08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2662 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

Um þingsköp

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Hv. 4. þm. Reykv. hafði samband við mig í morgun og varpaði fram fsp. um í fyrsta lagi hvort — og með hvaða hætti þá — ákvörðun hefði verið tekin um prentun fjölda þingskjala, og hvaða kostnaður fylgdi því, og í öðru lagi um kostnað við þingveislu í fyrra og nú.

Ég vil upplýsa að það hefur ekki unnist tími til að afla þessara upplýsinga. En ég vil taka fram að það er misskilningur þegar því er haldið fram að forsetar Alþingis hafi tekið ákvörðun um að hámark prentaðra þingskjala skyldi vera 500. Þetta kemur fram í dagblaði, er mér tjáð, og haft eftir skrifstofustjóra vorum. Umræða var hjá forsetum um hvort takmarka skyldi í framtíðinni eintakafjölda, en talið ófært að gera það nema með góðum fyrirvara, eins og til að mynda þá í upphafi þings. Þetta er um það mál að segja, þannig að það hefur verið afflutt óviljandi í þessu dagblaði. Ákvörðun hefur sem sé ekki verið tekin um þetta.

Um kostnað við þingveislurnar er það að segja að skrifstofustjóri er að taka það saman. Sér í lagi vantar ennþá upplýsingar um hina síðari. En ég held að hv. þm. búi þá tölu til sjálfur þar sem hann nefnir einhvern fjórðung úr milljón, sem hétu 250 þús. þegar ég lærði stærðfræði, en ég vil ekkert um það fullyrða á þessu stigi málsins. Hv. 5. þm. Vestf. hafði kvatt sér hljóðs um þingsköp. Ég vek athygli á að hv. 4. þm. Reykv. lá á að fá að gera þessar athugasemdir og ég hafði fallist á það. En langar tölur á þessa vísu eiga alls ekki heima undir umr. um þingsköp. Við erum komnir yfir í formið utandagskrárumræður þegar svo er komið. En skrifari vor mun áreiðanlega verða stuttorður.