08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Guðmundur J. Guðmundsson (frh.):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að draga mál mitt saman, en þó get ég ekki stillt mig um, vegna þess að hv. þm. Vilmundur Gylfason var svona hálfpartinn og alfarið að skopast hér að samflokksþingmanni sínum, hv. þm. Karvel Pálmasyni, (VG: Það er ekki rétt!) fyrir það að hann kynni ekki vinnulöggjöfina og mótmælti úr sæti sínu nokkrum fullyrðingum frá mér. Í millítíðinni hef ég aflað mér dóma Félagsdóms frá 1939 til 1942. Með leyfi forseta ætla ég aðeins að grípa hér niður í merkan dóm:

„Mánudaginn 25. sept. 1939. Sigmundur Björnsson gegn Verkamannafélaginu Hlíf. Stéttarfélag skyldað til þess að veita verkamanni félagsréttindi og sektað fyrir brot á 2. gr. laga nr. 80/1938.“

Í niðurstöðum þessa dóms, Félagsdóms, sem hv. þm. hefur vitnað mjög til til stuðnings þekkingu sinni í vinnulöggjöf, um að aðeins megi vera eitt stéttarfélag í hverju sveitarfélagi í sömu starfsgrein, segir með leyfi forseta: „Samkv. 1. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, eiga menn rétt á því að stofna stéttarfélög í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt. Eru í nefndri grein engar takmarkanir settar við því, að ekki megi vera nema eitt stéttarfélag í hverri starfsgrein á hverjum stað, og ekki verður það heldur dregið úr af öðrum ákvæðum laganna. Verður að telja, að ef tilgangur löggjafans hefði verið sá, að takmarka tölu stéttarfélaganna, þá hefði það þurft að koma skýrt í ljós, og það því fremur sem vitað var, að á þeim tíma, er lögin voru sett, voru fleiri en eitt stéttarfélag starfandi, og höfðu, a.m.k. um skeið, verið starfandi í sömu starfsgrein innan sama bæjar- og sveitarfélags. Og með því að telja verður að Verkamannafélag Hafnarfjarðar“ — þetta nýja félag í þá tíð — „sé stéttarfélag í skilningi 1. gr. laga nr. 80/1938, getur stefndi í máli þessu ekki byggt neinn rétt á því, að það sé ekki stofnað að lögum.“

Vill nú ekki hv. þm. spara sér hárfínt grín á aðra þingmenn? Ef hv. þm. vefengir það sem ég hef upp lesið þá getur hann fengið hér lánaða til aflestrar dóma Félagsdóms. En þetta er atriði sem í sjálfu sér skiptir ekki máli. Þetta breytir ekki því, að það er rétt hjá hv. þm. að til breytinga á hans frv. verða stéttarfélög að vera öllum opin og það útheimtir breytingar. Það er efnislega alveg rétt hjá hv. þm. og rökrétt að til þess að hans frv. nái fram að ganga þarf þær breytingar sem hann leggur til. Það breytir ekki efnisatriði hans frv., því að stéttarfélög þurfa að vera öllum opin, það yrðu ekki vinnustöðvafélög.

Nóg um það. Það er aðeins vegna þess að hv. þm. hefur slegið svo um sig með þekkingu sinni í þessum málum að ég gríp niður í þessa dóma. Hv. flm. mætti gjarnan kynna sér vinnustaðafélög erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, þar sem heil fyrirtæki hafa keypt sig út úr verkalýðshreyfingunni með því að stofna vinnustaðafélög við fyrirtækin. Ég gæti vel trúað að einstaka fyrirtæki á Íslandi væru reiðubúin að semja við slík vinnustaðafélög. Það yrðu félög sem vildu kaupa sig frá verkfallsvopninu og treysta á að smátt og smátt nái þau tökum á viðkomandi starfsmannafélögum, því þar yrðu starfsmennirnir mun háðari atvinnurekandanum heldur en það afl sem stendur utan vinnustaðarins. Að vísu skal það fram tekið að hv. flm. bannar ekki í sínu frv. að komið sé upp slíkum samböndum. En eins og ég hef getið hér um, þá finnst mér hann bjóða þessari hættu mjög heim.

