08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan kosið að koma aths. mínum eða orðum um þetta frv. fram við 2. umr. málsins, en af sérstökum óviðráðanlegum ástæðum fékk ég ekki við það ráðið.

Ég vil taka það fram, að ástæðan fyrir því að ég ljæ þessu máli fylgi mitt er sú, að hér hefur tekist um málið víðtækt samkomulag og að ekki verður séð að málið ráðist með farsælli hætti til lykta en orðið er. Þetta er ávinningur, en að vísu hefði ég kosið að málið hefði verið öðruvísi úr garði gert í ýmsum atriðum, og einkum og sér í lagi hefði ég kosið að ýmsar fleiri breytingar hefðu náð þar fram að ganga um leið. Ég vil taka það fram, að fjöldi þingmanna, sem menn hafa gert að miklu máli og jafnvel að höfuðatriði, skiptir að'mínum dómi ekki máli, enda þótt við hefðum brugðið á það ráð að hafa þá 66 eða 67, eins og menn ræddu sín í milli um hríð.

Það hefur sýnt sig, þegar breytingar á þessu hafa verið gerðar, að ráðning þessarar gátu hefur ekki tekist nema með því að fjölga þm. Fyrir því er það, að mér sýndist löngum að það gæti orðið til að liðka mjög fyrir um framgang málsins að þm.-fjöldinn hefði verið ákveðinn hærri en raun ber vitni um, eins og til að mynda 67. Og það er einkennilegt og dapurlegt til þess að vita að mér virtist sem ýmsir utanaðkomandi aðilar hefðu þar gagngerð áhrif á þingheim.

Þá er þess enn að geta, að ég hafði mikinn áhuga á að hæstv. forsrh. hverju sinni og hver sem hann er yrði sviptur þingrofsrétti. Ég hef sérstakan áhuga á að það skipulag komist á, sem ríkir í Noregi, að þjóðin velji sér löggjafarsamkundu til fjögurra ára og hún verði ekki leyst upp. Því er það, að þm. verða að fá þjóð sinni stjórn í fjögur ár og enginn þingrofsréttur getur verið verslunarvara frá mánuði til mánaðar, eins og staðreyndir hafa blasað við okkur að hefur verið í þessu veslings landi. Ég er sannfærður til að mynda um það, að sú áhrifalausa og valdalausa stjórn sem stritað hefur við að sitja síðan löngu í fyrra, á árinu 1981, en hefur nú misst öll völd, hefði hlotið að fara frá og önnur stjórn verið mynduð ef þetta hefði gilt ef menn hefðu ekki haft eitthvað í rassvasanum sem hét að versla með það sem kallað er þingrofsréttur, að vísu þverbrotin ákvæði stjórnarskrárinnar varðandi þennan þingrofsrétt, sem kveður svo á um að forsrh. skuli fara með hann, en þetta er eitt af undirborðssamningsatriðunum þegar að því kemur að hrúga upp stjórn, eins og það fór nú þokkalega úr hendi hér um árið.

Þá hefði ég enn áhuga á því að ekki þyrfti aukinn meiri hl. til þess að stjórn hverju sinni næði fram málum sínum á hinu háa Alþingi. Ég er talsmaður deildaskiptingar, ég er talsmaður málfrelsis, sem kemur því máli beinlínis við, þar sem tvær deildir geta starfað í einu og mundi verða miklu þyngra í vöfum ef hið háa Alþingi yrði gert að einni málstofu. En ég vil eyða þessum órétti, sem kallaður verður, að eina atkvæðið sé ekki nægjanlegt til að ná fram máli. Þá á ég við það, að ef þrautreynt er á milli deilda að málið náist ekki fram, þar sem stendur þann veg á til að mynda, eins og í Nd. nú, að þar er hægt að stöðva framgang mála, enda þótt 31 þm. styðji eða hafi átt að heita svo að styðji hæstv. ríkisstj., þá væri hægt að stefna þeim málum til lokaafgreiðslu fyrir Sþ. Ég er maður þingræðisins og lýðræðisins þar sem eina atkvæðið ræður úrslitum. Þessi eins atkv. munur er undirstaða og hornsteinn þingræðis og lýðræðis, að eftir því sé farið. Ég tala nú ekki um þegar þingræðis- og lýðræðiskenndin er orðin svo sterk að mönnum finnst kannske að 3–4 atkv. eigi að ráða yfir 18. Það er ekki langt síðan það reið yfir okkur í Sjálfstfl. En ekki náðist þetta fram. Satt best að segja verð ég að lýsa yfir óánægju minni með hversu menn voru tjóðraðir við tölvuna, en skeyttu lítið um ýmis mikilvæg atriði sem ástæða hefði verið að huga sérstaklega að. En ég mun vinna að framgangi þessara mála áfram ef ég á og fæ til þess tækifæri.

Þá var það enn, og það snertir mál sem margir í orði kveðnu láta sem þeir beri fyrir brjósti, og það er að skilja sem mest í milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Fyrir því er það að ég hef gert tillögur um og beitt mér fyrir því að ráðherrar vikju úr þingsæti sínu þegar þeir tækju við þeim störfum og kallaðir yrðu inn varamenn þeirra. Þetta er sama fyrirkomulag og gildir í Noregi. Þarna er beinlínis verið að gera tilraun til þess, sem menn telja eðlilegt, að skilja enn frekar í milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins. Ekki náði þetta fram að ganga og ég veit raunar ekki hversu langt frekar en hin atriðin sem ég hef minnst á. .4. m. k. komu mínir menn til baka engu erindi fegnir.

Ég vildi minnast á þetta sérstaklega af því sem ég er staðráðinn í því fyrir mína parta að halda áfram að beita mér fyrir þessum breytingum, sem ég hef nú nefnt og ég hygg að megi finna fylgi við hér á hinu háa Alþingi, enda þótt mönnum hafi ekki sýnst tök á því að ná því fram nú.

Ég tók fram í upphafi máls míns að ég hefði ýmislegt við þetta frv. til stjórnarskipunarlaga að athuga, en úr því sem komið er sé ég engin tök á því önnur en ljá því atkv. mitt, líka vegna þess að hæstv. forsrh. hefur tekið sig til og lagt hér fram eitthvert heildarfrv. til breytinga á stjórnarskránni. Þau vinnubrögð ofan í það kaup að allir stjórnmálaflokkarnir, þeir sem eiga þm. hér á þingi, hafa náð samkomulagi eru með ólíkindum og býr eitthvað fleira á bak við en venjulegir menn geta ráðið í hvað er, enda ætla ég ekki að fást við svo flóknar lífsgátur , sem jafnan er verið að fitja upp á á þeim bæ. En við skulum vona og vænta þess að það verði samt til þess að menn komist með sæmilegum sóma til botns í því máli sem menn fást nú hér við að afgreiða í lokaumr. í þessari hv. deild.