08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Mér heyrist að það ætli að fara svo um þetta mál eins og mörg önnur, að hv. flm. muni drepa það sjálfur með því hvernig hann heldur á málinu og hvernig hann talar fyrir því og meðhöndlar það. Ég sé ekki betur. Mér datt nú ekki í hug að ég mundi tala hér neitt í þeim dúr að hv. þm. Vilmundur Gylfason mundi geta komið því heim og saman við sígildar bókmenntir í framtíðinni, enda hef ég engan áhuga á því í raun og veru að tala því máli hér sem hann mundi flokka undir sígildar bókmenntir. Ég er kannske, ef það má orða það svo, ég er þessi almenni maður í þjóðfélaginu sem hann segist vera að tala fyrir, en í þessu tilfelli a.m.k. fara okkar skoðanir bara ekki saman um það, hvort hér sé verið að stiga skref til bóta fyrir þá sem verst eru settir eða hvort hér sé verið að fara inn á þær brautir, sem kunni að leiða til þess í framtíðinni að við séum að gera enn verr við það fólk, sem við viljum þó að ég hygg, bæði ég og hann, ég ætla honum ekki annað, styrkja í baráttunni fyrir bættum kjörum.

Hv. þm. hefur margoft ítrekað að samkv. 2. gr. í vinnulöggjöfinni, lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, væri óheimilt að stofna nema eitt stéttarfélag innan sama sveitarfélags. Þetta er alrangt. Og það er furðulegt að hv. þm., sem er fyrrv. dómsmrh., skuli leyfa sér að fullyrða slíka hluti. Það er búið að lesa upp fyrir hann hér úr ræðustól 2. gr. í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og ég sé ekki ástæðu til að gera það aftur. Þetta er á hreinu. Það er ekkert í þeirri löggjöf sem meinar einstaklingum að stofna annað verkalýðsfélag, þó að það sé innan sama sveitarfélags, og meira að segja hafa fallið um þetta dómar eins og hér hefur verið lýst. Eftir sem áður þrástagast þessi hv. þm. á því að þetta sé óheimilt. Þetta er bara rangt.

Hv. þm. komst svo að orði einhvern tíma um þetta frv. sitt, að það hefði það til síns ágætis að launajöfnuður væri innbyggður í þetta kerfi. Ég vildi að svo væri. Þá skyldi ég vera meðal fyrstu manna til þess að styðja slíkt mál. En því er bara ekki svona farið, hv. þm. Ég hygg að því sé þveröfugt farið. Ég held að með slíku kerfi eins og hér er lagt til að taka upp, fengjum við enn fleiri tiltölulega smáa forréttindahópa sem ganga á það lagið að verða þröskuldur fyrir því að þeir, sem eru verst settir, nái leiðréttingu mála sinna. (VG: Annað segir Guðmundur J.) Ég er ekki að tala um Guðmund J., ég er að tala um hv. þm. Vilmund Gylfason og hans skoðanir.

Almenningur í landinu er í vaxandi mæli þeirrar skoðunar að það sé tiltölulega of mikið af hinum fámennu þrýstihópum, sem eru miklu betur settir í þjóðfélaginu heldur en stór hópur annarra manna, sem vinna þó enn verri störf, það sé nóg af slíkum þrýstihópum tiltölulega fámennum, sem hafa vegna aðstöðu sinnar í þjóðféfaginu getað skriðið upp eftir bakinu á láglaunafólkinu, ef það má orða það svo. Með því að leggja það til sem hér er verið að gera óttast ég að verið sé að fjölga þessum forréttindahópum á kostnað hins almenna manns, sem er á gólfinu, eins og hv. þm. vill tala um hann. Og ég er andvigur því. Ég tel að okkar þjóðfélag sé komið allt of langt í því, a.m.k. eins og málin eru í dag og kringumstæðurnar, að það séu einstakir tiltölulega fámennir farréttindahópar, sem tröllríða í raun og veru öllum hinum sem eru miklu verr settir. Yrði sú breyting gerð er í þessu frv. felst yrði það til þess að enn frekar yrði gengið á þetta lagið, en hinir, sem verst eru settir, yrðu áfram og í enn frekara mæli en þó hefur verið skildir eftir, og hefur mér a.m.k. fundist nóg um.

