08.03.1983
Efri deild: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

226. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta mál á sér allverulegan aðdraganda eins og kunnugt er. Það er ljóst að sú flugstöð sem er fyrir millilandaflug og vöruafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli er gersamlega ófær um að gegna því hlutverki sínu. Þar er um að ræða gamla timburbyggingu sem margsinnis hefur verið klastrað við. Þessi bygging heldur víst varla vatni og vindum þegar á reynir og eins og kunnugt er leiddi það m. a. .til vandræða í vetur. Þar urðu mjög margir farþegar að hírast í myrkri í lekri flugstöðinni í miklu óveðri. Bilanir af ýmsu tagi hafa þarna orðið og hitakerfið brast líka. Ég held því að öllum ætti að vera ljóst að þetta mannvirki er gersamlega óhæft til að gegna hlutverki sínu. Það hefur líks verið bent á að óhjákvæmilega væri mikil eldhætta í þessari stöð sem gæti leitt til stórslyss. Ekki einungis að því er varðar aðbúnað farþega heldur fyrir ýmsa aðra þætti starfseminnar er aðstaða mjög léleg, t. d. að því er varðar eldhús og að því er varðar aðstöðu verkamanna á flughlaði. Þrengsli og vandræði einkenna nálega alla þætti þess rekstrar sem þarna fer fram.

Þetta mál er ekki nýtt. Fimm ríkisstj. hafa fjallað um það án þess að framkvæmdir hafi verið ákveðnar. Unnið hefur verið að undirbúningi með margvíslegum hætti og stöðin margsinnis hönnuð og er ekki ástæða til að rekja það í smáatriðum. Hins vegar er rétt að minna á að ríkisstjórn Íslands komst á sínum tíma að þeirri niðurstöðu að Íslendingum væri torvelt að fjármagna þessa framkvæmd um langa framtíð. Þess vegna var farið fram á fjárhagslega þátttöku Bandaríkjamanna með þeim skilmálum að varnarliðið fengi gömlu stöðina til afnota, en báðir aðilar hafa mikinn hag af aðskilnaði farþegaafgreiðslu og varnarumsvifa. Það liggur fyrir að Bandaríkjastjórn er reiðubúin til að fjármagna flughlað og leggja að auki 20 millj. dollara til sjálfrar byggingarinnar, eða u. þ. b. helming áætlaðs kostnaðar, enda verði byggingin varasjúkraskýli á vellinum ef á þarf að halda.

Það þarf tæpast að minna á að flugstöðin er „anddyri“ Íslands fyrir þá fjölmörgu ferðamenn sem koma hingað á ári hverju, annaðhvort til þess að heimsækja landið eða hafa hér viðdvöl meðan þeir skipta um flugvél. Þess vegna er það þjóðernislegt metnaðarmál að umhverfi og afgreiðsla sé til fulls sóma fyrir Íslendinga.

Hér er vitaskuld gengið út frá því að sú kostnaðarhlutdeild sem Bandaríkjastjórn eða varnarliðið er reiðubúið að leggja fram verði nýtt og þá um leið að mat ríkisstjórnar Íslands standi, sem áður er vitnað til, um möguleika Íslendinga til fjármögnunar. Flugstöðin verður engu að síður alíslenskt mannvirki og rekið eingöngu af Íslendingum og mun bera þann svip sem Íslendingar setja á hana.

Það frv. sem hér er mælt fyrir var flutt að meginstofni til á s. l. ári af hv. þm. Benedikt Gröndal og Geir Hallgrímssyni. Á því hafa verið gerðar lítils háttar breytingar. Hér er gert ráð fyrir því að stofna sérstakan byggingarsjóð flugstöðvar. Það ákvæði var ekki í frv. eins og það var flutt í fyrra. Þessum byggingarsjóði er sett stjórn er skipuð yrði af utanrrh. Henni er ætlað að hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd verksins. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn hafi sjálfstæðan fjárhag og sjóðstjórninni sé heimilt að taka lán til framkvæmdanna að fengnu samþykki utanrrh. Tekjur sjóðsins eru tíundaðar sem hundraðshluti af ýmissi starfsemi sem fer fram á flugvellinum. Mér reiknast svo til að miðað við verðlag á árinu 1981 hefðu þessar tekjur numið um 20–25 millj. kr. á ári. Ég miða við verðlag á því ári vegna þess að það liggur fyrir hverjar tekjur voru af þeim liðum sem hér eru upp taldir á þeim tíma. Sömuleiðis eru kostnaðartölur varðandi bygginguna flestar nefndar á þessu verðlagi. Sé um það að ræða að Íslendingar þurfi, miðað við verðlag á þessum tíma, að leggja 200–250 millj. kr. í þessa flugstöð mundu þær tekjur sem hér um ræðir svara til 1/10 hluta framlags þeirra. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta í þessum inngangi. Ég held að málið sé allvel upplýst.

Það hefur verið stefna þriggja stjórnmálaflokka hér á Íslandi að reisa þessa flugstöð með þeim hætti sem gert hefur verið ráð fyrir. Aðskilnaður á starfsemi hersins og farþegaflugi hefur lengi verið baráttumál a. m. k. þriggja stjórnmálaflokka hér á landi, þ. á m. flokks hæstv. utanrrh. Mér sýnist því fyllilega ástæða til að stíga það skref sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Rætt hefur verið um að í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. væri ákvæði um að til framkvæmda af þessu tagi mætti ekki koma nema til kæmi samþykki allra aðilanna að ríkisstj. Mér sýnist nú vera komið upp svo mikið ósætti í ríkisstj. um margvíslegustu mál, að stjórnarsáttmálinn sé orðinn harla lítils virði, og varla hægt að gera ráð fyrir því að það sé frekar hald í þessu ákvæði en öðrum. Alþingi stendur þess vegna frammi fyrir því í þessu máli, eins og reyndar svo mörgum öðrum sem hér eru til umfjöllunar á þinginu, að taka af skarið og taka ákvarðanir úr því að ríkisstj. er í rauninni ekki lengur starfhæf. Af þessum ástæðum sýnist mér að þeir stuðningsmenn ríkisstj. sem telja að hér sé um rétta stefnu að ræða ættu að geta stutt þetta frv. Einmitt af þeim ástæðum er frv. flutt núna, til þess þá líka að flýta fyrir þessum framkvæmdum, sem ég trúi að mjög margir Íslendingar hafi áhuga á að verði sem fyrst hafnar.