08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til stjórnarskipunarlaga felur í sér þrjú efnisatriði sem eru misjafnlega sannfærandi og aðkallandi. Það athyglisverðasta við frv. er að um það hafa forustumenn fjögurra stjórnmálaflokka náð samkomulagi. Það samkomulag vekur þó engan fögnuð, a. m. k. enn sem komið er, raunar miklu heldur tómlæti, en einnig andstöðu.

Í pokahorninu eru drög að frv. til l.um breytingar á kosningalögum, sem birt er sem fskj. með frv. Þremur meginmarkmiðum var ætlað að ná með þessari lagasmíð. Ég lýsi fylgi við fyrsta atriðið, um jöfnun á milli flokka, og get sætt mig við þá auknu jöfnun á milli kjördæma sem þessar fyrirætlanir greina. Ég hef þó ekki sannfærst um nauðsyn þess að fjölga þm. í þessu skyni og í kosningalagafrv. eru settar fram útreikningsreglur, sem eru flóknar og fráhrindandi fyrir kjósendur í hinum minni kjördæmum, þannig að þeir eiga enn erfiðara með en fyrr að ráða í hvaða fylgi þurfi til að tryggja tilteknum frambjóðanda það að hann nái kjöri sem 5. þm. kjördæmisins. Engar tillögur eru sýnilegar í þessum gögnum um hvernig þriðja meginmarkmiðinu skuli náð, um aukið valfrelsi kjósenda, persónukjör. Því markmiði vil ég ekki kasta fyrir róða. Að samanlögðu hlýt ég, sem væntanlega flestir þm. aðrir, að hafa algeran fyrirvara um afstöðu til fylgigagna þessa máls, en mun ekki leggja stein í götu samkomulags flokksformanna um þetta stjórnlagafrv. og greiði því ekki atkv. um 1. gr. þess né brtt. við hana. Ég greiði ekki atkv.