Bent hefur verið réttilega á að skipulagi Alþýðusambandsins sé í ýmsu áfatt. Í því sambandi hefur oft verið bent á að t.d. hjá skipafélögum gat farið svo hér áður fyrr að vélstjórinn væri í verkfalli í einn mánuð kokkurinn þann næsta, loftskeytamaðurinn þann þriðja, stýrimaðurinn þann fjórða, háseti þann fimmta o.s.frv. Þetta var verulegt vandamál fyrir svona röskum tuttugu árum, og stefndi beint í breytingar á vinnulöggjöfinni. Fyrir atbeina Alþýðusambandsins hafa þarna orðið verulegar breytingar á með stofnun sérsambanda t.d. Sjómannasambandsins. Það má taka t.d. farmenn. Að vísu snertir þetta fyrst og fremst Sjómannafélag Reykjavíkur sem hefur nú allan veg og vanda af samningum undirmanna í farskipum. Félagsmenn eru auk þess með sama samningstíma og samningsgerð öll sameiginleg. Sama er að segja um Farmanna- og fiskimannasambandið, þar ern sameiginlegir samningar fyrir al!a yfirmenn. Ástandið í þessum málum hefur gerbreyst. Verkföll einstakra starfsgreina meðal áhafna hafa nær alveg fallið niður. Horfið hefur verið að sameiginlegum aðgerðum og samningagerð. Á sama tíma hafa verkföll fámennra einstakra verkalýðsfélaga í þessari starfsgrein nær alveg, ef ekki alveg fallið niður. Þarna hafa sjómannasamtökin haft samvinnu um að leysa úr því ástandi sem þarna var, og að mínu viti afstýrt því að breytingar yrðu á vinnulöggjöfinni sem mundu þrengja samningsréttinn. Ég get nefnt fjölda dæma þar að lútandi. Það hefur verið ákaflega vel að verki staðið hjá sjómannasamtökunum í þessu.

Hv. þm. nefndi nokkur fyrirtæki sem áhuga mundu hafa á stofnun vinnustaðafélaga. T.d. nefndi hann Straumsvík. Ég held að þessi áhugi hafi um tíma verið nokkur, en það sem gerst hefur á þessum vinnustað er að hin ýmsu verkalýðsfélög, sem samningsrétt hafa við fyrirtækið, mynda sameiginlega samninganefnd, sem í eru fulltrúar viðkomandi stéttarfélaga og trúnaðarmenn starfsmanna, og gera öll einn samning. Ég dreg mjög í efa að nú sé vilji starfsmanna ÍSALs að segja sig úr viðkomandi verkalýðsfélögum og mynda sitt eigið verkalýðsfélag. Ég held að þeir telji sig hafa sótt styrk til sinna verkalýðsfélaga og félögin hafi verið svo gæfusöm að gera sameiginlega samninga.

Ég get nefnt fleiri vinnustaði þar sem sérsamningar eru óhjákvæmilegir og viðkomandi verkalýðsfélög standa sameiginlega að gerð. Vitaskuld eru viðkomandi trúnaðarmenn starfsfólks einn mikilvægasti aðilinn í slíkri samningagerð. Samningar eru að sjálfsögðu lagðir fyrir starfsfólkið til samþykktar eða synjunar og samninganefnd kosin af starfsmönnum.

Þá nefndi hv. þm. Flugleiðir. Ég skal viðurkenna að þar er ákveðið vandamál á ferðinni vegna fjölda þeirra verkalýðsfélaga sem samningsaðild eiga við fyrirtækið. En á það ber að líta að Flugleiðir eru með ákaflega umfangsmikla starfsemi. Fyrirtækið er ekki aðeins með flugrekstur, heldur með umfangsmikinn hótelrekstur, matsölustaði, bílaleigu og hver veit hvað. Einnig kemur þarna inn í að aðilar sem ekki starfa hjá Flugleiðum, svo sem flugumsjónarmenn, tollgæsla og aðrir opinberir starfsmenn, geta stöðvað flug. Menn sem enga samninga eiga við Flugleiðir. Bensínflutningamenn geta stöðvað flug þó þeir starfi ekki h já Flugleiðum. Ég er ekki farinn að sjá að flugmenn eða aðrir slíkir mundu sætta sig við að vera í félagi með öðru starfsfólki. En þarna ber að sjálfsögðu að samræma uppsagnartíma og gildistíma samninga sem allra flestra starfshópa. Mætti mjög gjarnan taka farmenn til fyrirmyndar. En þarna er um ákaflega margslunginn rekstur að ræða og því yrði nokkur vandi á höndum. Þessi atvinnurekstur er mjög viðkvæmur og verkalýðsfélög þurfa að hafa ákveðna varúð í verkfallsaðgerðum gagnvart honum.

Ég veit ekki hvort ég á að vera að teygja mál mitt öllu meira. Það hafa komið upp alls konar tiflögur hverju sinni. Ég get upplýst hv. þm. um það að starfsmenn eins fyrirtækis — og ætla ég ekki að fara að saka hv. þm. um það — hafa sótt það býsna fast að mynda eigið stéttarfélag. Það eru starfsmenn SÍS. Það hafa ekki verið forráðamenn SÍS., ekki hef ég getað merki það, að þeir hafi skorist í þessi mál. Þar er náttúrlega allt annað á ferðinni heldur en hv. þm. er með, en þó hefur þetta gengið svo langt að viðkomandi aðilar hafi verið mjög tregir til að gerast aðilar að stéttarfélagi eins og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og verslunarmannasamtökunum, sem hv. þm. leggur sig nú fram um að niða og svívirða og það mjög ómaklega oft á tíðum. (VG: Ekki ertu ósammála því?) Ég er ósammála því og þeim málflutningi þó að ég hafi sjálfsagt ýmislegt við þá starfsemi að athuga eins og þeir við mína. Ég tel að málflutningur hv. þm. í þeim efnum hafi oft verið vitaverður og ósamboðinn þm. En þarna er á ferðinni ein tillaga sem á sér þó nokkuð sterka formælendur, starfsmenn SÍS. Þeir borga ekki í lífeyrissjóð verslunarmannafélaganna, þeir borga í lífeyríssjóð SÍS. Stéttarfélög innan Verkamannasambandsins þverneituðu þessu. Það kemur ekkert annað til greina. En það kemur alltaf upp af og til hér og þar um landið að þeir vilji vera í lífeyrissjóði hjá SÍS o.s.frv. Ég er ekki að segja að þetta sé skoðun hv. þm., en sjá menn þarna ekki ákveðnar hættur? Sumir sjá þarna jákvæðar hliðar. Skipadeild SÍS er með sérfélag og starfsmenn SÍS nær almennt með sérfélag. Ég er nú hræddur um að þetta yrði bara ein deild í SÍS. Það mætti segja mér, með fullri virðingu fyrir starfsemi SÍS. Nóg um það:

