07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

235. mál, grunnskóli

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 63 21. maí 1974, um grunnskóla. Frv. það, sem hérna er lagt fram um breyting á grunnskólalögunum, felur ekki í sér grundvallarstefnubreytingu, en það gerir þó ráð fyrir ýmsum lagfæringum, sem reynslan hefur leitt í ljós að æskilegt er að gera, og vissulega eru hér að finna ýmsar breytingar sem telja má talsverðar breytingar á sínu sviði.

Ég sé ekki ástæðu til af sérstökum ástæðum að hafa mjög langt mál um þetta, en mér er það í mun að frv. komist til nefndar. Þó að brtt. séu að vísu margar talsins fela þær ekki í sér neina grundvallarstefnubreytingu varðandi grunnskólann, en þó finnast í þessum brtt. mikilvægar efnisbreytingar á afmörkuðum sviðum, sem vissulega þarf að ræða nánar og gefa sér tíma til að ræða betur hér á hv. Alþingi og meðal skólamanna og sveitarstjórnarmanna og kannske almennings í landinu.

Ég tel ekkert sjálfsagðara en að þingnefnd sendi þetta mál til umsagnar ýmsum aðilum, sem hér eiga hlut að máli, og þótt málið hafi hlotið allvíðtækan undirbúning til framlagningar í frv.-formi er nauðsynlegt að um það skapist umr. í því formi sem það liggur nú fyrir. Á það legg ég mikla áherslu. Þess vegna ætlast ég ekki til þess, herra forseti, að málið verði afgreitt til fullnustu á þessu þingi, til þess gefst ekki tími. Málið er reyndar flutt til kynningar og umræðu.

Hins vegar leyfi ég mér að bera upp þá ósk að eitt ákvæði þessa frv. verði að lögum, þ. e. það ákvæði sem fjallar um að fresta gildistöku níu ára skólans enn um eitt ár. Slík frestun hefur verið samþykkt undanfarin tvö ár og tel ég eðlilegt að svo verði gert að þessu sinni, þ. e. að ákvörðun um níu ára skólann verði látin fylgja almennri endurskoðun grunnskólalaganna, sem ætti að geta orðið á næsta vetrarþingi.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn. með þeim sérstöku orðum, sem ég vil að menn veiti athygli, að málið verði vel athugað, en þó svo, að reynt verði að gera að lögum þetta sérstaka ákvæði, sem ég hef talað um, þ. e. um frestun á gildistöku níu ára skólans um eitt ár.