07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það var kvöldfundur einnig þegar stjórnarskrármálið var til umr. seinast og ég hef ekki hugsað mér að eyða mjög löngum tíma í kvöld til annars en að óska eftir upplýsingum og gera grein fyrir athyglisverðri frétt sem borist hefur vestan af fjörðum.

Ég vil varpa þeim fsp. til formanns stjórnarskrárnefndar, hvaða félagsfræðingar voru kallaðir á fund nefndarinnar. Þeirra hefði verið að meta afleiðingar þeirrar breytingar, sem hér er verið að leggja til, hvort hún yrði til að auka fólksflutninga til þéttbýlis m. a. Hvaða stjórnmálafræðingar voru kallaðir á fund nefndarinnar? Þeirra hefði verið eðlilegt að meta sennilegar stefnubreytingar flokkanna. Hv. 9. þm. Reykv. er ákaflega gott dæmi um stefnubreytingu hjá einstaklingi eftir búsetu. Ég hygg að við fáum ekki öllu skýrara dæmi í þingsögunni.

Hvaða hagfræðinga kallaði nefndin fyrir sig? Þeirra væri að meta áhrif stjórnarskrárbreytingarinnar m. a. á fasteignaverð, fjárfestingu í landinu og á framleiðslu atvinnuveganna. Það er nefnilega nokkuð athyglisverð staðreynd, að ef maður skoðar skiptingu manna eftir atvinnuvegum má ganga nokkurn veginn að því vísu að fólksflutningur til höfuðborgarinnar þýði mun fleiri störf við þjónustu. Ég veit að nefndin hefur rætt þetta mál ítarlega. Það stendur í því þskj. sem hún lét frá sér fara. Og hún hefur einnig flutt brtt. sem hún er sammála um og á að halda, nema kosningalög ákveði eitthvað annað, þannig að þetta er allt þaulhugsað sem verið er að leggja til. En ég vil, með leyfi forseta, lesa frétt sem birtist í Ríkisútvarpinu:

„Stjórnir allra flokksfélaga í Önundarfirði samþykktu nýlega harðorð mótmæli við frv., sem nú liggur fyrir Alþingi, um breytingu á stjórnskipunarlögum. Félögin hafa hafnað frv. og mótmæla hugmyndum um jafnvægi atkvæða, þar sem ennfremur beri að líta á jafnvægi byggða. Þau benda á misvægi atkvæðisréttar, m. a. af því að stefnumörkun og undirbúningur lagasetningar fer iðulega fram fyrir utan þingsali, þar sem áhrifavald íbúa í nágrenni Alþingis er sterkur þáttur. Flokksfélögin í Önundarfirði telja forsendur fyrir aukinni valddreifingu óundirbúnar og ómótaðar og aðeins settar fram til að sætta dreifbýlisfólkið við réttindaskerðingu. Þau fallast á breyttar reglur við úthlutun þingsæta í kjördæmum, en telja höfuðatriði að hvert kjördæmi ráði að fullu kjöri sinna fulltrúa. Félögin vara við því í ályktun sinni, að frekari samþjöppun valds á suðvesturhorninu leiði til óeiningar, sem valda muni óbætanlegum skaða, og skora á Vestfirðinga og dreifbýlisfólk víða um land að snúast til varnar gegn frekari réttindaskerðingu með fundasamþykktum og fleiri aðgerðum. Skorað er á alla þm. að fella frv.“

Að þessari ályktun standa stjórnir Alþb., Framsóknarfélags Önundarfjarðar, Alþýðuflokksfélags Önundarfjarðar og stjórn Sjálfstæðisfélagsins þar.

Í fyrsta lagi mun fátítt að það komi ályktanir heiman úr byggðum um að snúast til varnar gegn þingkjörnum fulltrúum, hv. 1. þm. Vestf. m. a., ef skilja ber textann rétt, hv. 2. þm. Vestf. sömuleiðis, hv. 3. þm. Vestf., ef ég met rétt hans afstöðu í þessu máli, og e. t. v. hv. 4. þm. Vestf., sem ég vil nú fátt fullyrða um á þessari stundu. Hann á vafalaust eftir að ræða það mál í Ed.

Það leiðir hugann að því að árið 1959, þegar seinasta kjördæmabreyting fór fram, var íbúafjöldi á Flateyri 543. Þar hefur verið frekar undanhald. Þetta leiðir einnig hugann að því sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á hér áðan. Hann talaði um að skoðanir manna færu fyrst og fremst eftir því í hvaða stjórnmálaflokki þeir væru. Hvaða undur og stórmerki hafa gerst við Önundarfjörð? Skoðanir manna hafa alls ekki farið eftir því í hvaða stjórnmálaflokki þeir eru þegar þeir settust niður og sömdu þetta. Er hugsanlegt að svæðalegt viðhorf sé enn til í þessu landi?

