08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Afgreiðsla þessa máls er alveg óviðunandi. Það hafa komið fram efnislegar röksemdir fyrir því m. a. að menn þurfa að endurflytja brtt. Menn kunna að þurfa að endursemja þær, menn kunna að þurfa að flytja nýjar brtt. í ljósi þeirra úrslita málsins sem hér liggja fyrir.

Ég vildi, herra forseti, áður en afbrigða er leitað, hvetja til þess að formenn þingflokka, t. d. formaður stærsta þingflokksins, hv. þm. Ólafur G. Einarsson, sé hann stuðningsmaður þess að hér eigi að riðlast og bolast áfram með þeim hætti sem hér er verið að gera, geri þinginu grein fyrir hvers vegna ekki má bíða til morguns. Við erum að tala um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins og ég óska eftir því að talsmenn þingflokka, hverjir sem þeir eru, það er ekki svo mikill munur á svo sem, segi þinginu ástæðu sína fyrir því að hér á að fara að riðlast áfram með afbrigðum þegar verið er að fjalla um sjálfa stjórnarskrána. Menn hljóta að hafa einhverjar röksemdir fyrir því.

Ég hef verið að skýra mín rök fyrir því að ég vil bíða til morguns með afgreiðslu á þessu máli og heyri eitthvað undir umr. um þingsköp er það væntanlega þetta. Ég vil fá að heyra rök, en ekki að forseti níðist áfram í rökleysu eins og hér er verið að gera. Hver eru rökin fyrir því að halda áfram með þessum hætti, þegar við erum að tala um sjálfa stjórnarskrána, breytingar við hana, samþykktar eða felldar eftir atvikum?

Ég vildi kalla á og knýja á um að t. d. hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. og formenn annarra þingflokka, sem hér eru, segi þinginu og þjóðinni af hverju skuli hafa þennan hraða, af hverju þennan flýti. Ég tek undir það með hv. 5. þm. Vestf., herra forseti, að áður hefur verið orðið við slíkum óskum. Menn segja að hér eigi að fara að rjúfa þing innan tíðar. En við erum að tala um sjálfa stjórnarskrána. Við erum að tala um stjórnarskrána. Einn eða tveir dagar geta ekki verið svo mikils virði af eða frá að menn geti hastað vinnu við sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins. Því set ég, herra forseti, fram þessa kröfu og ég krefst þess, að áður en til afbrigða kemur geri þeir hraðamenn í þessum efnum þinginu grein fyrir hvers vegna þeir og þeirra flokkar heimta þennan hraða á afgreiðslu þessa máls um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins. Einhverjar röksemdir hljóta að vera fyrir því.

Ég segi ennfremur, herra forseti, að oft vil ég fallast á að umr. um þingsköp fari út fyrir leyfileg mörk, en umr. um með hverjum hætti skuli bolast áfram með mál af þessu tagi falla svo sannarlega undir þennan ramma og eiga þær umr. að vara svo lengi sem hv. alþm. kjósa.

Ég sé að hv. þm. Ólafur G. Einarsson hefur beðið um orðið. Í þessum efnum verða menn að hafa skoðun og taka afstöðu. Þetta eru mínar ástæður. Bæði verða endurfluttar, endursamdar og fluttar nýjar brtt. við 3. umr. málsins og ég vil hafa þann tíma sem ber. Ég þarf að ráðfæra mig við þá sem mér ráðleggja í slíkum efnum. Það gera menn ekki á hlaupum. Þetta er óhófleg beiting valds — ég nota ekki sterkara orð — sem hér á að fara fram. Við getum vel beðið til morguns. Ég set fram ósk og geri kröfu um að með þeim hætti verði staðið að þessu máli, nema ég verði sannfærður með öðrum rökum. Við skulum þá hlýða á þau.