Hv. 9. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson, benti í sinni ræðu um daginn á að ASÍ-þing hefði á sínum tíma, árið 1960 gert tillögur um skipulagsbreytingar á Alþýðusambandinu. Megininntak þeirra tillagna var að vinnustaðurinn skyldi verða grunneining verkalýðahreyfingarinnar, þ.e. allir á sama vinnustað skyldu vera í sama verkalýðsfélagi, síðan mynduðu ákveðnar starfsgreinar starfsgreinasambönd og þessi starfsgreinasambönd mynduðu síðan Alþýðusambandið. Þrátt fyrir þessar samþykktir komust breytingar ekki í framkvæmd vegna andstöðu innan samtakanna sjálfra. Engu að siður urðu upp úr þessu, um 1960 nokkrar skipulagsbreytingar á Alþýðusambandinu. Mynduð voru sérsambönd, ekki starfsgreinasambönd t.d. Verkamannasambandið. Samband byggingarmanna, Sjómannasambandið o.s.frv. Munurinn á þessu er sá að ef við t.d. tökum Samband byggingarmanna þá eru allir sem eru í byggingarvinnu í sama verkalýðsfélagi. Það er ekki hluti af þeim sem eru í byggingarvinnu í Verkamannasambandinu, hluti af þeim í Sambandi byggingarmanna o.s.frv.

Annað ber líka að hafa mjög vel í huga. Ég er t.d. ekki búinn að sjá að sjómenn samþykki að þeim sé skipt upp, farmenn lendi í sambandi með verkamönnum, fiskimenn séu síðan sér. Ég skil ákaflega vel þeirra sjónarmið. Við skulum varast að lögleiða svona hluti til þess að leysa þennan vanda. Það gerir enginn betur en verkalýðsfélögin sjálf. Á hinu er ekki vafi, að með stofnun þessara sambanda styrktust samtökin, einstök verkalýðsfélög úti á landsbyggðinni fengu meiri aðstoð frá sérsamböndum en verið hafði áður.

Hitt er rétt og satt hjá hv. 9. þm. Reykv. Jóni Baldvin Hannibalssyni, að Alþýðusambandið þarf að gera átak í að breyta skipulagi sínu, svo að það verði betur í samræmi við breyttan tíma. Ég tek undir það. Sú vinna á að fara fram hjá Alþýðusambandinu og í verkalýðsfélögunum, en ekki með lagaboðum frá Alþingi. Lausnin á þessum málum er ekki fólgin í vanhugsuðum lagabreytingum á Alþingi. Hún verður að koma frá verkalýðsfélögunum sjálfum.

Tillögur hv. þm. Vilmundar Gylfasonar eru e.t.v. settar fram í góðri meiningu. Ég hef talið upp galla tillagnanna. Þær bjóða upp á tvöfalt kerfi á vinnumarkaðinum. Þær bjóða e.t.v. upp á 200–300 verkalýðsfélög í Reykjavík einni. Þær stuðla að algerri ringulreið á vinnumarkaði, sem mundi framkalla ný lög um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem hlutur verkalýðsfélaga yrði örugglega fyrir borð borinn. Þær stuðla að veikari heildarsamtökum þar sem veruleg hætta er á að samhjálpin og samtökin í heild yrðu veikari. Þær bjóða upp á að einstakir sérhagsmunahópar fái mun sterkari stöðu í þjóðfélaginu en þeir hafa nú, og finnst sjálfsagt flestum nóg um. Þær boða þrátt fyrir faguryrði þm. veikari stöðu þeirra lægst launuðu. Það er ömurlegt að slíkar tillögur skuli koma frá þm. sem kennir sig við jafnaðarmannarokk. En hitt veit ég, að flokksbræður hana í verkalýðshreyfingunni eru andsnúnir þessum tillögum, og það er trúa mín að yfirgnæfandi meiri hluti flokksbræðra hans hér á Alþingi sé þeim einnig andsnúinn.

Ég legg til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til hv. félmn.