkjandi aðstæður mun mikill fjöldi fólks nýta sér persónuréttinn. Ég er sannfærður um að við núríkjandi aðstæður mun mikill fjöldi fólks nýta sér persónuréttinn af því að fylkingarnar eru ekki mismunandi. Það er enginn munur á þeim. Fylkingarnar læra þá væntanlega að hegða sér eftir aðstæðum og bjóða upp á mun eða láta það eiga sig að bjóða fram.

Það er kjarni málsins að gera verður stjórnkerfið þannig úr garði að það svari eiginlegum og eðlilegum skoðunum sem fyrirfinnast í samfélaginu. Við horfum á hvert kjördæmið á fætur öðru, ef við lítum á framboðslista. Við sjáum þar í 1. sæti og 2. sæti einstaklinga sem eru svarnari pólitískir andstæðingar en nokkrir aðrir á sama svæði. Og upp á hvað er þá verið að bjóða? Og við sjáum að það er alveg sama hvaða leiðir við höfum að þessum vanda. Við sjáum að hann er alltaf sá sami, nefnilega sá að núríkjandi flokkakerfi sem myndaðist hér á árum fyrri heimsstyrjaldar og fram yfir heimskreppu og var þá boðberi nýrra tíma, nýrra sjónarmiða og skiptra skoðana, er það ekki lengur. Þá eigum við að breyta stjórnkerfinu til þeirrar áttar sem fólki finnst vera hin eðlilega og rétta átt. Og þess vegna, herra forseti, er lagt til að í stjórnarskránni sé ekki aðeins ákvæði um tölu þm., sem víð leggjum til að séu 60, kosnir með óbreyttu fyrirkomulagi, heldur hitt líka að réttur fólks sé aukinn með þeim hætti að það geti kosið fylkingar, að það geti kosið einstaklinga úr fylkingum og upp í svo marga sem í kjöri eru til þings eða þingsæti eru til handa í hverju kjördæmi, þ. e. fimm í þeim fámennustu og upp í tólf í Reykjavík.

Atkv. er þá auðvitað ekki nema eitt og skiptist þá hlutfallslega. Við höfum lagt til og reiknað með þremur aukastöfum á þá lista sem menn kjósa að greiða einstaklingum af atkv. Þetta er í raun og veru sáraeinföld aðferð, en vitaskuld mun flokkakerfið mjög væntanlega, eða a. m. k. forystusveitirnar í þeim, leggjast gegn þessari breytingu, því að það vill halda þeirri lífsskoðun að fólki að flokkarnir séu að kynna einhvern raunverulegan mun á skoðunum og að maður sem kjósi íhaldið geti ekki undir neinum kringumstæðum komið nálægt Alþb. Guð og menn vita að þetta er alrangt. Það var svona í kreppunni, en er alrangt í dag. Fjöldinn allur af fólki, er ég viss um, vildi bæði greiða atkv. hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. og skipta atkv. sínu þar á milli. Því má það það ekki? Þeir eiga líka sinn rétt sem svona hugsa eða hvernig sem er eða eftir öðruvísi hvaða öðru munstri sem einstaklingurinn kýs að hugsa.

Þetta er auðvitað tillaga sem er stefnt gegn flokksræðinu. Mér sem tillögumanni og okkur, sem að þessu höfum verið að vinna, er það auðvitað mætavel ljóst. Þetta er till. til að taka þann hluta prófkjörsins sem hefur heppnast í raun og færa hann inn í kosningakerfið, en losa sig um leið við augljósa annmarka, sem á því hafa komið fram. Ég er viss um að hver einasti hv. þm. fellst á þessa skilgreiningu og einnig það að kjósandinn hafi valkost, geti valið á milli lista, ef hann svo kýs, eða einstaklings eða einstaklinga af einum eða fleiri listum, allt eftir því hvað kjósandinn vill.

Þetta mun hafa margfaldar afleiðingar. Ein er sú, að ef fylking sem býður fram — eða flokkur eða hvað við köllum það — hefur einhverja sérstöðu gagnvart hinum, þá eru henni greidd atkv. sem fylkingu, en hafi hún enga sérstöðu gagnvart hinum kjósa menn einstaklinga úr fylkingum. Það eru ekki verri einstaklingar fyrir það þó að þeir séu um það bil eins og náunginn í hinum flokknum. Á því er enginn manndómsmunur af einu eða neinu tagi. En kjarninn er sá, að kosningakerfið eins og allt vald á að vera svo dreift að skoðanir, hverjar sem þær eru, brjótist þar auðveldlega í gegn. Það er þetta sem verið er að leggja til. (Forseti: Nú er meiningin að gera hlé á fundi og ég verð að biðja hv. ræðumann að fresta hér ræðu sinni.) Þangað til kl. hvað, forseti? (Forseti: Þangað til kl. 6.) — [Frh.]