08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þetta skulu verða aths. um þingsköp. Hér erum við að tala um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, ekki venjulegt lagafrv., ekki ályktun Alþingis, ekki ályktun félagasamtaka. Við erum að fjalla um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins. Við erum að tala um háttu, eðli og starf Alþingis. Inn í það fléttast auðvitað hversu margir þm. eigi að vera og hvaða verk þeir eigi að vinna.

Við þetta frv. hafa verið fluttar fjölmargar brtt. Meginþorri þeirra hefur verið dreginn til baka til 3. umr., til þeirrar umr. sem forseti er nú að leggja til að fari fram á þessum fundi. Auk þess hafa verið boðaðar aðrar brtt. um breytingar sem ganga til töluvert annarrar áttar. Menn geta auðvitað ekki séð, fyrr en niðurstöður úr atkvgr. við 2. umr. þessa máls liggja fyrir, hvernig þeirri 3. muni með skynsamlegum hætti af reiða. Menn gætu þurft að breyta og bæta eða endurflytja þær brtt., sem um er að ræða og ekki eru teknar hráar úr 2. umr., heldur bætast við.

Það er því, herra forseti, frá bæjardyrum Alþingis séð gersamlega óviðunandi að gerð sé tilraun til að þvinga fram 3. umr. þessa máls með því sem ég kalla þingleg bolabrögð. Það er engin ástæða til annars en þess, að 3. umr. fari fram á morgun með eðlilegum hætti og ekki sé verið að leita afbrigða frá þingsköpum til þess, vegna þess að hér erum við að tala um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins og breytingar á henni. Ég, herra forseti, er því þeirrar skoðunar, og ég treysti því að aðrir hv. þm., hvort sem þeir eru meðmæltir eða mótmæltir þessari fjölgun, hvort sem þeir styðja önnur mál, sem verið er að leggja til, taki undir slíkar kröfur, að það sé gersamlega óeðlilegt, þegar verið er að breyta sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins, að gera það með afbrigðum frá þingsköpum.

Herra forseti. Ég set fram óskir og ég geri beinlínis kröfur um það, að 3. umr. þessa máls fari fram á morgun. Ég lýsti því á næturfundi í nótt, að til stendur að flytja brtt. við 3. umr. til viðbótar við þær sem þegar hafa verið fluttar. Það er auðvitað ekki hægt að ganga frá þeim endanlega fyrr en niðurstaða úr atkvgr. við 2. umr. kemur í ljós. Þær eru ekki tilbúnar og þetta er gersamlega óeðlilegt. Ég vil fá að kynna brtt. fyrir öðrum hv. þm. Það er því eðlilegt að 3. umr. um þetta mál fari fram á morgun, einnig vegna þess að hér er um stjórnarskrána að ræða, en ekki venjuleg lög — verk sem lengi skulu standa ef vel hefur verið til vandað.

Af þeirri ástæðu, herra forseti, og hér er um mjög veigamikið prinsippmál að ræða þegar hv. Nd. Alþingis er að breyta stjórnarskrá lýðveldisins, þá fái menn þann lágmarkstíma sem nauðsynlegur er. Ég set því fram þá ósk og geri þá kröfu, að þessari umr. verði lokið svo sem venjulegt er, það sé ekki verið að þröngva henni fram með bolabrögðum eða með afbrigðum, heldur fari hún fram á morgun, og ég treysti því að einhverjir aðrir hv. þm., jafnvel þó þeir taki þátt í þessum leik fjórflokkakerfisins um fjölgun þm., taki undir þetta, því að við hinir, jafnvel þó að við séum í minni hl., eigum líka okkar rétt í þessu húsi.

Herra forseti. Það er því ósk mín og það er krafa mín að 3. umr. þessa máls verði frestað til morguns.