07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

5. mál, Útvegsbanki Íslands

Frsm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Til þess að spara tíma þessarar hv. deildar hefði ég viljað fá leyfi hæstv. forseta til að ræða öll bankamálin, nr. 17, 18, 19 og 20 á dagskránni, í einu lagi. (Forseti: Það er heimilað.) Ég þakka.

Á Alþingi 26. apríl 1982 voru samþ. lög um breyt. á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Tilgangur þeirra laga var að ná fram virkara aðhaldi og eftirliti með fjármunum ríkisins og framkvæmd fjárlaga. Þar eð þau lög ná ekki til ríkisbankanna er lagt til í þessum fjórum frv., sem hér eru á dagskrá, að breyting verði gerð á lögum bankanna til að tryggja einnig ítarlegri reikningsskil á ýmsum þáttum í rekstri þeirra.

Í ársreikningum bankanna nú er nokkuð mismunandi hvernig sundurliðun þeirra þátta er háttað sem í þessum frumvörpum er lagt til að lögfest verði að sérstaklega beri að gera grein fyrir. Svo virðist í ársskýrslum bankanna að þeir fjórir rekstrarþættir, sem lagt er til í frumvörpunum að sundurliðaðir verði sérstaklega, þ. e. launagreiðslur, bifreiða-, risnu- og ferðakostnaður, komi fram aðeins undir einum lið — rekstrarkostnaður — án nokkurrar sundurliðunar. Undanskilja ber þó Útvegsbankann, þar sem sérstaklega kemur fram kostnaður vegna launa, launatengdra gjalda og hins vegar annar skrifstofu- og stjórnunarkostnaður.

Í frumvörpunum, sem hér eru á dagskrá, er lagt til að til bókhalds bankanna verði að þessu leyti gerðar sömu kröfur og hið háa Alþingi gerir til bókhalds ríkisstofnana.

Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frumvörpin og fengið umsagnir um þau skriflegar og munnlegar. Fjórir nm. meiri hl. n., hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, Albert Guðmundsson og Matthías Bjarnason auk mín, eru sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt. Aðrir nefndarmenn tóku ekki þátt í afgreiðslu málsins.