08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. landbrh., Pálma Jónssyni, að það merkilegasta við þetta mál er auðvitað það, að flokkarnir fjórir skuli hafa komist að samkomulagi, þrátt fyrir og á skjön við hina staðreyndina, að það er megn andstaða við þetta um landið vítt og breitt. Við höfum mörg gert athugasemdir ekki aðeins við efnisatriði þessa máls, heldur við aðferðina sem er notuð við að koma því hér í gegn. Þegar tveir hv. þm. flytja nú um það brtt.þm. verði áfram 60, þá er verið að breyta einvörðungu öðru af tveimur efnisatriðum þessa máls, um fjölgun þm. Þetta frv. er ekki um neitt annað en fjölgun þm. Það er óuppgert hvernig þessum aukna fjölda eigi að skipta á milli kjördæma. Að þessu leytinu til er auðvitað hér um að ræða till. þar sem úrvinnslan öll er eftir. Þó ekki væri nema þegar af þeirri ástæðu einni, þá segi ég já.