07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að flytja hér brtt. sem er á þskj. 469 og hljóðar þannig með leyfi forseta:

„Á eftir 3. gr. komi ný grein svohljóðandi:

77. gr. orðist svo:

Skattamálum skal skipa með lögum.

Við ákvörðun skatta á tekjur og eignir skal gætt jafnræðis þegnanna, þannig að til lækkunar komi sérstakur kostnaður vegna búsetu, eftir því sem nánar verður ákveðið í lögum.“

Mér er það að vísu ljóst, að eins og hefur háttað til hér á hv. Alþingi mun þessi till. ekki hljóta náð fyrir augum meiri hl. hv. alþm. En í þessari till. er krafa landsbyggðarinnar um það, að um leið og ný stjórnskipunarlög eru sett sé þeirra réttur settur þar inn með einhverjum hætti. Það hefur verið reynt hér á hv. Alþingi á undanförnum árum að leitast við að minnka aðstöðumuninn í þjóðfélaginu með ýmsum hætti, en ekki tekist. Og þegar er nú verið að ræða um stjórnarskrána og breytingar á henni er það eðlilegt að einmitt svona ákvæði komi inn í stjórnskipunarlögin, sem tryggi að aðstöðumunurinn í þjóðfélaginu sé minnkaður.

Það eru auðvitað margar spurningar sem koma fram í hugann þegar menn athuga þessi mál. Þegar er verið að athuga þetta litla frv., sem er í sjálfu sér ekki nema tvær breytingar eins og fram hefur komið, þá kemur sú spurning fyrst í hugann: Á að fresta öðrum breytingum á stjórnarskránni e. t. v. um mörg ár eða á kannske að breyta aftur og kjósa tvisvar á næsta ári? Er það það sem er stefnt að? Og miðað við þá breytingu, sem er í þessu frv., sem forustumenn stjórnmálaflokkanna hafa sameinast um, skil ég ekki, mér er ómögulegt að skilja það, að menn komist að þeirri niðurstöðu, ef þeir athuga málið, að það réttlæti að fara út í tvennar kosningar eins og ástatt er í þjóðfélaginu.

Hitt er allt annað mál, að ef stjórnarskráin hefði verið tekin öll til endurskoðunar og ný stjórnskipunarlög í heild hefðu verið sett er samt spurning hvort það sé rétti tíminn til að gera slíkt eins og á stendur.

Ég gat um það við 1. umr. þessa máls og lýsti ábyrgð á hendur þeirra manna sem ætluðu að stefna þjóðinni út í tvennar kosningar eins og ástatt er í þjóðfélaginu í dag. Það hefur raunar ekkert verið hægt að gera síðan um áramót annað en fjalla um þetta mál og uppskeran er svo þessi.

Menn tala mikið um mannréttindi og réttlæti og það er eins og vægi atkvæða sé eina réttlætið. Það eru út af fyrir sig mannréttindi, en það er fleira sem eru mannréttindi. Ég skal verða fyrstur manna til að styðja jöfnun atkvæðisréttar ef um leið eru stigin þau spor að jafna lífsaðstöðu fólksins í landinu. En það er skilyrði fyrir því.

Það er rangt, sem hefur komið hér fram hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, að við, sem erum á móti þessu frv., séum á móti því að minnka vægi atkvæða. Við viljum bara gera fleira. Við viljum annað réttlæti en þeir menn, sem standa að þessu, vilja tileinka sér. Það er það sem við viljum. Það virðist vera með hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að hann sjái þessa hluti öðruvísi sem skólameistari á Ísafirði og sveitarstjórnarmaður þar en sem frambjóðandi hér í Reykjavík, ef mig misminnir ekki.

Ég get tekið undir það sem sumir hv. ræðumenn hafa sagt hér. Ég er innst inni á móti fjölgun þm. Ég tel slíkt ástæðulaust. En það er ekki meginmálið. En ég er líka á móti því að kjördæmin ráði ekki kosningu sinna manna. Það er ekki nóg að setja það upp eins og virðist vera stefnt að í þessu samkomulagi, ef það á að halda, að þm. utan Reykjavíkur séu 33 eða 34 og hér á suðvesturhorninu 29, ef flokkarnir geta svo komið inn mönnum hér og þar úti á landi, sem eru kosnir í raun og veru með engu atkvæðamagni eða sama og engu, eins og hér er stefnt að. Ég held að ef það er samkomulag um fjölda þm. í hverju kjördæmi sé réttlætismál að hvert kjördæmi ráði sínum mönnum. Það þýðir að þá þarf að kjósa þá alla beinni kosningu.

