08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2663 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

Um þingsköp

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Ég minni á það vegna þessara orða, að í síðustu viku tók forseti deildarinnar fram að hv. þdm. yrðu að vera við því búnir að mjög raskaðist allt fundahald umfram það sem venja er til. Meira að segja held ég að ég hafi orðað það svo, að menn yrðu að vera viðbúnir því að mæta hér til funda á nóttu sem degi.

Ég vek athygli á því, enda þótt kosning nefndar til viðræðu um álmál sé hið mikilvægasta mál, og ég er bæði forseti, áhugamaður þar um og sammála 4. þm. Austurl. um afstöðu hans til þess máls í n. á sínum tíma, og hv. 5. þm. Vestf. hlýtur að hafa veitt því athygli, að fyllsta mál á dagskrá þessa fundar heitir Stjórnarskipunarlög, og að öðru jöfnu álítur forseti að þau eigi að ganga fyrir öllum öðrum málum og er þar ekkert undanskilið.