Hv. þm. sagði lagakerfið ónýtt, af því að það fellur ekki að þeim hugmyndum sem hann vill hafa í þessu tilfelli. Hann má hafa þá skoðun. En eins og lögin eru um stéttarfélög og vinnudeilur, þá heimila þau tvö stéttarfélög innan sama sveitarfélags. Og hv. þm. verður að gera sér grein fyrir að þetta er rétt. Hann sagði að ég hefði sagt hér áðan: Dreifið valdinu til mín. Ég sagði þetta ekki. En það má vel vera að hv. þm. vilji að meira vald fari til mín en þegar er komið. Og ekki hef ég á móti hví að hafa vald. En ég held að ég tali af nokkru meiri reynslu í þessum efnum heldur en hv. þm. Vilmundur Gylfason. Ég tel mig a.m.k. hafa fengið allmikla skólun og reynslu, að því er þessa hluti varðar, í gegnum 25 ára starf innan verkalýðshreyfingarinnar, og miklu meiri reynslu heldur en einstaklingur, sem aldrei hefur nálægt slíkum félagsskap komið, aldrei. Það segir auðvitað ekki endilega það að ég hafi alltaf rétt fyrir mér í slíkum málum. En ég held — og er raunar viss um það, að það er yfirgnæfandi skoðun þess fólks, sem er félagshyggjufólk, sem hefur tekið þátt í félagsmálastarfi, ekki síst innan verkalýðshreyfingarinnar, að skref í þessa átt yrði til hins verra fyrir launafólkið í landinu, og þá fyrst og fremst fyrir það launafólk í landinu sem þessi hv. þm. telur sig í orði a.m.k. vilja verja.

Hv. þm. sagði hér áðan að talsmenn ófaglærðs verkafólks vildu engu breyta. Ég sagði hér fyrr í dag: Ég hef ekki heyrt eina einustu rödd frá hinum almenna félaga í verkalýðsfélögunum, þó að menn færu hringinn í kringum landið, sem hefur tekið þetta mál upp í sínu félagi til þess að berjast fyrir framgangi þess, ekki eina einustu rödd. Og ég held að það segi sína sögu um viðhorf þess fólks, sem kæmi til með að búa við þær aðstæður, sem þessi breyting kynni að hafa í för með sér, þannig að ég tek ekki undir það með hv. þm. að málið sé á „dúndrandi sigurgöngu“ eins og hann orðaði hér áðan. Ég sé engin merki þess að hinn almenni félagsmaður, „maðurinn á gólfinu“ eins og hv. þm. talar alltaf um, sé æstur í þessa breytingu. Svo spyr Hv. þm.: Af hverju má ekki vilji fólksins koma fram? Hver hefur á móti því að vilji fólksins komi fram? Sé það einhver, þá er það í mínum huga frekar hv. þm, Vilmundur Gylfason en við hinir, sem höfum verið að tala öðru máli heldur en henni. Ég held að það fari ekkert á milli mála að væri þetta almennur vilji fólksins í verkalýðshreyfingunni, þá mundi forusta hennar að sjálfsögðu taka mið af því.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég heyri að annar hv. þm. vill komast að og ég vil gjarnan leyfa honum það líka. Það kemur væntanlega tækifæri til þess að ræða þetta frekar, og ég er talsmaður þess að málið fái þinglega meðferð, að það verði ekki á það sest. Og ég hef ekki trú á því, að a.m.k. formaður félmn., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hafi neina tilhneigingu til þess að setjast á þetta mál, eins og hugsanlega hefði mátt álykta af ummælum hv. þm. áðan.