Ég ætla ekki við þessa umr. að fara að flytja langt mál því að það hefur enga þýðingu. Ég vil reyna á réttlætiskennd þeirra þm. sem eru að berjast fyrir þeim breytingum, sem er hér fjallað um, láta reyna á hvort réttlætistilfinningin er aðeins um jöfnun og vægi atkvæða, hvort þeir eru ekki til viðtals í leiðinni um að skilja það og gera ráðstafanir til að það sé sett inn í stjórnarskrá að það skuli vera metið hver framfærslukostnaður er á hverjum stað. Það er ekki nóg að menn hafi svipaðar tekjur, ef framfærslan er kannske þriðjungi meiri í einum stað en öðrum og þeir þurfi að borga skatta af þessum umframkostnaði við heimilishald og framfærslu.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason talaði hér langt mál. Ég hefði nú haft hug á því að sjá hann hér í þingsal og tala til hans örfáum orðum. Hann hefur heiðrað mig nokkrum sinnum hér í vetur með því að benda á mig sérstaklega sem dæmigerðan fyrir að misnota mína aðstöðu sem þm. Ég held að hann hafi sagt þetta þrisvar í sölum Alþingis. Hann hefur sagt a. m. k. tvívegis að aðalskrifstofa mín sé úti í Búnaðarbanka. Nú hlýtur þm. að vita betur, vegna þess að mín skrifstofa er úti í Þórshamri. Það vita þá allir nema hann. En svona málflutningur hentar vissum mönnum, sem virðist skipta engu máli hvort þeir segja satt eða ekki. Hins vegar hljómar það sem lofsöngur í mínum eyrum þegar hv. þm. er að kasta slíku að mér. Það vil ég að hann viti.

Þær tillögur, sem hv. þm. hefur lagt hér fram, ætla ég lítið að fjalla um. Hann leggur til að löggjafarvald og framkvæmdavald skuli aðskilin. Hann leggur þó til að þm. fylgist með framkvæmd laga og hvernig fjármunum þjóðarinnar er ráðstafað eða hvernig þeir nýtast. Á sama tíma vill hann í öðru orðinu ekki að þm. séu í stjórnum, hvorki bankaráða, Framkvæmdastofnunar né annars staðar. En þetta eru fyrst og fremst eftirlitsstörf. Veit þm. það ekki frekar en um skrifstofu þm. hér á Alþingi. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að ræða málflutning þessa þm. Hann dæmir sig sjálfur.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mig undrar það mjög, þegar ég fletti frv. sem hér liggur fyrir, að eftir alla þá vinnu, í raun og veru eftir vinnu í 39 ár, skuli þetta vera uppskeran. Það er misskilningur að þetta sé gert fyrir flokkana. Ég hygg að þetta sé miklu frekar gert fyrir einstaka þm. Og ég vil endurtaka mínar spurningar. Ég vil spyrja 1. flm. að því, hvort í hans huga sé svo stórum áfanga náð í sambandi við breytingar á stjórnskipunarlögum að það megi frestast að öðru leyti um árabil að endurskoða og breyta stjórnarskránni, vegna þess að það réttlætir alls ekki að stefna þjóðinni með stuttu millibili ár eftir ár í tvennar kosningar, eins og hér virðist eiga að gera, fyrir ekki meiri breytingar en hér liggja fyrir.

Það var auðvelt að breyta kosningaaldrinum á annan hátt og þurfti ekki tvennar kosningar til að mínum dómi. Og það var ennfremur hægt að gera breytingar í sambandi við kjördæmi með því að færa alla uppbótarmenn, láta kjósa þá á tölu. Þá hefðu þeir komið hér til Suðvesturlandsins og þurfti þá ekki að standa í því að kjósa tvisvar út af þeim breytingum. En þessi till. réttlætir ekki að kjósa tvisvar út á svona breytingu, hvað þá þegar sá vandi er hér í landinu sem allir þekkja og ég fer ekki að ræða nánar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt, þó margt væri hægt að segja um þennan málatilbúnað og um þær ræður sem hafa hér verið fluttar. En hitt veit ég og hef orðið var við núna tvo síðustu daga, að fólk úti á landi fylgist vel með þeirri tillögu, sem við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson flytjum hér, og hvernig atkvgr. fer fram um það mál.