Ég lét dreifa hér á borð til þm. útreikningum, sem ég ætla ekki að taka til umr. fyrr en við 3. umr. málsins. Það væri fróðlegt ef þeir hinir fróðu menn, sem ræddu ítarlega þetta mál í nefndinni og e. t. v. hafa ekki þurft að spyrja neinn mann ráða, utan hagstofustjóra eitthvað út af 2. gr., læsu það í fskj. sem fylgja þessu, hvers vegna Danir töldu sig þurfa að taka tillit til landsins. Hvers vegna skyldu Danir hafa talið sig þurfa að taka tillit til þess?

Við fengum innlenda stjórn um seinustu aldamót. Þá voru Reykvíkingar og Reyknesingar að fjölda til 12025. Þá voru Vestfirðingar 12481. En við töldum okkur ekki þurfa að taka tillit til landsins við stjórnarskrárbreytingar sem við höfum verið að framkvæma.

Á Norðurlandi voru þá 20246, á Austurlandi 10634. Það er kannske fróðlegt, af því að það er 1. þm. Vestf. sem er flutningsaðili hér í þinginu að þessu máli, sem fólkið við Önundarfjörð telur rétt að snúast til varnar gegn, að gá hvernig hagsmunagæslan fyrir Ísafjörð á þessu tímabili hefur tekist, ef maður ber saman mannfjölda þar og miðar við aðra staði. Árið 1901 voru á Ísafirði 1220 manns, á Akureyri 1370. Það var athyglisvert að það var Norðlendingur sem þó hélt hér uppi andófi í þingsölum áðan gegn því sem hér er verið að leggja til. En það er ekki að sjá sem hagsmunagæslumenn Vestfjarða telji að miklu sé í áfátt þegar þessi mál eru á dagskrá.

Það kom fram hjá 1. þm. Vestf. að ef þetta yrði ekki gert yrði aðeins gengið öllu lengra þegar kæmi til breytinga. Það er nú svo. Það er staðreynd að dreifbýlisþm. þessa lands ráða því, og geta ekki skotið sér á bak við nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum, hvort það eigi að taka eitthvert tillit til landsins í stjórnskipunarlögum eða ekki. Og þeir hafa meiri hluta til þess að ráða þessum málum.

Ég tel að það sé mjög óeðlilegt að stærsta mál þessa þings og verðandi kosningamál sé fyrst og fremst haft til umr. á kvöldfundum. Ég tel að það segi þó nokkuð mikið um gæði þeirra vinnubragða sem hér eru viðhöfð. Það má vel vera að hv. stjórnarskrárnefnd, sem fékk þetta mál til umfjöllunar, hafi ekki talið sig þurfa að kynna sér hvernig að þessum málum er staðið erlendis. Það má vel vera að þeir hafi vitað þetta allt, verið slíkir sérfræðingar. En hitt er þó staðreynd, að það mun leit að landi í heiminum þar sem ekki er annaðhvort þannig að málum staðið í lýðræðisríkjum að um sambandslýðveldi sé að ræða, sem taka þess vegna mikið tillit til hinna afskekktari svæða, — Bandaríki Norður-Ameríku eru gott dæmi um þetta — eða þá að það sé á einhvern hátt misjafnt vægi atkvæða. Hér á landi vill orðið þannig til, vegna þess að menn hafa ekki nennt að hirða um þessa hluti, vegna þess að menn hafa ekki talið það skyldu sína að gæta hagsmuna hinna ýmsu landssvæða, að við erum komnir í þá sérstæðu aðstöðu að hafa á innan við einni öld brotið niður lýðveldið Ísland og breytt því í borgríkið Ísland með misskiptingu í aðstöðu milli þegnanna, eins og allir kannast við.

Ég sé að hv. 1. þm. Vestf. er horfinn úr salnum. Ég sakna þess að sjálfsögðu og kann ekki við að láta hér falla þyngri orð í hans fjarveru. En mér þætti vænt um ef menn gerðu svo lítið að kynna sér hvernig Danir brugðust við á sínum tíma og snerust gegn því að Kaupmannahöfn yfirtæki þar, hvernig þeir tóku sig til í sinni stjórnarskrá og reiknuðu landið með inn í þau stjórnarskrárlög sem þar eru. Ég hef hugsað mér að gera það að umræðuefni við 3. umr. þessa máls.